trusted online casino malaysia
Grímur Atlason 22/06/2014

Af hugmyndafræði og raunveruleika

Fyrir 10 árum var vistheimilinu í Gunnarsholti lokað. Það komst næst því að vera líknandi meðferð fyrir langt leidda alkóhólista. Annað heimili, sem sinnti sambærilegu hlutverki um tíma, var hjúkrunarheimilið í Víðinesi sem lokaði fyrir rúmum 4 árum. Eins og venjulega átti að bæta þjónustuna, nútímavæða hana og gefa einstaklingunum betra líf sem áður fengu þjónustu á þessum stöðum. Þess vegna var þessum heimilum lokað.

Ég starfaði við meðferð langt leiddra vímuefnaneytenda í Danmörku seint á síðustu öld. Starfaði síðan að málaflokknum í Reykjavík síðustu árin sem Gunnarsholt var rekið. Ég gerði athugasemdir við Samhjálpar- og Byrgisvæðingu úrræða og gagnrýndi skort á samráði. Gerði einnig athugasemdir við lokun Gunnarsholts og þeirra leiða sem urðu ofan á í kjölfarið. Því miður þekki ég sjúkdóminn allt of vel og þá eyðileggingu sem hann getur valdið. Ábendingar mínar um kerfið hafa því miður flestar reynst réttar og hefur fjölskylda mín í mörg ár þurft að glíma við afleiðingar hins brogaða kerfis.

Saga föður míns
Síðustu 4 árin hefur faðir minn verið lagður inn á sjúkrastofnun að jafnaði tvisvar sinnum í mánuði. Hann hefur dvalið um 100 daga á ári inni á þessum stofnunum. Ástæða þessara innlagna er alkóhólismi og afleiðingar hans. Árin fyrir 2010 var faðir minn einnig lagður svo tugum skiptir inn á ýmsar stofnanir og sjúkrahús vegna veikinda sinna. En ég kaus að telja saman síðustu 4 árin til að setja hlutina í eitthvað samhengi.

Fyrsti viðkomustaður hans er oftast sjúkrabíll og í kjölfarið bráðadeild. Oftast er hann sendur heim eftir 1.-2. sólarhringa innlögn. Stundum fer hann á aðrar deildir á Landspítalanum: Gjörgæsludeild, lyflækningadeild, hjartadeild, lungnadeild, meltingadeild, skurðdeild, smitsjúkdómadeild og/eða aðrar deildir sem hafa laust rúm. Í framhaldinu er það 33-A og stundum Vogur og jafnvel Vík náist meira en 30 daga stopp á neyslu. Aðrar meðferðarstofnanir hafa einnig verið heimsóttar oft á þessum tíma og hvíldarinnlagnir á Hrafnistu. Síðustu 4 árin hafa hlutirnir breyst hratt og hnignunin verið algjör. Alkóhólistinn er orðinn eldri og veikari.

Sorgirnar og erfiðleikarnir sem þessi sjúkdómur hefur kallað yfir föður minn og fjölskylduna er vart hægt að lýsa. Skaðinn, fortíðin og sárin eru staðreynd og ekkert hægt að gera til að breyta orðnum hlut. En það er með ólíkindum að horfa upp á hvaða meðferð alkóhólistum á lokametrum sjúkdómsins er boðið upp á í meðferðarríkinu Íslandi (meðferð við alkóhólisma er hér eins sjálfsögð og þekkist í heiminum). Og ekki er það vegna sparnaðar, sem kerfið er svona, því núverandi kerfi kostar samfélagið svo miklu miklu meira en það þyrfti að gera. Þá er ég ekki að tala um annað en beinan kostnað við úrræðin sem eru í boði. Óbeinn kostnaður samfélagsins vegna alkóhólisma er gríðarlegur.

Hvað ætli sjúkrasaga föður míns sl. 4 ára hafi kostað skattborgarana? Hver sólarhringur á Landspítalanum kostar að jafnaði 150.000 – 200.000 kr. Kostnaður við hvern sólarhring á Vogi er í kringum 20.000 kr. en faðir minn hefur sl. 4 ár verið í u.þ.b. 80 daga þar inniliggjandi. Kostnaður við dvöl á Vík er eitthvað minni en þar hefur faðir minn verið í um 60 daga sl. 4 ár. Hvíldarinnlögn á Hrafnistu kostar eitthvað líka. Lyfjakostnaður er einnig umtalsverður og ekki síst vegna þess að flesta daga gleymir hann að taka lyf sem honum eru nauðsynleg. Kostnaður samfélagsins vegna þessara innlagna föður míns á Landspítalann og stofnanna SÁÁ auk annarra stofnanna er ekki undir 35 m.kr. á örfáum misserum. Ég er ekki að reyna ýkja eitt né neitt heldur aðeins að benda á staðreyndir.

Úrræðaleysi
Úrræðin sem eru í boði fyrir alkóhólista eins og föður minn eru í rauninni engin. Stofnanir eins og Gunnarsholt, Víðines og Arnarholt voru nær því sem ætti að vera í boði. Þessar stofnanir voru ekki gallalausar en í stað þess að bæta það sem þurfti að bæta var þeim lokað. Fögur hugmyndafræði um nálægð við ættingja, menningu og meiri lífsgæði er óneitanlega falleg á pappírunum. En sú hnignun og niðurlæging sem fylgir lokastigum alkóhólisma er allt önnur og nöturlegri mynd. Veruleikinn er sá að veikir einstaklingar eru án úrræða og þjónustu. Neyðin og úrræðaleysið kostar síðan samfélagið milljónir og milljónatugi á hverju ári fyrir hvern einstakling sem svona er komið fyrir.

Ég hef setið óteljandi fundi með læknum og fagfólki þar sem reynt er að hjálpa föður mínum en úrræðaleysið er algjört. Rúnturinn er eins og áður sagði oftast sá sami: Hjartaflökt; sjúkrabíll; bráðavakt; innlögn á sjúkradeild í nokkra daga; síðan innlögn á 33-A í 10 daga að jafnaði; útskrift hvar félagsþjónustan lítur inn 2svar til 7 sinnum í viku. Venjulega hefst drykkja 2 til 48 klst. eftir heimkomu.

Fyrir tæpum 4 vikum var hringt frá bráðamóttöku. Þau voru að senda föður minn heim. Ég spurði og hvað á ég að gera í því? Það var fátt um svör. Nokkrum klukkustundum síðar var hringt í mig frá lögreglunni: “Við erum hér á heimili föður þíns og hann er vægast sagt í vondu ástandi og heimilið rústir einar. Við getum ekki skilið hann eftir í þessu ástandi.” Ég svaraði: “Og hvað á ég að gera í því og hvað get ég gert í því?” Héraðslæknir mætti – taldi málið alvarlegt en varla réttlætanlegt að hafa meira vit fyrir honum en í 48 klst. Hann var lagður inn á bráðadeild, þaðan fór hann á 33-A. Við héldum fundi. Íbúðin var þrifin og endurmubbleruð. Kumbaravogur, Fellsendi, Njálsgata 74 – já það vantaði ekki að málin voru rædd í þúsundasta skipti. En heim fór hann því það þurfti jú að gæta að sjálfsvirðingu hans og sjálfstæði.

Hann kom heim fyrir 9 dögum. Hóf drykkju fyrir 8 dögum. Var rændur á bar í vikunni fyrir framan barþjóninn sem gerði ekkert – þetta er jú bara róni. Hann hefur mér vitanlega legið í götunni bjargarlaus í þrígang á þessum stutta tíma. Í þau skipti var hringt í mig og mér boðið að gera eitthvað í málunum. Í gær var hann síðan lagður inn á bráðadeild. Í dag verður án efa hringt í mig og mér tjáð að hann sé á leiðinni heim, hvað ég ætli að gera í því að hann finni ekki lyklana sína og komist ekki leiðar sinnar. Það er þetta með sjálfsákvörðunarréttinn.

Aftur og aftur og aftur og aftur…

Líknardeild
Ég legg til í dag eins og ég lagði til fyrir 10 árum að sveitarfélög og ríki taki höndum saman við lausnina. Hún er að setja á laggirnar líknardeild í anda Gunnarsholts hvar langt leiddir alkóhólistar á efri árum geta eytt ævikvöldinu. Þörfin er svo sannarlega til staðar og fjármunir til rekstursins einnig. Verkefni ríkisins er hjúkrun en sveitarfélaganna félagslegi þátturinn. Sameining félagsmála- og heilbrigðisráðuneyta snérist m.a. um þessa samfellu í málum. Ég skora á Dag B. Eggertsson og borgarstjórn alla að kynna sér harmleikina og hvar skóinn kreppir. Velferðarráðherra Kristján Þór Júlíusson ætti að auki strax að láta málið sig varða. Þetta er að gerast núna, alla daga aftur og aftur og aftur.

Flokkun : Pistlar
1,436