trusted online casino malaysia
Arnaldur Sigurðarson 29/05/2014

Hræðsla, lýðskrum og lýðræði

Sveitarstjórnarkosningarnar 2014 snúast ekki bara um hefðbundin borgar- eða bæjarmál. Þau snúast ekki síst um það hvort lýðræðisbreytingar síðustu ára haldi áfram að vaxa og þróast, eða hvort við veljum yfir okkur fyrri húsbændur af ótta við að djöfullinn sem við þekkjum sé skárri en sá sem við þekkjum ekki. Slíkt val heitir með réttu vonar-völ, en kjósendur velja ekki síst flokka út frá þeirri von að stjórnmálamenn séu ekki bara málglaðir, heldur einnig framkvæmdaglaðir.

Á undanförnum árum hafa átt sér stað grundvallarbreytingar á framkvæmd lýðræðisins. Ekki einungis hefur fjórflokkurinn gamli gengið sér gersamlega til húðar vegna innri galla, heldur hefur ný tækni og nýir samskiptamátar valdið hugarfarsbreytingum sem er kominn tími til að endurspeglist í kjörnum fulltrúum á sveitarstjórnarstigi.

Við Píratar höfum haft ærin verkefni frá því við komumst inn á þing fyrir ári síðan. Þar má nefna uppbyggingu flokksins, innviða, tryggingu á ferlum og gæðastöðlum, öflun fjármagns, málefnavinnu, stofnun aðildarfélaga og síðast en ekki síst undirbúning og framkvæmd sveitarstjórnarkosninganna. Við frambjóðendur finnum skýrt að miklar vonir eru bundnar við framboð Pírata, ekki síst að við stöndum fast á Píratagildunum, og tökum ekki þátt í kjósendasmölun með því að hlaupa upp með vinsæl tilfinningamál örskömmu fyrir kjördag.

Verkefni Pírata hafa verið krefjandi en fyrst og fremst hefur starfið verið skemmtileg og hvetjandi. Það er gaman að vera Pírati og i gegnum starfið höfum við fyllst von um að hægt sé að ná fram raunverulegum breytingum ef við erum nógu málefnaleg, einbeitt og ærleg. Allt það góða fólk sem hefur komið til okkar og gengið til liðs við flokkinn krefst þess að við höfum skýr markmið og gætum þess að hafa grunngildi Pírata ávallt að leiðarljósi í ákvörðunum og þegar við gerum mistök – nú þá viðurkennum við þau bara, lærum af þeim og gerum betur. Einn stærsti kostur Pírata er hvað þeir eru óhræddir við að horfast í augu við sjálfa sig. Píratar þora að leggja i nauðsynlegar þjóðfélagsbreytingar, vitandi að verkefnið krefst mikillar orku og aga.

Við Píratar höfum heildstæða hugmyndafræði til að mæla okkur við og þess vegna gerum við ríkar kröfur til sjálfra okkar, því við metum sjálf okkur samkvæmt ströngum staðli. Við höfum lagt mikið á okkur að halda okkar málflutningi á málefnalegum og yfirveguðum nótum en getum ekki orða bundist þegar frambjóðendur annarra flokka gengisfella umræðuna og færa hana yfir í gamalkunnugt far hræðslu og þöggunarstjórnmála.

Hræðslan við hið óþekkta er meðfædd grunntilfinning mannsins og það er afskaplega auðvelt að velja sér tilfinningamál þar sem hægt er að spila inn á hræðslu kjósenda og reyna að blása það upp nokkrum dögum fyrir kjördag – í þeirri von að sem fæstir nái að átta sig í tæka tíð. Skammtímaáhrif þessarar aðferðar eru alþekkt, meðal annars í kjölfar árásanna á tvíburaturnana. Þau eru víða kennd í markaðsfræðum og rannsökuð af hug- og sálarfræði. Aðferðin byggir helst á því að spila inn á tilfinningar i trausti þess að neytendur/kjósendur nái ekki að fara yfir röksemdir málsins áður en kemur að því að taka ákvörðun um kaup eða kosningu.

Pírötum finnst full ástæða til að biðja frambjóðendur allra flokka um að halda sig við uppbyggilega og efnislega umræðu þar sem staðreyndir og grunngildi eru höfð að leiðarljósi en ekki órökstuddar upphrópanir. Ennfremur finnst okkur að Framsóknarmenn, sérstaklega, þurfi að standa skil gagnvart kjósendum á allavega tveimur atriðum í kosningabaráttu sinni; annars vegar stórundarlegum yfirlýsingum oddvitans í Reykjavik um úthlutun lóðar fyrir mosku, og hins vegar ritskoðun á ályktun Ungra Framsóknarmanna sem var birt á vef þeirra en fjarlægð skyndilega.

Um var að ræða vantraustsyfirlýsingu Sambands Ungra Framsóknarmanna á hendur oddvita Framsóknar og flugvallarvina, í kjölfar vafasamra ummæla um mismunun í úthlutun lóða eftir trúarskoðunum og ummæli oddvita framboðsins, sem samkvæmt stjórnmálafræðiprófessor „jaðrar við þjóðernispopúlisma“. SUF minnti réttilega á að 65. gr. Stjórnarskrárinnar sem segir „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, ligarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leiti.“

Í flestum stjórnmálaflokkum eru ungliðahreyfingarnar mikilvægt aðhaldsafl, unga fólkið minnir hina eldri á grunngildin og hvetur til stefnulegrar framþróunar. Hvort ályktun SUF var fjarlægð vegna þess að ályktunin, sem fordæmdi ummæli oddvita Framsóknar og Flugvallarvina í borginni, var ekki fullunnin, eða af því að efni hennar var viðkvæmt skal látið ósagt, en þarfnast klárlega útskýringa.

Þau meðöl sem framsóknarmenn beita nú a lokaspretti kosningabaráttunnar helga ekki tilganginn, en sýnir glögglega mun forystunnar og grasrótar Framsóknarflokksins til grunngilda lýðveldisins, og hvað telst viðeigandi hegðun i kosningabaráttu.

Píratar hvetja til umburðarlyndis og kalla eftir samfélagi þar sem margbreytileika mannlífsins er fagnað, en við frambjóðendur Pírata viljum taka af allan vafa að Píratar munu aldrei sýna því umburðarlyndi að mannréttindi séu brotin, hvort sem það er mismunun milli trúfélaga vegna trúarskoðana, eða mismunun einstaklinga vegna kynferðis eða annars, með vísan í trúarskoðanir. Píratar munu standa vörð um mannréttindi og góð vinnubrögð hvort sem það er vinsælt eða hentugt korteri fyrir kosningar.

Píratar eru ungt og kraftmikið stjórnmálaafl sem leggur höfuðáherslu á eflingu borgararéttinda og gagnsæ vinnubrögð til að tryggja heiðarleika og mannvirðingu. Grunnurinn í stefnu okkar er virkt lýðræði, bæði með íbúalýðræði og virkum samræðustjórnmálum þar sem raddir allra eru jafn réttháar. Í stuttu máli: Píratar vilja að þú ráðir.

Þórlaug Ágústsdóttir, stjórnmálafræðingur skipar 3. sæti Pírata í Reykjavík og Arnaldur Sigurðarson, formaður Ungra Pirata skipar 4. sæti á lista Pírata til borgarstjórnar.

Latest posts by Arnaldur Sigurðarson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,274