trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 08/10/2014

Heiftarheimska

 

Ríkisútvarpið er sívirk menningarstofnun. Ekkertfyrirbæri í landinu hefur upp á aðra eins fjölbreytni að bjóða. Það heldur líka úti trúverðugustu fréttastofu landsins. Eigi að síður er sífellt sótt að því. Þessa dagana skammast fjárlaganefnd yfir eyðslusemi þess, ráðherrar byrsta sig yfir ofsóknum rannsóknarblaðamanna sem skýra frá vanhæfni þeirra við stjórn þjóðarbúsins og kirkjumenni skæla vegna þess að ekki er lengur fluttar kristnibænir á Rás eitt á kvöldin.

Ríkisstjórn B og D

Ríkisútvarpið fær ekki það fé til reksturs sem eyrnamerkt er því í fjárlögum. Það er ein ástæða hallareksturs. Um það bil helmingur af þeim fjármunum sem það aflar og til þess renna fer í afborganir og vexti af lánum vegna húsnæðis sem er sérhannað fyrir reksturinn og er honum nauðsynlegur. Vitringarnir tveir, sem fara fyrir fjárlaganefnd, stefna að því að koma útvarpinu á hrakhóla með því að leggja til að húsakynni þess verði seld. Fjármálaráðherra lýsir því yfir að útvarpsgjaldið verði lækkað svo hægt sé að koma skikki á reksturinn. Og án þess að þakka fyrir mannbætandi hugvekjur, sem komnar eru á kvölddagskrá Rásar eitt og fagna tiltækinu, ólmast bænamenn yfir því. Allt þetta grefur undan stofnuninni og bendir ekki til annars en þess að stefnt sé að því að draga úr mætti hennar.

Það er ekkert nýtt að vegið sé að Ríkisútvarpinu af misheppnuðum stjórnmálamönnum og mannkynsbröskurum. En vegna þess að sú heiftarheimska sem nú er teflt fram gegn tilveru þess hefur meira afl og kemur úr hærri sess en oft áður er afar brýnt að þeir, sem vilja tryggja það marþætta starf sem Útvarpið rækir, slái skjaldborg um það og verja það falli. En þeir þurfa líka að gagnrýna það á faglegum grundvelli svo að það megi áfram verða sá risi í menningarlífinu sem það hefur lengst af verið.

Úlfar Þormóðsson
Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,308