trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 07/09/2014

Grafarar

 

Lengi hefur sjávarútvegur verið meginstoð í atvinnulífi okkar. Hann var og er í gjörgæslu stjórnmálanna. Í tregfiski, eða þegar verðfall verður á mörkuðum, grípa stjórnmálin inn í og fella gengi krónunnar. Þannig flytja þau örðugleika útgerðarinnar yfir á herðar okkar hinna.

Síðustu ár hafa verið uppgrip hjá útgerðinni. Það er vel. Í fyrra græddi Samherji 22 miljarða króna á samtvinnuðum rekstri sínum í útgerð og fiskvinnslu hér og þar um heiminn. Þeir eru miklir rekstrarmann og þeim hefur tekist að fá til starfa gott fólk til sjós og lands.

Oft gerist það að mikið er ekki nóg. Það er haft eftir útgerðarmanninum í Samherja að á sama tíma og hagnaður nemur þúsundum miljóna „hafa stjórnvöld haldið áfram aðgerðum sínum gegn félögum í samstæðunni. … Ég er ekki tilbúinn að sætta mig við að höfuðstöðvar alþjóðlegs sjávarútvegsfyrirtækis geti ekki verið á Íslandi en umhverfið hér í dag er farið að hafa neikvæð áhrif og jafnvel hamla okkar starfsemi …“

Þrátt fyrir að stjórnvöld hafa lækkað opinber gjöld á útgerðarinnar svo nemur tugum miljarða talar útgerðarmaðurinn um aðgerðir hins opinbera gegn samstæðunni. Þar á hann við rannsókn Seðlabankans á meðferð útgerðarinnar á gjaldeyri, sem þó er skylda bankans að athuga samkvæmt lögum. Og hvað felst þá, nánar tiltekið, í orðum útgerðarmannsins: Þetta er óllíðandi, segir hann undir þyrnirós, og ef við eigum að fara að lögum eins og hvert annað smáræði, flytjum við starfsemina úr landi.

Með hegðun sinni grafa útgerðarmenn undan stjórnskipan landsins. Og velferðinni. Þeir eru með marga haka á lofti og fjölmargar skóflur í lúkunum, grafararnir. Þeir hafa hrakið fiskimenn úr landi, þeir eru að uppræta farmannastéttina og þeim hefur tekist að gelda stéttarfélög sjómanna með hótunum.

Aflaskipstjóri hrökk frá störfum hér og stundar nú skipstjórn í Evrópu. Hann greiðir sinn skatt í landinu þaðan sem hann rær. Ef skatturinn er lægri þar en sá sem hann ætti að greiða hér heima borgar hann mismuninn hingað til lands. Annar skipstjóri stundar fiskveiðar frá Afríkuríki. Þar greiðir hann hvorki tekjuskatt né útsvar. Og heldur ekki hingað heim. En hann er íslenskur ríkisborgari og þiggur þá þjónustu sem við hin borgum með okkar sköttum, og nýtur sömu réttinda og við í heilbrigðis- og menntakerfinu. Enn einn kafteinninn kom til síns útgerðarmanns fyrir nokkru og kvartaði fyrir hönd áhafnar sinnar yfir því að hún var skikkuð til að sinna störfum sem ekki voru í hennar verkahring samkvæmt kjarasamningum. Útgerðarmaðurinn hlustaði, dró síðan fram prentað blað og rétti skipstjóranum með þeim orðum að ef hann væri óánægður gæti hann bara skrifað undir. Þetta var uppsagnarbréf, svar grafarans við réttmætum kröfum vinnudýranna.

Útgerðin fer sínu fram á sjó og landi. Með hótunum. Á sama tíma dundar forsætis- og dómsmálaráðherra sér við að taka ljósmyndir af sjálfum sér og setja á fésbók milli þess sem hann flytur þjóð sinni fréttir af því í útvarpi, sjónvarpi og blöðum að framundan sé heimsmet í velferð.

Eftirskrift

Farskipaútgerðir hafa látið verða af hótunum sínum. Þær eru farnar úr landi að hluta til og skrá skip sín þar sem skattar er lágir og greiða ekkert af þeim í ríkissjóð Íslands. Fyrir rúmum sólarhring strandaði ms. Akrafell á skeri eða dranga undan Vattarnesskriðum og skóf undan sér. Það er búið að draga það til Eskifjarðar. Nú er jöfnum höndum verið að dæla sjó úr skipinu og sjóða plötur í götin. Áhöfn Akrafells eru erlend.  Það sparar útgjöld. Akrafell er skráð í Limasol á Kípur. Það sparar fé því þar eru skattar lágir og jafnvel endurgreiddir sumir. Akrafell er því kípverskt. Akrafell er í eigu Samskipa. Samskip eru í eigu Ólafs Ólafssonar. Hann situr í Sviss. Hér heima er peningavafstur eiganda kípverska skipsins Akrafells til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara.

Úlfar Þormóðsson
Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Pistlar
2,615