trusted online casino malaysia
Friðrik Þór 08/04/2014

Grænar og bláar krumlur

„Fjölmiðlar eiga að veita aðhald með því að halda uppi faglegri og sanngjarnri umfjöllun og fréttaflutningi. Með faglegri blaða- og fréttamennsku er átt við að þeir sem henni sinna séu sjálfstæðir í vinnubrögðum og nálgist viðfangsefni sitt með hlutlægum hætti og með almannahagsmuni að leiðarljósi. Umfjöllunarefni mótist ekki af hagsmunum eigenda og auglýsenda eða persónulegum skoðunum blaðamanna eða fréttastjóra, heldur þjóni hagsmunum almennings með fréttum og fréttatengdri umfjöllun þar sem skýrt er frá málum á hlutlægan og sanngjarnan hátt“ (Skýrsla nefndar menntamálaráðherra, 2005:17).

Mér finnst það gefa augaleið, út frá öllum faglegum prinsippum og almennum viðmiðunum um vanhæfi og hagsmunaárekstra, að meðal umsækjenda um starf fréttastjóra RÚV komi síðastur til greina aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem nýstiginn er úr stóli aðstoðarmanns formanns Framsóknarflokksins (núv. forsætisráðherra) – og var þar áður málpípa Hruns-banka. Burt séð frá því að viðkomandi, Benedikt Sigurðsson, hafi átt faglega farsælan feril hjá RÚV á árum áður.

Það er allt rangt við að maður í slíkri stöðu verði fréttastjóri RÚV. Hann er vegna þessara starfa ekki með traust og trúverðugleika sem nauðsyn er á. Hann verður sí og æ álitinn pólitísk sending og hagsmunagæslumaður, frekar en faglegur prinsippmaður. Fréttamenn á RÚV munu alltaf hafa bakvið eyrað þessi tengsl slíks nýs yfirmanns og það mun oftar en ekki skyggja á möguleg gömul kynni og fyrri fagleg störf. Ef tortryggnin er ekki næg fyrirfram þá mun fljótt allt fara í háaloft þegar slíkur nýr fréttastjóri fer af braut faglegra prinsippa til að gæta hagsmuna tiltekins stjórnmálaflokks og vinveittra ráðherra.

Meðal umsækjenda eru minnst 4-5 aðrir sem klárlega koma til greina og hafa ekki slíkan stimpil á sér sem gera þá ótraustvekjandi og ótrúverðuga. Hér ber að hafa fagleg prinsipp í heiðri en halda frá illa lyktandi grænum og bláum krumlum.

Flokkun : Pistlar
1,317