trusted online casino malaysia
Friðrik Þór 23/06/2015

Halldór Halldórsson kvaddur

Í dag fer fram útför Halldórs Halldórssonar blaðamanns.

Halldór var og er helsta innlenda fyrirmynd þeirra blaða- og fréttamanna sem vilja ástunda krefjandi og gagnrýna blaðamennsku – rannsóknarblaðamennsku, fylgja málum eftir, velta öllum steinum við, svara öllum spurningum, auðsýna hvers kyns valdhöfum aðhald, sinna hagsmunagæslu fyrir almenning. Og að því frátöldu, að Halldór hjó heldur nærri heilsu sinni með einbeitni sinni og áherslum, þá var hann góð fyrirmynd – og breytir engu um það ömulegar tilraunir meintra sagnfræðinga til að snúa staðreyndum á haus um Hafskips-málið og fleiri slík mál.

Í kennslu minni í blaða- og fréttamennsku á meistarastigi í HÍ auðnaðist mér að fá Halldór nokkrum sinnum að uppfræða nemendur mína og það voru vel heppnaðar kennslustundir. Mergjaðar og kjarnyrtar dæmisögur og gagnlegar ráðleggingar hittu jafnan í mark og sköpuðu lærdómsríkar umræður. Rétt eins og þegar ég vann undir hans ritstjórn á Helgarpóstinum í den; æsingarlaus en einbeitt leiðsögnin hitti í mark –prinsippin voru tær og skýr og vinnubrögðin áttu að vera skipulögð og markviss. Og leiðbeiningin einkenndist af þeim ljúfleika sem þessi harði nagli hafði þrátt fyrir allt yfir að búa – ég man ekki eftir reiðilestrum frá honum (þeir voru sjálfsagt einhverjir), heldur stendur eftir í minningunni þolinmóð og æsingarlaus leiðbeining. Hverju breytti það? Ég hafði verið á flokksblaðinu Alþýðublaðið og byrjað í pólitík og orðið formaður Félags ungra jafnaðarmanna í Reykjavík. Þegar ég fékk starf á Helgarpóstinum undir Halldóri varð það fljótlega miklu betri áætlun að vinna í þágu almennings með því að veita valdhöfunum ríkt aðhald. Enda er pólitíkin uppfull af spillingu og mannvonsku!

Þegar maður horfir yfir sviðið, meðtekur gæði ríkjandi stjórnmála- og viðskiptaleiðtoga og veltir fyrir sér fagmnnsku og dugnaði starfandi blaða- og fréttamanna á Íslandi í dag, þeirra flestra, þá getur maður ekki komist að annarri niðurstöðu en: Ísland hefur misst einn af sínum allra bestu og dugmestu sonum. Það er stór missir.

Friðrik Þór Guðmundsson

Flokkun : Pistlar
1,265