trusted online casino malaysia
Friðrik Þór 09/03/2015

Öfugmælastríð hægrimanna gegn RÚV

Enn einu sinni sem oftar fara hægrimenn hamförum við að reyna að koma vinstri slagsíðu-stimpli á RÚV og nú beinast augu þessa fólks einkum að Agli Helgasyni. Þetta er ekki fyrsta árásin og verður að líkindum ekki sú síðasta.

Samt blasir við að ef það er einhver pólitísk slagsíða innan veggja RÚV þá leitar hún til hægri. Þetta sýna gögn sem hægrimennirnir hafa sjálfir kallað eftir og kynnt. Með fyrirspurnum á Alþingi, ekki síst. Sérstök úttekt var gerð á viðmælendum frétta og fréttatengdra þátta RÚV á árunum 2009 og 2010, farið í saumana á viðmælendum í 18-fréttum RÚV-útvarps, 19-fréttum RÚV-sjónarps, í Speglinum, Kastljósi og Silfri Egils. Þetta var sem sagt eftir Hrun og um það bil frá því að Búsáhaldauppreisnin kom ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá og við tók vinstri stjórn Samfylkingar og VG. Kosningabarátta spilaði inn í. Þetta eru fyrstu tvö ár Hrun-aðgerða.

Rétt er að minnast þess að flokkar í ríkisstjórn hafa alla jafna nokkurt „forskot“; þeir hafa ráðherrana sem veita skal aðhald og eiga tíðum að svara fyrir gjörðir sínar.

Á umræddu tímabili voru fulltrúar stjórnmálaflokka landsins viðmælendur RÚV-þáttanna í heild í alls 1.484 skipti. Þar af voru viðmælendur frá Sjálfstæðisflokknum í alls í 549 skipti eða 37%. Flokkur sem þó fékk „bara“ tæplega 24% í kosningunum 2009. Viðmælendur voru frá Framsókn 270 skipti eða 18,2%, en flokkurinn fékk 14,8% í kosningunum. Samfylkingin hafði megnið af tímabilinu forsætið og forsetastól Alþingis, en viðmælendur frá þessum flokki voru í 293 skipti eða 19,7%. Flokkurinn fékk 29,8% í kosningunum. Viðmælendur frá VG voru 223 eða 15,7%, en flokkurinn fékk 21,7% í kosningunum. Viðmælendur frá BH/Hreyfingunni voru 111 eða 7,5%, en flokkurinn fékk 7,2% í kosningunum.

Það er vissulega rétt að Sjálfstæðisflokkurinn fékk ekki jafn ríkulega (umfram fylgi) „þjónustu“ í Silfri Egils á tímabilinu en var þar samt efstur á blaði. Þegar teknir eru saman viðmælendur í fréttatengdu þáttunum Speglinum, Kastljósi og Silfri Egils koma viðmælendur frá Sjálfstæðisflokknum efst upp með 29,6% – vel umfram kosningafylgi. Sterk viðmælenda-staða Sjálfstæðisflokksins hjá RÚV kom þó sérlega vel fram í kvöldfréttum útvarpsins og sjónvarpsins. Hlutfallið var 38,4% í kvöldfréttum Sjónvarpsins og 39% í kvöldfréttum útvarpsins. Ef miðað er við RÚV í heild og kosningafylgi 2009 blasir við að Sjálfstæðisflokkurinn (stjórnarandstöðuflokkur) var í viðmælendafjölda 13 prósentustigum yfir kosningatölum. Framsókn var 3,5 prósentustigum yfir. VG var 6 prósentustigum undir kosningatölum og Samfylkingin var 10 prósentustigum undir. Viðmælendafjöldinn var á sléttu hjá BH/Hreyfingunni.

Er þetta nokkuð annað en vísbending um hægri slagsíðu – ef einhver slagsíða er á annað borð?

vidmael ruv tafla

Flokkun : Pistlar
2,952