trusted online casino malaysia
G. Pétur Matthíasson 08/04/2014

Getur verið að jörðin sé flöt?

GPM_0612 (minni)Ef íslenskur ráðherra myndi halda því fram í alvöru að jörðin væri flöt, myndi þá hann bara fá tækifæri til að halda þvi fram án andmæla? Myndu blaðamenn og fréttamenn síðan þurfa að heyra í Þorsteini Sæmundssyni stjörnufræðingi og fá hann til að segja að jörðin sé hnöttótt. Án þess samt að það yrði tekið mikið meira mark á honum en ráðherranum. Og heyra svo í kannski Magnúsi Tuma Guðmundssyni líka? Auk nokkurra vísindamanna til viðbótar. Og svo smám saman myndu flestir, en ekki allir, sættast á að jörðin væri nú ekki alveg flöt eins
og ráðherra hefði haldið fram? Kannski væri hún smá kúpt, svona svolítil sveigja á henni, eða eitthvað í áttina að því að vera hnöttótt.

Er þetta virkilega svona?

Já svei mér þá að ég held að það sé einmitt svoleiðis.

Það var nefnilega ráðherra sem hélt þessu fram í morgun, sjá hér. Og meira að segja LÍÚ varð fyrst til að taka sæti Þorsteins Sæmundssonar og segja ráðherra fara með bull, sjá hér.

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra hélt því fram að Evrópusambandið hefði aldrei ætlað að opna sjávarútvegskaflann í samningaviðræðunum við Íslendinga um aðild að ESB. Og maður, sem hlustandi, bara gapti. Hvernig getur einn ráðherra látið svona út úr sér? Spurði maður sjálfan sig.

Þessi staðhæfing brýtur nefnilega öll lögmál heilbrigðrar skynsemi.

Afhverju ætti ESB að ákveða að opna aldrei sjávarútvegskaflann? Var ráðherrann að meina að ESB ætlaði að opna alla kafla nema sjávarútvegskaflann? Og hvað svo? Hætta þá? Það jafngildir jú því að ætla ekki að semja. Það jafngilti því að menn væru að leika sér, að fíflast. Ráðherra núverandi ríkisstjórnar á Íslandi kynnu að haga sér svoleiðis, en það gerir Evrópusambandið ekki.

En samt heldur ráðherra þessu bara si sona fram. Og það er framkvæmdastjóri LÍÚ, sem er nú ekki sá maður að berjast af miklum þrótti fyrir aðild Íslands, eða þau samtök sem hann vinnur fyrir, sem afruglar þetta rugl.

Er til að mynda líklegt að Evrópusambandið hefði sett sérstakt ákvæði í nýja sjávarútvegsstefnu sem beinlínis opnar á að semja við Íslendinga um sérlausn í málaflokknum?

Nei jörðin er ekki flöt, en það vekur manni ugg að ráðherra ríkisstjórnarinnar halda því fram hvað eftir annað og fréttastofur hamast við að sýna fram á hið gagnstæða.

Það er ekki þannig sem við eigum að reka okkar þjóðfélag þessa dagana.

Það þarf að breyta því,

Áður en illa fer.

Flokkun : Pistlar
1,410