trusted online casino malaysia
Arnaldur Sigurðarson 10/10/2014

Friðarverðlaun Nóbels skortir kjark

Í dag var tilkynnt hverjir fá friðarverðlaun Nóbels í ár. Það eru þau Malala Yousafzai og Kailash Satyarti. Vissulega er það sem þau hafa gert aðdáunarvert og eiga þau sannarlega stórt hrós skilið fyrir baráttu sína fyrir friði. Saga Malala Yousafzai er sérstaklega aðdáunarverð í ljósi þess að hún berst fyrir menntun kvenna í Pakistan þrátt fyrir að hafa verið skotin í hausinn fyrir skoðanir sínar. En nú mun ég færa rök fyrir því hvers vegna verðlaunin hefðu frekar átt að fara til Edward Snowden og Chelsea Manning.

Til að byrja með má nefna það að Alfred Bernhard Nobel, sem verðlaunin eru kennd við, er maðurinn sem fann upp sprengiefnið dínamít. Það er því umdeilanlegt hvort hann hafi haft meiri áhrif á stríð eða frið. Annað sem er mikilvægt að hafa í huga; Þeir sem ákveða hverjir verða handhafar friðarverðlauna Nóbels hafa í gegnum tíðina ekki haft kjark til þess að afhenda verðlaunin einstaklingum sem stór ríki á borð við Bandaríkin myndu telja óþægilega. Ef maður skoðar lista yfir þá sem hafa fengið verðlaunin í gegnum árin eru þetta yfirleitt frekar öruggir kandídatar.

Fyrir utan örugga kandídata hafa sumir verðlaunahafar beinlínis verið ógn gegn friði í heiminum. Augljósasta dæmið um það er þegar Henry Kissinger fékk verðlaunin árið 1973. Hann átti að taka á móti verðlaunum ásamt Le Duc Tho, en sá síðarnefndi neitaði að mæta því hann taldi friðarviðræðum Víetnamstríðsins ekki lokið. Kissinger ber höfuðábyrgð á því að Víetnamstríðið færðist yfir í Kambódíu og Laos sem voru á þeim tíma hlutlaus. Margir hafa kallað eftir því að Henry Kissinger verði dæmdur í stríðsglæpadómstólnum í Haag fyrir glæpi gegn mannkyninu og brot á alþjóðalögum, en hann er meðal annars sakaður um að hafa skipulagt morð, mannrán og pyntingar. Kissinger því þurft að takmarka ferðir sínar frá Bandaríkjunum til þess að forðast handtöku.

Annað dæmi um lélega tilnefningu er þegar Móðir Teresa hlaut verðlaunin árið 1979. Hún hlaut verðlaunin fyrir að berjast fyrir réttindum fátæks fólks en á sama tíma talaði hún gegn fóstureyðingum og getnaðarvörnum. Þetta er ákveðin þversögn, því það er vel vitað að fóstureyðingar og getnaðarvarnir, ásamt menntun kvenna, er mikilvægasti þátturinn í að draga úr fátækt í heiminum.

En aftur að Snowden og Manning. Hvers vegna ættu þeir frekar að fá verðlaunin? Þrátt fyrir áhrifin sem Malala Yousafzai og Kailash Satyarti hafa haft á frið í heiminum er það bara dropi í hafið ef maður ber það saman við það sem Edward Snowden og Chelsea Manning hafa gert. Það er þeim að þakka að við vitum í dag að friðhelgi einkalífsins er virt að vettugi um allan heim þrátt fyrir að það sé hluti af stjórnarskrá okkar, mannréttindayfirlýsingu Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna. Fyrir utan það hafa uppljóstranir þeirra komið upp um stríðsglæpi sem framdir hafa verið af hinum svokölluðu friðelskandi bandarísku yfirvöldum. Það væri því eflaust svolítið pínlegt fyrir bandarísk yfirvöld ef verðlaunahafar friðarverðlauna Nóbels væru menn sem Barack Obama, sem fékk verðlaunin árið 2009, hefur lýst sem óvinum bandaríska ríkisins.

Latest posts by Arnaldur Sigurðarson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,354