trusted online casino malaysia
G. Pétur Matthíasson 10/11/2014

Frekar vondaufar þúsundir

Fullt af fólki á Austurvelli

Fullt af fólki á Austurvelli

Ætli það hafi ekki verið langleiðina í 3000 manns á Austurvelli í dag, færri en fyrir viku en við því var alveg að búast. Það er ekki auðvelt að fá fólk til að mótmæla viku eftir viku. Vegna þess að fólk sér ekki árangurinn, stjórnmálamönnunum dettur ekki í hug að virða það sem við erum að segja með því að mæta á Austurvöll. Þeir loka eyrunum og halda bara sínu striki. Ég þarf ekkert að nefna hroka og yfirlæti sem einkennir viðhorf margra þeirra til mótmæla. Sem er hvimleitt viðhorf og æ það væri nú tilbreyting ef menn tækju upp á því að hlusta, svona einu sinni.

Við búum nefnilega í lýðræðisþjóðfélagi og þótt sumir haldi það þá snýst lýðræði ekki um það eitt að kjósa á fjögurra ára fresti. Það snýst heldur ekki um það að gefa meirihlutanum sem skapast á Alþingi hverju sinni sjálfdæmi um að gera hvað sem þeim dettur í hug.

Nei, lýðræði snýst líka um umræðu, um að við þjóðfélagsþegnarnir látum í okkur heyra og ekki bara það heldur líka að það sé á okkur hlustað. Hið fyrra er í lagi, að mestu leyti, en hið síðara er í miklu ólagi og hefur verið lengi í ólagi. Núna er það verulega slæmt.

Lýðræði felst líka í öflugum stofnunum samfélagsins sem passa upp á réttindi almennings, öflugum eftirlitsstofnunum, bæði með stjórnsýslunni og með stórfyrirtækjum og auðmönnum. En að grunni þessara lýðræðisstofnana er nú hoggið sem aldrei fyrr. Þær eru veiktar með niðurskurði og það þýðir einfaldlega veikara lýðræði.

Það er samt í raun lítilræði miðað við hvað er að gerast með heilbrigðiskerfið okkar, velferðina sjálfa sem auðvitað er hornsteinn lýðræðisins. Að heilbrigði okkar, að menntun okkar sé tryggð óháð efnahag eða neinu öðru. Lýðræði snýst nefnilega líka um það. En nú er komin upp sú staða að heilbrigðiskerfið og velferðarkerfið í heild sinni gæti riðað til falls. Með læknaflótta og endanlausum niðurskurði og engum skilningi á þörfinni, með síauknum álögum á sjúklinga gæti það fallið. Falli kerfið þá verður enginn hægðarleikur að byggja það upp aftur og það mun taka áratugi. Ég verð löngu dauður áður en það kæmist aftur á þann stað sem það var statt á bara fyrir nokkrum árum.

Þetta er grafalvarlegt. Og fólkið á Austurvelli í dag skynjar það. Og þess vegna var þetta sorgmætt fólk, ekki alveg bugað en vonlítið fólk. Það eru engin merki þess að stjórnvöld skynji stöðuna, þeir halda staðfastlega áfram í því að skera niður í heilbrigðiskerfinu, ætla ekki að bæta neitt á fjáraukalögum en kvótagreifar og auðmenn sem hagnast sem aldrei fyrr þeir hafa sínar skattlækkanir á hreinu. Ekkert kemur heldur í veg fyrir áframhaldandi skattsniðgöngu og Tortólareikningshald.

Á meðan stöndum við heldur hnípin á Austurvelli. Klöppum dauflega hanskaklædd því það er kalt, en heldur uppburðarlítil.

Við þurfum von. Við þurfum framtíðarsýn.

Maður horfir í kringum sig á þá sem fólk hefur kosið til þess verks og þeir skila ekki sínu, kannski frekar þveröfugt – þeir draga úr okkur máttinn.

 

Austurvöllur 10. nóvember

Unga fólkið er vonin….

Austurvöllur 10. nóvember

….en unga fólkið þarf líka von.

Austurvöllur 10. nóvember

Lýðræðið skiptir máli

Flokkun : Pistlar
1,686