trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 23/05/2014

Fortíðarþrá

 

Fyrir nokkrum árum var veislumaður staddur í gleðskap suður í Evrópu. Þá vék sér að honum góðglaður íslenskur ráðherra og spurði: „Viltu kaupa banka?“ Veislumaður hélt að þetta væri eitthvert afbrygði af spaugi og yppti öxlum. Ráðherranum þótti sem þetta væri ekkert svar og sagði með þjósti: „Þú átt að kaupa banka!“ Nokkrum mánuðum síðar var veislumaður búinn að kaupa banka. Þetta er stytt frásögn en sönn.

Þegar umrædd veisla stóð sem hæst var nýbúið að taka til í íslensku bönkunum. Þar hafði verið mikil óreiða. Hún var til komin vegna þess að „þingmenn atvinnulífsins“ og ráðherrar höfðu þá um áraraðir lagt afar hart að bankastjórum að lána útgerðarmönnum peninga. Þeir voru frekir til fjárins og sóttu í meira en þeir áttu veð fyrir. Þá gripu bankastjórar til þess ráðs að taka veð í aflaheimildum. Vandinn við þetta var sá að þær voru ekki veðhæfar. Þegar skrifborðsskúffur bakanna voru orðnar fullar af „haldlausu veði, börðu ráðamenn þá breytingu á kvótalögunum í gegn um Alþingi að útgerðinni yrði heimilt að veðsetja óveiddan fisk,“ eins og einn fyrrverandi „þingmaður atvinnulífsins“ orðaði það. Með þessum lögum var hreinsað til í bönkunum og blásið til Bólu.

Svo liðu árin, veislusamfélagið gladdist og gamnaði sér og það gróf í Bólunni þar til hún sprakk. Þá hrundu bankarnir, landssjóður varð nánast gjaldþrota, gengið féll en útgerðin græddi.

Nú, rúmum fimm árum síðar, eru bankarnir komnir á lappirnar, landssjóður skrimtir, gengið styrkist, útgerðin fer sínu fram og mokgræðir enn.

Og það á að fara að kjósa.

Ríkisstjórn á atkvæðaveiðum lofar stórauknum fjárveitingum til vísinda og nýsköpunar sem eiga að verða sambærilegar því besta sem þekkist … Og „Ef aðstæður eru rétt­ar væri ákjós­an­legt að byrja á að létta á eigna­hlut rík­is­ins í Lands­bank­an­um strax á næsta ári,“ seg­ir Bjarni (Benediktsson, fjármálaráðherra). Í fram­haldi af þeirri sölu seg­ir Bjarni að rétt sé að horfa til sölu á hlut rík­is­ins í hinum bönk­un­um tveim­ur. Þetta mátti lesa eftir honum í Mbl.is 22.5 kl. 23:34, rúmum sólarhring eftir að hann skýrði frá því að tími væri kominn til að selja Landsvirkjun.

Í hádeginu 23. maí flutti Ríkisútvarpið þá frétt, byggða niðurstöðum greiningardeildar Arion-banka, að kampavínsvísitalan færi hækkandi. Engin fréttastofa hefur hins vegar greint frá því berum orðum að „þingmenn atvinnulífsins“ séu risnir upp úr vilsu Gömlu-Bólu með nýja blöðru og farnir að blása í hana. Þess vegna á ekki að kaupa upplýsingar um skattsvikafé íslenskra auðmanna á Tortólum heimsins því að það truflar blásturinn. Það á ekki að laga vigtarsvindl útgerðar og fiskvinnslu og leiðrétta tölfræði efnahagslífsins. Það er blásið og beðið í eftirvæntingu þess besta sem þekkist og skálað í kampavíni. Fortíðin er ekki liðin. Hún er á leiðinni.

Úlfar Þormóðsson
Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,469