trusted online casino malaysia
G. Pétur Matthíasson 16/07/2015

Færeyska skítalausnin

8428123836_365852d264_k

Þorp í Færeyjum

Færeyingar eru um margt hugmyndaríkt fólk. Satt best að segja þá erum við ekki nógu dugleg að rækta sambandið við okkar góðu granna sem næst okkur standa, Grænlendinga og Færeyinga. Samt getum við margt af þeim lært. Ef við erum opin fyrir því.

Nú virðist stóra vandamál sumarsins, stóra fréttamálið í gúrkunni sumarið 2015, vera eymingjans ferðamenn sem verður brátt í brók. Það er í sjálfu sér ekki neitt nýtt.

Í fyrrasumar vorum við hjónakornin á leið frá Egilsstöðum til Akureyrar og vegagerðarmaðurinn í mér heimtaði stopp við hana Ystu Rjúkandi til að skoða tiltölulega nýja brú yfir ána. Þar var áningastaður en þegar nær dró sá maður að þar var nokkur fjöldi bíla og ferðamenn með myndavélar og þrífætur að stilla upp fyrir myndatökur og annað það sem ferðamenn gera þegar þeir komast í tæri við fallegan íslenskan foss sem ekki er búið að virkja.

Bara rétt áður en við sveigjum inn á bílastæðið sjáum við konu setjast á hækjur sér, svona tvo metra frá veginum og jafnlangt frá bílastæðinu og gerði þar í skyndi, af hraði og öryggi, stykki sín. Hún var klædd nokkuð góðum stakki sem skýldi hennar allra heilagasta á meðan á þessu stóð. Snögg var hún líka að snyrta sig og kippa upp um sig buxunum. Líklega þaulæfð vinnubrögð.

Það var eiginlega ekki fyrr en við ókum burtu að maður náði því að verða svolítið forviða yfir þessum fumlausu aðförum sem áttu sér stað eiginlegan mitt í hópi fólks. Ekki að það skipti máli en þá talaði konan dönsku við samferðamenn sína. Ekki gat maður þó heyrt að fólkið væri nokkuð að ræða klósettferðir í náttúrinni þar sem engin finnast salernin.

Þá rétt einsog í gúrkufréttatíð sumarsins núna varð mér hugsað til Færeyinga. Ekki af því að þeir eru nokkuð lunknir í dönsku og heldur ekki af því að þeir séu jafnsnöggir til verka og danska konan við Ystu Rjúkandi. Nei heldur mundi ég eftir snilldarlausn þessara frænda okkar í salernismálum ferðamanna.

Þegar maður kom inn í litlu þorpin á eyjunum 18 þá var iðulega vísað á salerni. Þau var síðan að finna í félagsheimilinu eða stjórnsýslustofnunum eða öðru slíku. Klósett sem alla jafna voru ætluð í annað voru a.m.k. yfir daginn opinn fyrir ferðalanga í spreng. Þetta fannst mér snilldarlausn.

Ef til vill er hún tilkomin af því að í þessum þorpum eru kannski engar sjoppur, engar búllur til að þykjast kaupa eitthvað í til að geta gengið örna sinna. Kannski er þetta líka svona vegna mun eldri bjórhefðar í Færeyjum en sem kunnugt er kallar slík drykkja á tíðari salernisferðir en t.d. íslenskst brennivín, að ekki sé talað um hvannarótarbrennivín.

Þetta finnst mér að við ættum að taka upp hér. Það myndi ekki leysa allan vandann en það myndi vissulega hjálpa til. Þetta er líka mjög auðvelt. Á Hvolsvelli þar sem ég þekki vel til má nefna félagsheimilið Hvolinn en þar eru salernin norðan megin í húsinu og lítið mál að opna þau og hafa alla aðra hluta hússins lokaða því þau eru ein og sér, blessuð klósettin. Það þyrfti ekki annað en að opna á morgnana, þrífa einu sinni á dag og einhver þyrfti að loka seint á kvöldin. Enginn milljarða kostnaður í uppbyggingu, engar rotþrær, bara smá vinna og sennilega góður slatti af salernispappír.

Og í Hvolnum má taka við ansi mörgum ferðamönnum í þörf í einu. A.m.k. önnuðu þessi klósett öllum mannskapnum þegar BG og Ingibjörg spiluðu þar fyrir margt löngu og menn héldu því fram að það hefðu verið seldir 1200 miðar í þetta 400 manna hús. Flestir voru síðan með brennivínið í erminni í amerísku úlpunni. En það er nú efni í annan pistil.

Þessi fjallar um að lausnir þurfa ekki að vera flóknar; og góðar lausnir eru yfirleitt einfaldar. Opnum klósettdyr allra félagsheimila út um allt land og komum vesalings ferðamanninum sem er í spreng til hjálpar.

HVO1012_Medium

Félagsheimilið Hvoll. Norður er til vinstri á myndinni. Myndin er fengin af heimasíðu sveitarfélagsins.

Flokkun : Pistlar
1,253