trusted online casino malaysia
Arnaldur Sigurðarson 19/04/2014

Endurhugsun á menntakerfinu

Menntun eins og við þekkjum hana er víðast hvar mjög svipuð í hinum vestræna heimi. Maður byrjar í leikskóla, fer svo í grunnskóla, framhaldsskóla og loks háskóla. Þessi mismunandi stig menntunar hafa öll svipaða uppbyggingu þar sem fögum er raðað niður eftir því hversu mikilvæg þau eru talin vera. Fyrst er móðurmálið, stærðfræði og raunvísindi, hugvísindi eru aftarlega og list- og verkgreinar reka lestina. Þessa uppröðun má rekja aftur til iðnbyltingarinnar.

Þessi uppbygging menntunar er hins vegar úreld í heimi internetsins. Heimurinn er að breytast mjög hratt og ný tækni er þróuð mun hraðar en áður. Tækniþróun mun brátt gera störf óþörf hraðar en hægt er að skapa þau en sumir sérfræðingar vilja meina að við séum nú þegar komin á það stig. Þannig virðist vera með unga fólkið sem útskrifast úr háskóla en fer svo beint á bætur því erfitt reynist að finna starf á þeirra sviði. Nútímamenntun virkar eins og náma þar sem aðeins er grafið eftir ákveðinni auðlind vegna úreltra hugmynda um hvað er í raun og veru mikilvægt.

Í íslenska menntakerfinu er mun meira brottfall úr námi en á hinum Norðurlöndunum. Það er einnig áhyggjuefni hversu mikið fleiri drengir flosna úr námi en stúlkur samkvæmt skýrslu OECD sem kom út árið 2011. Þetta á sérstaklega við nemendur sem glíma við námserfiðleika eins og t.d. lesblindu eða ADD, sem eru líklegri til að flosna upp úr námi vegna þess að námið höfðar ekki til þeirra.

Ef lögð er meiri áhersla á sköpun og listnám á öllum skólastigum, mun það snarauka möguleika nemenda til þess að efla þá fjölbreyttu hæfileika sem þeir búa yfir. Þegar sköpun er skilgreind þá á ég við hæfileikann til þess að eiga frumlega hugmynd sem er verðmæt. Kennsla á tölvuforritun í grunnskólum mun undirbúa nemendur fyrir framtíð sem er mjög háð netinu og mun þurfa mun fleiri tölvuforritara. Þar að auki eru allar starfsstéttir að verða tölvuvæddari og því mjög mikilvægt að vera tölvulæs. Það styttist í það að helmingur íbúa heimsins verða nettengdir og gríðarleg tækifæri muni skapast fyrir almenning að skapa verðmæti í gegnum internetið.

Innleiða þarf persónulegri menntun sem hentar hverjum nemanda og gefur honum betri tækifæri til þess að rækta hæfileika sína. Menntun á netinu á borð við Coursera og Khan Academy er þegar notuð sem viðurkenndur hluti af námi í nokkrum skólum í Bandaríkjunum. Það er aðeins spurning um hvenær menntun á internetinu fer í beina samkeppni við hefbundna menntun. Eigum við að halda okkur við iðnbyltingarmódelið og leyfa alvarlegri menntakrísu að eiga sér stað? Nú er tími fyrir menntakerfi upplýsingaraldarinnar.

Latest posts by Arnaldur Sigurðarson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,290