trusted online casino malaysia
G. Pétur Matthíasson 30/05/2016

Draugar og gamlir uppvakningar

2x20_afram_bjarni1Ekki gat maður, bara fyrir nokkrum vikum, órað fyrir því að Icesave yrði að kosningamáli fyrir forsetakosningar á Íslandi. Það er nú ljóst að það verður afskaplega erfitt að kveða þann draug niður. Samt er nýbúið að segja fréttir af því að allur hafi nú Icesave pakkinn verið borgaður af þrotabúinu og af okkur Íslendingum og einir 55 milljarðar að auki. Óreiðuskuldirnar borgaðar.

Það sem er furðulegt og sorglegt í senn er að einn forsetaframbjóðandinn ræðst nú með offorsi að öðrum, reyndar þeim sem ég styð, og vænir hann um að hafa stutt það að samningar yrðu gerðir um Icesave. Það hljómar svolítið einsog þessi agressívi forsetaframbjóðandi telji að allir sem stutt hafi það að Íslendingar stæðu við þá samninga sem gerðir voru, eða hafi yfirleitt talið það siðaðra manna háttur að semja, séu á einhvern hátt óæskilegir, óalandi og óferjandi, a.m.k. ónothæfir sem forsetar.

Stundum er talað um forsetaembættið íslenska sem svo að það eigi að vera sameiningartákn þjóðarinnar. Þannig litu Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir á embættið og þannig lítur forsetaframbjóðandinn Guðni Th. Jóhannesson á embættið. Sitjandi forseti hefur alls ekki litið þannig á málin, og þótt ég hafi í tvígang kosið hann þá var hann löngu hættur að vera minn forseti. Af því að hann tók afstöðu í málum, með sjálfum sér, með annarri hliðinni, með öðrum hópnum, en ekki með þjóðinni allri.

Ég treysti Guðna til að vinda ofan af þessu og sama hvaða skoðanir sem hann hafi á einstökum málum þá muni hann standa með allri þjóðinni. Og leyfa henni ráða sínum ráðum óháð honum sjálfum þar sem það er hægt og þar sem það á við.

En hinn forsetaframbjóðandinn — sem sakar Guðna um að hafa stutt Icesave, og fyrir að vilja rannsaka og skýra frá því sem raunverulega gerðist í landhelgisdeilum þjóðarinnar og fyrir að hafa þá skoðun að þjóðin sjálf eigi að ákveða framtíð sína varðandi Evrópusambandið — sá frambjóðandi virðist með röksemdafærslu sinni, eða öllu heldur stanslausum ásökunum sínum, meina að þeir sem studdu samninga um Icesave séu einhverskonar landráðamenn, sem er kannski of sterkt orðalag hjá mér. En samt, það er einsog hann vilji skipta þjóðinni í tvennt – með og á móti Icesave.

Ekki mikill sáttatónn í því, ekki mikil hugur til þess að verða sameiningartákn þjóðarinnar.

Og hvað er þetta er svo fyrir nokkuð? Vill frambjóðandinn láta menn játa hafi þeir verið fylgjendur þess að semja um þennan uppvakning, sem frambjóðandinn einn örfárra manna gat forðað þjóðinni frá á fyrri hluta árs 2008 ef einhver dugur hefði verið í manninum? Vill hann játningar, rannsóknarrétt kannski? Maðurinn sem ber miklá ábyrgð á málinu en sýndi þarna árið 2008 þegar enn var möguleiki að forða okkur frá fallin að það var enginn skilningur, enginn forsjálni, engin rannsókn á því hvað væri þjóðinni best, engin skoðun á afleiðingum þess að þekkjast ekki boð Breta um að þeir tækju þetta Icesave til sín og hefðu sjálfir af því allan ama. Nei, frambjóðandinn vill ekki ræða þá hluti, afneitar þeim, en virðist ætla að meta alla menn eftir því hvaða skoðun þeir höfðu á Icesave eftir að skaðinn var skeður. Eftir að hann, reyndar ásamt fleirum, hafði algerlega klúðrað þeim málum.

Hvað svo? Hvað með þá sem munu í þessu framtíðarríki frambjóðandans þar sem menn verða dæmdir eftir afstöðunni til Icesave? Á að hrekja þá úr störfum? Á að neita þeim um fyrirgreiðslu? Á að reka fylgjendur samninga úr landi? Hvar á það að enda?

Sem betur fer mun aldrei reyna á það, því í raun og sann vill stærsti meirihluti þjóðarinnar forseta sem sameinar okkur sem Íslendinga, sem gerir okkur stolt af því sem við gerum vel en er á sama tíma ekki feiminn við að horfast í augu við sannleikann, við mýturnar, hversu sárt sem það mun reynast. Því forseti og þjóð sem þekkir sjálfa sig er sterk þjóð.

Þjóð sem flokkar menn í hólf eftir afstöðunni til eins hitamáls, er sundruð þjóð og er veik þjóð.

Flokkun : Pistlar
1,514