trusted online casino malaysia
G. Pétur Matthíasson 18/08/2014

Breiðu bökin í matvörubúðunum

Screen Shot 2014-08-18 at 20.45.34Hallinn á ríkissjóði strax eftir hrun nam um 200 milljörðum króna en hallinn lækkaði nokkuð skart eftir það og nýjustu tölur (nýrri en sjást hér á línuritinu frá Datamarket) sýna að hallinn varð enginn árið 2013 eða nánast enginn (sést í nyjasta ríkisreikningnum). En þetta er bara ein breyta í allri jöfnunni sem er Ísland. Ríkissjóðahallinn er eitt og gott að ná honum niður en fleira þarf til svo lokið verði við að hreinsa upp eftir hrunið. Það þarf reyndar mikið meira til.

En það vorum við almúginn sem að mestu greiddu upp hallann, þetta verk sem þó er búið, með hærri sköttum, með lægri tekjum, með hærra vöruverði o.s.frv.

Eitthvað fengu auðmenn líka að borga og kvótagreifarnir með. En mest auðvitað samt breiðu bökin. En jöfnuður jókst svo mælanlegt var þannig að það var sannanlega lögð nokkuð aukin byrði á þá sem mest höfðu á milli handanna.

En nú vilja menn breyta aftur.

Það er stundum einsog þessi ríkisstjórn hafi ekki annað markmið en að taka aftur öll verk fyrri stjórnar. Stundum finnst manni frekar lítið um frjóa hugsun.

En hvað um það. Menn vilja jú taka allt til baka og jú kannski líka breyta enn meira – kom ekki nema fram frjó hugsun. En kannski er hún ekkert frjó í raun. Nýjustu hugmyndir, sem virðast eiga að koma fram með fjárlagafrumvarpinu, ganga út á að lækka hærra þrep virðisaukaskattsins, þetta sem síðasta ríkissstjórn hækkaði úr 24,5 prósentum í 25,5 prósent sem lið í því að koma ríkissjóðshallanum úr 200 milljörðum króna í núll.

Nú á sem sagt að lækka þetta þrep en til þess að það sé mögulegt þá þarf að hækka lægra þrepið, 7 prósenta þrepið, þar sem er maturinn og bækurnar (og annar slíkur óþarfi).

Það hefur oft verið talað um að það þurfi að einfalda virðisaukaskattkerfið, menn tala um að það sé svo erfitt og flókið og vandræðamikið að hafa tvö þrep. Samt geta t.d. Bretar verið með núll vask á barnafötum. En það er ekki verið að einfalda kerfið núna, heldur bara lækka efra þrepið og það er borgað fyrir það með því að hækka hitt.

OK. Gott að lækka skattinn ef það er svigrúm til þess (sem það er ekki) en hvað halda margir sem þetta lesa að eins prósentustigs lækkun á hærra þrepinu eða jafnvel tveggja prósentustiga lækkun muni skila sér til okkar neytenda? Hefur einhver trú á því?

Og hvað ætli þurfi að hækka lægra þrepið mikið á móti? Þarf það að hækka um 2,3,4 eða 5 prósentustig? Eða meira? Hvað ætli það yrði fljótt að skila sér út í verðlagið.

Til að standa við það hlutverk sitt að breyta öllu til baka sem fyrri ríkisstjórn gerði þá á líka að afnema sykurskattinn. Til hvers er það gert? Til að auka sykurneyslu, auka drykkju á gosi?

Hver er yfirleitt tilgangurinn með þessum breytingum? Þetta einfaldar ekki kerfið, það er ljóst.

En kannski, bara kannski mun verðið á 15 milljóna króna Range Rovernum lækka um 150 þúsund krónur. Hver hagnast á því?

Og hver mun borga þá lækkun?

Þegar við förum út í búð eftir áramótin þá getum við glaðst yfir því að borga meira í Bónus svo Range Roverinn geti nú lækkað aðeins. Það er jú akkúrat það sem við þurfum svo sárlega á að halda.

Manni fallast hendur, satt best að segja.

Screen Shot 2014-08-19 at 09.20.10

Betri og nýrri mynd frá Hagsjá Landsbankans sem sýnir hallann á ríkissjóði þessi ár.

Flokkun : Pistlar
1,707