trusted online casino malaysia
Arnaldur Sigurðarson 08/09/2014

Betri Reykjavík getur verið mun betri

Síður eins og Betri Reykjavík, Betri Hafnarfjörður og jafnvel Betra Ísland eru stærstu skrefin sem íslendingar hafa tekið í átt að beinna lýðræði. Þessi þróun hefur almennt séð verið mjög jákvæð og gefið hinum almenna borgara meira vægi í stjórnsýslunni. Þegar maður sest hinum megin við borðið í stjórnsýslunni, öðlast maður gjarnan nýja sýn á ýmsu. Það sem hefur kannski sérstaklega gripið athygli mína eru gallar vefsins Betri Reykjavík.

Upprunalega spennan sem myndaðist í kringum þennan vef fer nú smám saman dvínandi og þátttaka hins almenna borgara á vefnum hefur minnkað. Þegar tillaga á Betrí Reykjavík er kosin upp ákveðið mikið er hún tekin fyrir í viðeigandi ráði borgarinnar. Tillögurnar sem eru kosnar upp eru oft mjög fínar og sumar hverjar mjög frumlegar. Gallinn er hins vegar að það er nánast ómögulegt fyrir hinn almenna borgara að athuga hvort tillagan sé mögulega sambærileg við eitthvað sem er þegar búið að ákveða innan borgarinnar.
Annað hvort þarf að auðvelda verulega aðgengið að slíkum upplýsingum eða það þarf að skima í gegnum tillögurnar á Betri Reykjavík og benda notendum á það þegar tillögur eru mjög líkar einhverju sem þegar hefur verið ákveðið og hvort það sé nóg. Helst væri af sjálfsögðu æskilegt að gera báða kosti að veruleika. Jafnvel væri hægt að sameina nokkrar mismunandi tillögur í stærri mál.

Annað sem kannski veldur því að þátttaka á Betri Reykjavík er ekki meiri en hún er í dag er að meirihlutinn af tillögunum sem ná toppinum eru að miklu leiti fagurfræðileg. Það er vissulega mikilvægt að viðhald á borginni sé í lagi og skemmtilegum nýjungum sé bætt við. En þegar kemur að stóru málunum þá eru það yfirleitt við stjórnmálamennirnir sem taka ákvarðanirnar. Það væri áhugavert að sjá hvað myndi gerast ef almenningur fengi í meira mæli að kjósa um stór mál sem fara yfirleitt í gegnum nefndir eða borgarstjórn.

Beint lýðræði þarf að virka í báðar áttir, ef borgarar eru ekki með gott aðgengi að góðum upplýsingum þá er mjög erfitt að bera fram góðar og vel upplýstar tillögur. Ef borgin ætlar að bjóða fólki upp á beint lýðræði verður hún líka að bjóða fólki upp á góðar og vel aðgengilegar upplýsingar.
Arnaldur Sigurðarson
Latest posts by Arnaldur Sigurðarson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,472