trusted online casino malaysia
G. Pétur Matthíasson 26/04/2016

Ætlum við að sætta okkur við þetta?

Myndin sem dregin er upp í Panama-skjölunum af framferði Íslendinga verður sífellt dekkri og dekkri. Og það er ekki einsog þetta sé bara eitthvert fólk út í bæ. Þetta eru menn sem maður hefur í gegnum tíðina umgengist. Finnur Ingólfsson og Hrólfur Ölvisson voru báðir í stúdentapólitíkinni á sama tíma og ég. Þeir stofnuðu framsóknarfélag, Félag umbótasinnaðra stúdenta hét það, allavega var Finnur prímus mótor í því ef ég man rétt. Félag þetta var stofnað til mótvægis við Vöku og Félag vinstri manna. Þeir voru greinilega á einhverri annarri leið en ég hélt þá, enda hafði maður ei af Tortóla heyrt á níunda áratug síðustu aldar. Sigmundur okkar Davíð Gunnlaugsson vann um árabil með mér á fréttastofu Sjónvarpsins og átti ég góð samskipti við hann í vinnunni og oft utan hennar líka. Leit á hann sem vin minn góðan. Hann var kannski líka á einhverri allt annarri leið en ég hélt.

Sem sagt, ósköp venjulegir Íslendingar, hélt maður, þá a.m.k.

Og það eiga enn nærri 600 Íslendingar eftir að koma í dagsljósið í Panama-skjölunum.

segja „follow the money“ en við Íslendingar segjum „finnum Finn“. Nú er búið að finna Finn og klárlega er Framsóknarflokkurinn ansi mikið á kafi í aflandsfélögum, a.m.k. hans æðstu stjórnendur. Við vitum líka nú þegar um aflandsfélög Bjarna Ben og Ólafar Nordal.

Það er einfaldlega ekki hægt að sætta sig við þetta. Við getum ekki búið við svona stjórnvöld. Spillingin hefur verið svo grassandi að maður stendur gapandi hjá og veit ekki í hvorn fótinn maður á að stíga. En það er ljóst að íslenskri þjóð er það lífsnauðsyn að kasta af sér þessu oki spillingar og stokka upp á nýtt.

Fyrsta skref í þá átt eru kosningar strax. Það er bara ekkert hægt að bíða með það neitt. Núverandi ríkisstjórn getur engu stjórnað. Þessir ráðherra geta haft þann eina tilgang að verja einhverja hagsmuni, koma einhverju fram og í gegnum Aþingi fyrir vini sína eða vandamenn. Ég á a.m.k. erfitt með að sjá hver annar getur verið tilgangurinn með því að hanga svona á völdunum. Hanga menn á völdunum það til þess að einkavæða LÍN og breyta honum í sjóð þeirra ríku? Afnema jafnan rétt til náms í þessu landi? Er það þess vegna sem menn sitja sem fastast? Og halda menn að hægt sé að fara með slík ólög í gegnum Alþingi? Illugi Jökulsson segir blóðið tæplega renna í stjórnarandstöðunni, og það er rétt, en varla er svo illa komið að menn færu að hleypa t.d. þessum lögum í gegn. Eða er málið að það þurfi að setja lög um að hægt sé að kaup íslenskt brennivín í frystinum í Bónus? Um leið og maður kaupir kókið? Hvað er málið? Eða vilja menn bara alltaf sitja sem fastast? Sama hvað hefur gengið á?

Ég skil þetta ekki. En ég skil lýðræði. Og það snýst ekki bara um að kjósa á fjögurra ára fresti. Það snýst líka um að láta í ljósi skoðun sína á tímanum á milli kosninga. Og þess vegna mæti ég Austurvöll svona einsog ég get. Var þar á laugardaginn í súld, það voru ekkert rosalega margir. Í dag skein sólin og það voru heldur ekki margir. Úthald Íslendinga er svo sem ekki mikið. En þrátt fyrir það held ég að þeim hafi ekkert fækkað sem vilja kosningar strax.

Enda er það bara eina leiðin fram á við. Og það er ekki eftur neinu að bíða.

 

Flokkun : Pistlar
1,691