trusted online casino malaysia
Arnaldur Sigurðarson 16/04/2014

Að koma út úr skápnum sem evrópusinni

Að vera á móti inngöngu í ESB er pólítísk afstaða sem ég hef lengi haldið fram að sé sú eina rétta þegar kemur að Evrópusambandinu. Hvernig í ósköpunum getur Píratinn í mér samræmt þau gjörsamlega ólýðræðislegu vinnubrögð sem eiga sér stað innan Evrópusambandsins við eigin sannfæringu? Mun ESB ekki bara gjörsamlega rústa fiskistofninum hjá okkur, sem er svo nauðsynlegur fyrir íslenska hagkerfið? Eru Íslendingar ekki allt of lítil þjóð til að geta haft nokkur áhrif innan ESB? Er Framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins ekki frekar ólýðræðisleg þar sem að það er ekki fólkið í Evrópu sem kýs fólk í embættin? Er Evrópusambandið ekki að glíma við gífurlegan efnahagsvanda? Það eru nefnilega alveg hellingur af rökum gegn aðild að Evrópusambandinu, rök sem ég hef lengi velt fyrir mér og taldi alveg vera nokkuð haldbær rök.

 

Skoðun mín á Evrópusambandinu sem gjörsamlega ólýðræðislegu og aðallega neikvæðu fyrirbæri fór hins vegar að þróast í kjölfar heimsóknar Amelia Andersdotter, Evrópuþingmanns Pírata í Svíþjóð, til Íslands. Þá spurði ég hana einmitt þeirrar spurningar hvort Íslendingar myndu nokkuð hafa mikil áhrif innan Evrópusambandsins ef við myndum ákveða að gerast aðildarríki. Það vakti mikla furðu hjá mér hvað hún var jákvæð í garð hugmyndinarinnar um inngöngu Íslands og þar að auki bætti hún við hvað það myndi hjálpa henni í sinni vinnu að fá auka Pírata frá Íslandi inn á Evrópuþingið. Kannski ekki alslæmt en ég hafði þó en stórar efasemdir þannig best var að fara að kynna sér ýmislegt um Evrópusambandið aðeins nánar. Ef við myndum nú ganga inn í Evrópusambandið yrðum við án efa minnsta þjóðin sem hefur gert það hingað til. Það er hins vegar ákveðin jákvæð mismunun sem á sér stað innan Evrópuþingsins. Ísland myndi fá 6 Evrópuþingmenn, jafn mikið og Eistland sem er með meira en fjórfalt hærri íbúafjölda en Ísland.

 

Það sem fór þó kannski aðalega að ýta mér í átt að því að verða smám saman meiri fylgjandi inngöngu í ESB er ekki það að mér snerist skindilega hugur um ágæti ESB. Það hefur meira að gera með þá hugsun að okkur er betur borgið með því að vera innan þess en utan. Eftir síðastliðnar kosningar hafa öfgarnar í kringum ESB umræðuna orðið svakalegar og það kom á einhverjum tímapunkti að ég hreinlega tengdi ekki lengur við það sem andstæðingar ESB voru að segja. Sérstaklega eftir að þingsályktunartillaga um slit á aðildarviðræðum við ESB kom í dagsljósið hafa ESB andstæðingar verið svakalega duglegir að beyta falsrökum til að reyna að sýna fram á ágæti málstaðsins, aðeins til að fá þau afsönnuð bara nokkrum mínútum eftir að viðtöl birtast á netinu. Umdeilt viðtal við Vigdísi Hauksdóttur þar sem hún tjáði okkur að Malta væri ekki sjálfstætt ríki var vægast sagt hlægilegt.

 

Svo heyrir maður gjarnan þau rök að Noregur og Sviss eru utan Evrópusambandsins og efnahagnum hjá þeim gengur frábærlega. Það er svo sannarlega rétt en það sem gerir þessar þjóðir svona velstæðar utan ESB eru olían fyrir Noreg og bankakerfið fyrir Sviss. Ekki þýðir það að þessar þjóðir séu eitthvað lausar við þær kvaðir sem fylgja ESB aðild. Noregur greiðir um það bil 350 milljónir evra til ESB árlega sem er töluvert meira en Bretland greiðir miðað við höfðatölu. Ég nefni Bretland sem dæmi því þeir hafa verið hvað háværastir af ESB aðildarríkjunum um þann möguleika að draga sig úr Evrópusambandinu. Bretland er eitt af þeim ríkjum sem greiðir meira inn í Evrópusambandið en það fær til baka. Það yrði hins vegar efnahagslega mjög óhagstætt fyrir Bretland að draga sig út enda eru miklir viðskiptahagsmunir í húfi.

 

Ég fór nýlega út til Brussel til að taka þátt í stofnun Evrópuflokks Pírata og samkomu ungliðahreyfinga Pírata í Evrópu. Þar hlaut ég þann heiður að kjósa fyrir hönd íslenskra Pírata á stofnfundi PPEU (Pirate Party Europe). Stofnfundur Evrópuflokksins var haldinn í Evrópuþinginu í Brussel og nýtti ég mér tækifærið til að spyrja starfsmenn þingsins um inngönguferli Íslands. Þá spurði ég t.d. hvort eitthvað væri til í því að það væri ekki hægt að setja viðræðurnar á ís. Einnig hvort það væri auðvelt að rifta EES samningnum. Svarið við báðum spurningum var hiklaust nei. Fordæmi eru fyrir því að setja samningarferli við ESB á ís og engin ástæða til að halda að slíkt væri ómögulegt ef ríkisstjórnin myndi ákveða að fara þá leið. Líkt og Noregur hefur Ísland neyðst til þess að innleiða um 75% af lögum ESB í gegnum EES samninginn sem er jafnvel meira en sumar ESB þjóðir hafa þurft að gera. Allt þetta er gert og almenningur á Íslandi hefur lítið sem ekkert um það að segja. Fyrrverandi Evrópuþingmaðurinn lýsti ástandi Íslands mjög vel þegar hann líkti því að vera hluti af EES við pólítískt jafngildi falsaðrar Gucci tösku, megnið af göllunum til staðar, ekkert ef kostunum. Allt í einu hljóma 6 Evrópuþingmenn eins og gjöf. Fyrir utan það var bara almennt séð mjög ánægjulegt að fá að taka þátt í því milliríkjasamstarfi sem ESB býður upp á. Það er t.d. ótrúlegt hversu mikið ungliðar Pírata í Evrópu náðu að gera mikið á þeim örfáu dögum sem við hittumst.

 

Að skipta um skoðun er ekki auðvelt, hvað þá skoðun sem ég hef haft jafn lengi og afstöðu mína gagnvart ESB. Það krefst þess að viðurkenna fyrir sjálfum sér að maður hafði rangt fyrir sér og í þessu tilfelli í mörg ár. Sumir hafa tekið þessu breytta viðhorfi mínu fagnandi á meðan aðrir hreinlega skilja þetta ekki. Það er mér þó mikil ánægja að ég er í flokki sem ber virðingu fyrir því að maður skiptir um skoðun byggt á þeim gögnum sem liggja fyrir.
Latest posts by Arnaldur Sigurðarson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,344