Vitleysa
„Stjórnarskráin á ekki að vera pólitísk, hægri eða vinstrisinnuð,“ er haft eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra Íslands en það “er lýðveldi með þingbundinni stjórn“, eins og segir í fyrstu grein stjórnarskrárinnar. Tilvitnunin í ráðherrann er í Reykjavík vikublaði. Þar er hún innan gæsalappa, sem merkir að þetta er orðrétt haft eftir honum.
Þessi ummæli ráðherrans lýsa ótrúlegri fáfræði eða skilningsleysi ellegar hvoru tveggja. Því til áréttingar koma hér nokkur sýnishorn úr stjórnarskránni eins og hún var útgefin af Vöku-Helgafelli árið 1996 í bókinni Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.
- 1. grein: „Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.“
- Úr 62. grein: „Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins.“
- Úr 64. grein: „ Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga.“
- Úr 65. grein: „Allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“
- Úr 67. grein: „Engan má svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum.“
- Úr 73. grein: „Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.“
Það er morgunljóst fyrir þeim sem þekkja til sögu mannkyns að fátt eða ekkert af því sem að framan segir er komið inn í stjórnarskrár nema fyrir pólitík. Sumt eftir mannvíg og styrjaldir. Flestir vita það einnig að stjórnarskrá er rammi utan um aðra löggjöf, mörk sem ekki er heimilt að ganga yfir. Sá rammi hefur víðast hvar orðið til eftir rökræðu og pólitíska umræðu. Eigi að síður búum við svo, í lýðveldinu Ísland, að forsætisráðherrann veit þetta ekki. Nema að hann kjósi að sniðganga vit sitt. Sem er kannski ennþá alvarlegra því að þá er hann með vitið fyrir neðan nefið.
Af þessu tilefni og öðru nýtilkomnu sló ég upp orðinu vitlaus í orðabók Menningarsjóðs. Það merkir án vits. Ég er vitlaus í lögum, en mig langar til þess að fá að vita hvort það geti verið lögbrot að hefja nauðungaflutninga á fólki landshorna á milli. Þetta gerir útgerðarfélagið Vísir í Grindavík átölulaust, þetta ætlar sjávarútvegsráðherra að gera með flutningi á Fiskistofu norður til Akureyrar og þetta hótar forsætisráðherra að gera með flutningi á enn fleiri stofnunum með manni og mús út á land.
Það væri óskandi að ég reyndist vera eini vitleysingurinn í lýðveldinu.