Verðandi
Það er ömurlegt að horfa upp á félaga sinn veslast upp og morna inn í sjálfan sig. Ekki síst þegar það tekur mörg ár. Og allan þann tíma elur maður með sér þá von að hann muni hjarna við.
Ögmundur Jónasson alþingismaður átti marga góða spretti í pólitík lengi framan af stjórnmálaferli sínum. Hann átti þátt í framgangi margra góðra mála áður en hann gekk til liðs við stjórnmálaflokk, sem talaði fyrir betra og mannúðlegra samfélagi. Síðar var hann með í stofnun flokks, og á frumbýlisárum hans var hann góður hlustandi og málafylgjumaður. Svo gerðist það, sem jafnan vill verða og verður, að flokksmenn tók að greina á. Skoðanir skiptust, félagarnir ræddu málin og leituðu að sameiginlegri niðurstöðu. Að því loknu stóðu þeir saman. Þegar þarna var komið lenti Ögmundur oft í minnihluta. Hann kunni ekki að vera þar og tók upp orðið hjarðhegðun um þá sem stóðu saman um aðra skoðun en honum þóknaðist. Það orð gilti þó ekki um þá sem höfðu sömu skoðun og hann. Þrátt fyrir ágreining við „hjörðina“ fór hann ekki úr flokknum. Hann átti pólitískt líf sitt undir því að vera áfram með „hjörðinni“. Hún hrakti hann heldur ekki frá sér, taldi hvern og einn eiga rétt á því að hafa sínar skoðanir í friði. Jafnvel í ófriði, eins og Ögmundur kaus að gera. Og svo langt gekk „hjörðin“ í gælum sínum við hann að hún vann að endurkjöri hans til framboð fyrir flokkinn sem hann var kominn í stríð við.
En Ögmundur hresstist ekkert þrátt fyrir velvilja „hjarðarinnar“. Hann var áfram önugur. Nú skrifar hann greinar í Mogga og á eigin heimasíðu þar sem hann agnúast út í flokkinn sinn, upphefur sjálfan sig, fortíð sína og nútíð. Og Framsóknarflokkinn. Það er merkilegt. En eðlilegt þegar litið er um öxl. Hann var og er sammála Framsókn um Icesave og Íbúðalánasjóð, sammála Framsókn um að sverta störf Steingríms J. Sigfússonar hvort sem færi gefst eða ekki, sammála Framsókn um að vera á móti verðtryggingunni og gefa þar með sparifjáreigendum langt nef svo og fortíð sinni í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.
Á heimasíðu sinni 16.nóvember síðast liðinn skrifaði hann grein um „skuldaniðurfærslu“ Framsóknar. Fyrir mér er hún hvort tveggja í senn játning á hug hans til Framsóknarflokksins og brot af pólitískum eftirmælum hans um sjálfan sig:
„Ég lít á þessa ráðstöfun sem millifærslu frá lánveitendum til lántakenda og er hún fullkomlega réttmæt og eðlileg og ber ekki að blanda saman við almenna skattheimtu þótt af tæknilegum ástæðum millifærslan fari um ríkissjóð.“
Pólitísk vegferð Ögmundar síðustu ár hefur valdið mér hryggð. Hann var félagi minn. Ég hafði trú á honum. En nú er sá tími liðinn og þó að hann hafi ekki sagt sig frá „hjörðinni“ er sjálfsagt og eðlilegt að óska honum velfarnaðar í faðmi Framsóknarflokksins. Ef hann tekur við honum. Þar er gleði og gaman og aldeilis engin hjarðhegðun.