trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 15/04/2014

Verða þeir látnir skila þýfinu?

Nú er orðið ljóst að gjaldtakan við Geysi var ólögleg. Í raun var þetta sjálftaka, þjóðvegarán, þar sem fé var haft af grunlausu fólki sem vissi ekki betur en að það þyrfti að reiða fram féð. Það höfðu verið gerðir þessir fínu „aðgöngumiðar“ og allt.

Við vitum ekki hversu mikið fé landeigendur höfðu af fólki með þessari lögleysu. Í þessari frétt er námundað við fimmtán milljónir. Kannske var það meira, varla miklu minna.

Óáreittir hefðu þessir þjóðvegaræningjar nútímans hins vegar stungið 360 milljónum í vasann á einu ári (600 krónur x 600 þúsund gestir, sem þeir áætla sjálfir). Það er dágóð summa og hefði orðið enn myndarlegri á örfáum árum.

Ósvífninni eru engin takmörk sett. Eftir að hafa logið blákalt að þjóðinni áskilja þeir sér nú rétt til að krefja ríkið bóta vegna „hagnaðarmissis.“ Við sem héldum að þetta hefði allt verið rukkað í þágu náttúrunnar.

Annað orð yfir ólöglega sjálftöku er þjófnaður. Kannske er eitthvert annað hugtak um það í lögfræðinni, en almennur málskilningur mælir fyrir um hitt.

Og þá er eðlilegt að spurt sé:

Verða landeigendur við Geysi látnir skila þýfinu sem þeir hirtu af saklausu ferðafólki?

1,358