Þeir ljúga blákalt
Forsvarsmenn Geysissvæðisins hafa verið staðnir að því að ljúga blákalt að alþjóð.
Garðar Eiríksson sagði í kvöldfréttunum í gær að Ögmundur Jónasson og fylgdarlið hefðu komizt ókeypis inn á svæðið af því að þar hefði staðið yfir eitthvert sunnlenzkt kynningarátak.
En skrýtin tilviljun, hugsar útvarpshlustandi þá. Hmm.
Bergsteinn Sigurðsson í morgunútvarpi Rásar 2 gerði meira en að humma. Hann hringdi í þennan Garðar og fékk hann til að játa, að Ögmundi hefði verið hleypt ókeypis inn af því að hann væri Ögmundur.
Hann játaði sumsé á sig hrein ósannindi í fréttunum kvöldið áður.
Og auðvitað vissi hann upp á sig skömmina og reyndi að koma sökinni á Ögmund. Hann hefði jú „þetta lag að efna alltaf til ófriðar.“
Einmitt. Ögmundur er þekktur ofbeldismaður og vandræðapési. Þess vegna var honum hleypt inn ókeypis.
Nú þekki ég Garðar Eiríksson ekki neitt, en hann ætti að sleppa því að tjá sig í fjölmiðlum.
Honum tókst á hálfum sólarhring að skrökva blákalt að þjóðinni og upplýsa í leiðinni, að allir verði rukkaðir fyrir aðgang að Geysissvæðinu nema ófriðarmenn.
Það heitir ekki bara að ljúga, heldur skjóta sig í báðar lappir með haglabyssu í leiðinni.
- Möskvar minninganna (XXI): Gleðimont - 12/08/2019
- Um gamlar kærustur og nýjar - 02/07/2019
- Möskvar minninganna (XX): Með hitamælinn í rassinum - 30/06/2019