Unaður
Mörgum þykir stjórnmálaumræðan yfirborðskennd og grimmileg og nefna því til sönnunar að saklaust og vel meinandi fólk sem gefi sig að pólitík sé miskunnarlaust rægt og dregið niður í svaðið; að stjórnmálaþátttaka sé mannskemmandi.
En nú bjarmar fyrir nýjum tímum.
Netmiðlar greina frá því að formaður sjálfstæðisfélagsins Varðar hafi lýst stuðningi við frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins í heimabyggð félagsins, konan í öðru sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík hefur lýst yfir stuðningi við konuna í fyrsta sæti á sama lista, eiginkona efsta manns á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ hefur opinberlega lýst yfir fullum stuðningi við bónda sinn og það sem ekki er minnst um vert, forsætisráðherra landsins hefur lýst yfir eindregnum stuðningi við ríkisstjórnina og sjálfan sig í blaðagrein.
Slíkur einhugur vekur vonir um betri tíð.