Umræðan, góð eða ógeð?
Það er orðin ansi langt síðan ég hætti að lesa komment, nema hjá þeim sem maður þekkir á facebook og þar fer fram oft á tíðum mjög fín umræða. Komment á Eyjunni, eða á DV les ég nánast aldrei. Lendi einstaka sinnum í því að sjá ekki að komment á fésinu er komment við eitthvað á þessum miðlum. En forðast þau líka.
Lífið er ekki nógu langt til að lesa þessi komment, eða reyna að fiska eitthvað vitrænt upp úr þeim. Því það sem maður þó sér, (einstaka sinnum tékkar maður á því hvort eitthvað hafi breyst), sýnir að það er ekki þess virði.
Maður hneykslast bara í hjarta sér og furðar sig á því hvernig – líklega – fullorðið fólk getur brúkað kjaft og verið dónalegt. Það færir enga umræðu áfram. Og því miður hefur dónaskapruinn náð völdum í þessum kommentaheimum. Því miður.
Því það er lýðræðinu nauðsynlegt að það sé umræða, en það verður að vera vit í henni. Dónaskapur og fúkyrði jafngildir ekki lýðræðislegri umræðu.
Mér fannst ráðist ansi harkalega á Guðna Ágústsson þegar hann ýjaði að því að hann ætlaði að taka fyrsta sætið á lista Framsóknarflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Þótt mér finnist dónalegir brandarar, sem oftast niðurlægja konur, ekki vera fyndnir, heldur þveröfugt. Þá var það kannski ekki mjög málefnalegt að núa Guðna því um nasir að vera þannig brandarakarl. Eða hvað? Það bar a.m.k. þess merki að menn óttuðust framboð Guðna sem segir heilmikið um Guðna Ágústsson.
En umræðan um umræðuna færði málið áfram.
Það er rétt að Guðni sagði þessa lélegu brandara en það sem kom í kjölfarið þeirrar umræðu var umræða um afstöðu Guðna til flugvallarins, til ýmissa mála höfuðborgarinnar. Og smám saman var dregin upp mynd af stjórnmálamanni með skoðanir sem kannski ættu alls ekkert upp á pallborðið hjá höfuðborgarbúum
Það var umræðan sem dró þetta fram, og svo heppilega fyrir Guðna, á þessum tímum alnetsins, þá kom umræðan fram og náði sér þannig á strik, hratt og örugglega, að Guðni náði að hætta við.
Hann sá sitt óvænna og fjölskylda hans hefur örugglega beðið hann um að hætta við að fara fram.
En það var umræðan um skoðanir Guðna sem leiddu þetta fram, ekkert ógeðslegt við það.
Ég er viss um að Guðni stendur með sjálfum sér og sínum skoðunum. Þótt hann hafi ekki lagt í að reyna að verja þær fyrir höfuðborgarbúum.
En þetta sýnir mátt umræðunnar. Hún upplýsir, hún færir mál fram, hún bjargar stjórnmálamönnum stundum frá því að gera misstök.
Við þurfum meiri umræðu, við þurfum að fjalla um mál málefnalega og það er málefnalegt að draga það fram fyrir hvað stjórnmálamenn sem bjóða sig fram til forystu standa fyrir.
Það er lýðræðinu nauðsynlegt að kjósendur viti hverja þeir eru að kjósa, ekki að þeir kjósi menn í blindni.
Og þess vegna líka skiptir máli hverju menn lofa og hvernig þeir standa við loforðin, en það er annað mál.
- Stjórnarmyndun – hvað nú?! - 07/11/2017
- Tæp stjórnarmyndun! - 05/11/2017
- Sigurvegarar kosninganna – eða ekki! - 29/10/2017