Tvö púst og þroskaraskari
Það þarf hvorki mikinn lestur í mannkynssögu né yfirburðaskilning á efninu til þess að átta sig á því að ofbeldi sem mætt er með valdníðslu hefur jafnan leitt af sér enn meira gerræði. Og gerir enn. Þetta blasir við augum. Hvert sem litið er á byggðu bóli. Nú hefur það gerst hérlendis að búið er að kaupa hríðskotabyssur handa lögreglunni. Það á að vopna hana. Svo að hún geti mætt vaxandi ofbeldi í undirheimum með valdnýðslu. Samt erum við þegar með vopnaða sérsveit til þess arna. Sá sem kominn er til ára og hefur ekki skilið hvað veldur stigmögnun ofbeldisins er fávís. Og hörmulegt til þess að hugsa að slíkir menn skuli semja okkur lög og lífsreglur.
—
Tveir bankastjórar Landsbankans voru kærðir fyrir umboðssvik og sýknaðir í undirrétti á dögunum. Gjörningurinn var ætlaður til þess að fela þá staðreynd að bankinn átti meira í sjálfum sér en lög leyfa, til þess að leyna því hvernig eignarhaldi hans var háttað, falsa það, til þess að villa um fyrir öðrum eigendum og lánadrottnum, til þess að egna fyrir nýja kaupendur að hlutabréfum í bankanum. Ætlunin er fullkomlega ólögleg. En fyrir hana var ekki kært. Skrítið.
—
Orðið fáviti mun hverfa úr lagasafni landsmanna innan tíðar. Orðasmiðir alþingis hafa klastrað saman orðhenglinum “einstaklingur með þroskahömlun“ þess í stað. Tveir orðhagir menn utan þings og ráðuneyta smíðuðu í gær nothæft orð úr henglinum. Þroskaraskari. Hér með er því komið á framfæri. Án leyfis höfunda.