trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 12/09/2014

Tuð II

Ríkisútvarpið, mitt útvarp, rás eitt, hefur sett ofan við það að spila síðasta lag fyrir fréttir á undan auglýsingum, flytja þær síðan leiknar á afkáralegan hátt, hrópaðar eða illa sungnar í stað þess að lesa þær eins og venja var til með hinum góðu röddum útvarpsins.Bragi Valdimar

¨¨ ¨¨

Það mundi ekki skaða Ríkisútvarpið að sjá til þess  að hinir ágætu þættir, Morgunútgáfan frá 6:30 til kl. 9, Mannlegi þátturinn á milli 11 og 12 og Samfélagið  frá kl. 13 til 14, fjölluðu ekki endilega um lík mál á svipaða máta því að það gerir þá nánast alla eins í eyrum hlustandans.

¨¨ ¨¨

Nú ætlar ríkisstjórn hinnar kristilegu samstöðu að skera niður framlög til Útvarpsins. Þar sem það gekk ekki að fella niður lúterskt bænakvak í sparnaðarskyni vil ég benda dagskrárdeildinni á að það má spara eitthvað með því að hætta að hafa menn á launum við að taka upp og senda út guðþjónustur hvern einasta sunnudag en endurflytja þess í stað gamlar messur. Það tæki enginn eftir því. Þetta yrði hljóðlát breyting. Við trúboð dagsins er stuðst við sömu þjóðsögur og áður og sömu orðin, sungnir svipaðir sálmar og sama mærð viðhöfð og verið hefur.

¨¨ ¨¨

Eins og við, þessir dæmdu, höfum lengi vitað, gefst vel að vera efnahagslega öflugur þegar brjóta skal lögin. Tryggingafélög brutu gjaldeyrislög. Þau lokkuðu með sér „tugi þúsunda“ efnamanna í brotið, að eigin sögn, og án þess að birta nafnalistann yfir hina samseku svo unnt væri að telja rétt.  Þetta var voldugur hópur og svo máttugur að enginn var kærður fyrir brotið heldur samið um að hver fengi að halda sínum feng, lögin verða síðan sniðin að þörfum brotamannanna svo að þeir geti haldið gjörningnum áfram. Enginn dæmdur og málið dautt.

„Seðlabankinn væntir þess“ að með þessu hafi hann stuðlað „að auknum stöðugleika í efnahagslífi í landinu“ segir í fréttatilkynningu.

¨¨ ¨¨

Auk þessa alls hafa verkamenn á vefsíðu Baggalúts verið allt of lengi í sumarfríi.

Úlfar Þormóðsson
Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,428