Trúnaður
Oddvitar Framsóknarflokksins töluðu dólgslega og fóru mikinn í nýafstöðnum borgarstjórnarkosningum. Vegna þessa velta margir því fyrir sér hvort flokkurinn sé stjórntækur. Af tilefninu er þarft að líta í baksýnisspegilinn.
Á liðnu hausti kom út hjá Veröld bókin Steingrímur J. … , skráð af Birni Þór Sigbjörnssyni. Þar segir frá því á einum stað að íslensk stjórnvöld fengu Lee C. Buchheit til liðs við sig vegna samningaumleitanna í Icesave-deilunni.
Steingrímur segir svo frá:
„Lee Buchheit … var yfirburðamaður á þessu sviði, öllu sem sneri að flókinni samningagerð, skuldamálum og slíku. Þá var hann líka flinkur í mannlegum samskiptum. Ég sá hvernig hann hanteraði Bjarna og Sigmund Davíð, hann talaði strax við þá eins og gamla kunningja. Gott dæmi um það var hvernig hann lempaði niður atvik sem kom upp þegar við vorum að leggja drög að fyrstu samningalotunni. Það var lögð áhersla á að allt væri í trúnaði og við höfðum reynt að fela okkur fyrir fjölmiðlunum í fjármálaráðuneytinu. Eftir alllanga fundarsetu stóðum við upp og fengum okkur pitsu en Sigmundur sagðist þurfa að skjótast frá. Klukkan var að verða sjö og einhver kveikti á sjónvarpinu og þar í fyrstu frétt var verið að ræða við Sigmund um Icesave. Við vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið, maðurinn hafði verið með okkur þar til fyrir örfáum mínútum en var nú allt í einu kominn í sjónvarpsviðtal í beinni útsendingu af gangstéttinni utan við Arnarhvál að tala um mál sem ætlunin hafði verið að halda trúnað um enda á viðkvæmu stigi. Það hefði verið hægt að taka þessu illa en Buchheit beitti lagni sem sjálfsagt hentaði betur við þessar aðstæður.“
Væri ekki rétt að hver spyrði sjálfan sig í fullum trúnaði um heillyndi oddvita Framsóknarflokksins?