Traust samstaða
Þær voru saman á kirkjuþingi tvær konur, kirkjumálaráðherra og biskup. Þær töluðu um traust. Og nauðsyn á trausti.
Innihaldið í viðtali biskups í kvöldfréttum Sjónvarpsins (25.10.) var að úr því að þjóðfélagið væri svona óskaplegt, og útlönd líka, þyrfti lögreglan að hafa byssur. Segði hún. Og við verðum að treysta henni, lögreglunni. Sagði biskupinn.
Hanna Birna, kirkjumálaráðherra, hélt ræðu yfir guðsmönnum. Hún talaði um skort á trausti. Og óvægna pólitíska umræðu eins og það væri nýlunda í stjórnmálum. Hún valdi sykursætu leiðina og blandaði börnum í málið. Umræðan væri ekki við þeirra hæfi. Menn yrði að taka sig á og kenna börnum að berra traust til náungans.
Undir fréttum af málflutningi þessara tveggja embættiskvenna laust mig, því miður, sú hugsun, að þær hafi týnt skilningi sínum á hárri vegferð sinni í lífinu? Vita þær virkilega ekki hvað traust er? Hvernig það verður til? Og af hverju vantraust stafar? Kirkjan hefur tapað tiltrú og biskupinn veit ekki hvers vegna? Ráðherrann er trausti rúinn og hefur ekki minnsta grun um af hverju það stafar. Nema ef það skildi vera fyrir almennum skorti á trausti. Og heldur að ráð við því sé að búa það til heima í stofu þegar búið er að slökkva á fréttunum.
Þær voru líka saman, tvær konur sem skortir sjálfssýn, biskup og ráðherra, á sama þingi fyrir ári. Þá ræddu þær nauðsyn á samstöðu. Þær hafa staðið sig. Svona prívat. Þær standa enn saman. Það ríkir traust á milli þeirra. Það er árangur út af fyrir sig.