trusted online casino malaysia
Ritstjórn 31/12/2018

Tíu ráð til þingmanna á nýju ári

Herðubreið hefur reynt að læra eitthvað af árinu 2018.

Hér eru fáein ráð til þeirra sem okkur þykir vænst um:

  1. Ef þú kallar þig jafnaðarmann, ekki fara í ríkisstjórn með flokki sem berst helzt fyrir lækkun skatta á þá ríku, einkavæðingu í velferðarþjónustunni, lægri gjöldum á útgerðina og sem skipar flokkspólitískt í dómaraembætti. Það er almennt bara vont karma.
  2. Ef þú vilt bæta kjör fólks með lægra vöruverði, ekki fara í ríkisstjórn með flokki sem brýtur lög til þess að ódýr matvæli fáist ekki flutt inn. Og stendur vörð um landbúnaðarkerfi sem er vont fyrir bæði bændur og launafólk. Þetta ætti eiginlega að segja sig sjálft. Ha?
  3. Ef þú kallar þig umhverfisverndarsinna, ekki verja eða styðja laxeldi í sjó. Það er nóg að þú hafir komið á fót hundruða tonna kolabrennandi stóriðju norður í landi. Umhverfissóðakvótinn þinn fylltist þar svo að flæddi upp úr. Ekki sulla meira í drullupollinum þínum.
  4. Ef þú ert fylgjandi nýrri stjórnarskrá, farðu þá bara eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki fara í ríkisstjórn með flokkum sem hafa alltaf stöðvað alvöru endurbætur á stjórnarskránni. Þeir breytast ekki. Þú átt að breyta, manstu? Manstu?
  5. Ef þú ert í forystu fyrir launafólk, ekki berjast sérstaklega gegn verðtryggingunni. Bann við henni þýðir þyngri greiðslubyrði á húsnæðislánum fyrir launafólk, þessi sem hafa þó efni á að eiga heima einhvers staðar. Gerðu frekar þitt til þess að verðbólga verði lág. Þá skiptir verðtryggingin engu máli og þú sefur betur.
  6. Ef þú ert í forystu fyrir launafólk, berstu fyrir því að tekinn sé upp alþjóðlega nothæfur gjaldmiðill, með tilheyrandi lágum vöxtum og stöðugleika. Þá geturðu líka gleymt verðtryggingunni. Allir græða nema kapítalistarnir og þú sefur ennþá betur.
  7. Ef þú verður þér til skammar á opinberum vettvangi, biðstu einlæglega afsökunar á mistökunum og axlaðu ábyrgð. Ekki reyna að ljúga, snúa út úr eða ofsækja þann sem heyrði til þín. Við það verðurðu bara minni kall. Ef það er yfirleitt hægt.
  8. Ef þú ætlar að eyða tugmilljónum í opinbera athöfn ætlaða almenningi, prófaðu að hafa eitthvað athyglisvert eða jafnvel bara smá forvitnilegt á dagskrá. Megas, Braga Valdimar eða Siggu Thorlacius. Jafnvel Geirmund, ef þú vilt tjútta í sveitinni. Danskir nazistar trekkja mun síður.
  9. Ef þú ætlar að svíkja milljónir út úr ríkissjóði, reyndu að gera það fagmannlega. Ekki fara í allar jarðarfarir í kjördæminu hjá fólki sem þú þekktir ekkert. Ekki keyra hringinn á tveggja daga fresti. Svoleiðis gera amatörar. Hringdu upp í Valhöll um ráðgjöf. Hannes lumar á nokkrum aðferðum líka.
  10. Ef þú vilt vera fáviti af því að þú kemst upp með það, vinsamlega hættu því. Ef þú ert í alvörunni fáviti – sem virðist í sumum tilvikum alveg vera raunverulegur möguleiki – vinsamlega finndu þér annað starf. Það losna reglulega djobb hjá Miðflokknum.

Það er nefnilega gullna reglan: Ekki vera fáviti.

Það getur varla verið of flókið? Ha?

Hjartanlega gleðilegt nýtt og betra ár.

Herðubreið

1,333