trusted online casino malaysia
Ritstjórn 12/03/2020

Það er fleira skemmtilegt en fótbolti: Dæmið af Joe Biden

Karl Th. Birgisson skrifar

Við horfum nú upp á fylgissveiflu í bandarískum stjórnmálum sem á sér engin fordæmi.

Það er gaman. Betra en að horfa á spennandi fótboltaleik.

Ég er að tala um Joe Biden. Hann vann yfirburðasigur í prófkjörum demókrata í fyrradag og staðfesti þar með fylgisaukninguna, sem flestir fylgdust með í forundran á „Super Tuesday“ fyrir rúmri viku.

Biden hafði verið nánast niðurlægður í fyrstu prófkjörum í Iowa og New Hampshire. Og hin viðteknu sannindi hafa lengi verið, að nauðsynlegt sé að ganga í það minnsta þokkalega þar til þess að eiga von í framhaldinu.

Eftir þessi úrslit skrifuðu flestir í huganum minningargreinar um skemmtilegan pólitískan feril Bidens.

En neinei. Að kvöldi kjördags í New Hampshire kvaddi Biden ekki einu sinni stuðningsmenn sína þar, heldur flaug beint til Suður-Karólínu.

Samt var næsta prófkjör ekki þar, heldur vestur í Nevada, sem hefur orðið mikilvægara hin seinni árin vegna breytinga á samsetningu íbúa – þar hefur fjölgað mjög fólki sem hefur spænsku að móðurmáli.

En það var ekkert „Go west, young man“ fyrir Joe Biden. Gamli maðurinn fór suður. Það var alls engin tilviljun.

Eins og kom í ljós þegar Biden flutti ræðu um kvöldið í höfuðborginni Columbia fyrir troðfullum sal af stuðningsmönnum. Ég hlustaði á ræðuna í beinni útsendingu og tvennt var athyglisverðast.

Annars vegar virtist Joe vera kominn heim. Hann flutti að minnsta kosti beztu ræðu sem heyrzt hefur frá honum lengi. Hann var í stuði og skemmtilegur. Það var einhver fjaðurmögnun í röddinni, og Joe kann alveg að bregða fyrir sig suðurríkjaflámæli. Hann naut sín í botn, og ekki var að heyra að þar færi maður sem hefði verð blóðflengdur í tveimur prófkjörum í röð.

Hitt var reyndar fyrirsjáanlegra, að Biden nefndi Barack Obama sirka þrjátíu sinnum í ræðunni. Talaði um raunverulega demókrata (Bernie Sanders hefur, vel að merkja, aldrei verið í demókrataflokknum) og kallaði þá „Obama-Biden Democrats.“

Það var heldur engin tilviljun. Blökkumenn eru hlutfallslega mjög margir meðal kjósenda demókrata í Suður-Karólínu. Joe Biden hefur ræktað jarðveginn í þessu fylki árum saman og er vinmargur þar. Hann var að bjóða kjósendum sínum framhald á forsetatíð Obama.

Það virkaði svona líka ótrúlega vel. Stórsigur í prófkjörinu í Suður-Karólínu varð að trampólíni, sem skaut Joe Biden þangað sem hann er núna: Forsetaframbjóðandi demókrata á móti Donald Trump í haust. (Jájá, ég veit að það er ekki orðið þannig ennþá, en tölurnar ljúga ekki.)

––––––––

Biden hefur reynt að verða forsetaframbjóðandi allt frá 1988, en vann aldrei í nokkru einasta prófkjöri.

Fyrir forsetakosningar 1988 varð hann að hætta af því að einhver ræðuritara hans hafði stolið frösum frá Neil Kinnock, leiðtoga brezka Verkamannaflokksins. Stolið? Já, alveg hreint.

Lesum sjálf og berum saman:

Neil Kinnock sagði í ræðu:

„Why am I the first Kinnock in a thousand generations to be able to get to university? [Bendir á eiginkonu sína úti í sal.] Why is Glenys the first woman in her family in a thousand generations to be able to get to university? Was it because all our predecessors were thick?“

Í ræðu Bidens var textinn svona:

„Why is it that Joe Biden is the first in his family ever to go to a university? [Bendir á eiginkonu sína úti í sal.] Why is it that my wife who is sitting out there in the audience is the first in her family to ever go to college? Is it because our fathers and mothers were not bright? Is it because I’m the first Biden in a thousand generations to get a college and a graduate degree that I was smarter than the rest?“

Hannes Hólmsteinn hefði að vísu ekki kallað þetta nema örlitla umorðun, en Joe Biden þurfti án mikilla málalenginga að draga sig frekar óvirðulega út úr forsetaframboði sínu. Ritstuldur er ekki boðlegur.

Biden reyndi aftur 2008 og tapaði þá blessunarlega fyrir Barack Obama. Samt gekk honum vel í prófkjörunum, en hann vann aldrei eitt einasta.

Þangað til loksins um daginn í Suður-Karólínu, og þá hafði það þessar afdrifaríku afleiðingar.

Svona skrifar sagan sig sjálf án þess að við gáfaða fólkið getum nokkru spáð nema viðteknum sannindum. Þau hafa nú fengið útförina sem allir spáðu að framboð Bidens fengi.

Þess vegna – meðal annars – eru stjórnmál stundum svona skemmtileg fyrir áhorfendur. Oft betri en fótbolti.

––––––––

Önnur viðtekin sannindi mætti gjarnan jarða í leiðinni. Þau voru að vísu aldrei sannindi, en höfðu fengið það yfirbragð af því að nógu margir endurtóku þau nógu lengi.

Þau eru að hægt sé að kaupa úrslit kosninga með peningum.

Þess eru að vísu nokkur dæmi (þótt oftast sé erfitt að fullyrða um hvað hefur úrslitaáhrif), en sem almenn regla eru þessi svokölluðu sannindi óttaleg þvæla.

Endilega ekki misskilja: Peningar eru (jafnan) bráðnauðsynlegir til að ná árangri í kosningum, en þeir eru ekki nóg. Ef svo væri, þá stæði Michael Bloomberg nú uppi sem sigurvegari í prófkjörum demókrata. Hann eyddi í þau fleiri hundruðum milljarða en mig langar að rifja upp.

Hið sama mætti segja um Tom Steyer, annan milljarðamæring, sem náði þó hvergi máli.

Og eins undarlega og það hljómar, þá hafði sósíalistinn Bernie Sanders úr fleiri milljörðum að spila en Joe Biden. Biden keypti nánast engar auglýsingar í sjónvarpi á síðustu dögum og í sumum fylkjum opnaði hann ekki einu sinni skrifstofu. Hann hafði ekki efni á því. Hann vann samt og víðast hvar með yfirburðum.

Fjölmörg fleiri dæmi mætti nefna sem hníga í sömu átt, en þessi eru nærtækust okkur í tíma.

Óskup væri því gott að jarða þessa klisju með öllum hinum.

––––––––

Nú væri freistandi að spá fyrir um framhaldið og jafnvel úrslit forsetakosninganna í haust, en til þess er ég ekki nógu gáfaður og kann of mörg viðtekin sannindi, sem Joe Biden hefur nú greftrað.

Sem minnir mig á raunverulegan lærdóm úr íslenzkum veruleika. Daginn fyrir alþingiskosningar 2013 rakst ég á Róbert Marshall á Vitastíg og spurði vitaskuld hvernig hann teldi að staðan væri.

Róbert var þá í framboði fyrir nýstofnaða Bjarta framtíð og hafði reyndar sopið marga pólitíska fjöru frá unga aldri.

Hann hló, æðrulaus eins og jafnan, og svaraði: „Við vitum ekki jackshit.“ Tilvitnun lýkur.

Gott svar og heiðarlegt, og enn ein staðfestingin á því hvers vegna pólitík getur verið svona spennandi fyrir áhorfendur.

Það er nefnilega fleira skemmtilegt en fótbolti. Eins og hann er nú fínn.

Karl Th. Birgisson

1,464