trusted online casino malaysia
Ritstjórn 10/04/2020

Trúarstef í lögum Bubba Morthens: Ljósberinn og rósirnar

Eftir Guðmund Andra Thorsson

Bubbi er auðvitað með þessa rödd – hún er hans aðalsmerki, hvort sem um listsköpun er að ræða eða samfélagsumræðu – en hann er líka einn af seigustu rósaræktendum landsins, fæst við það af alúð og útsjónarsemi þegar hann ræktar garðinn sinn við Meðalfellsvatn. Ég held að í rósaræktinni komist hann nær almættinu en í innilegustu bæn, hversu fagur sem söngurinn er, því að fátt jafnast á við rósina í sköpunarverkinu, sem allt er þó harla gott. Kannski er allt sem hann gerir í nafni rósarinnar.

Við Bubbi erum á svipuðu reki og komum báðir úr Vogahverfinu í Reykjavík, ólumst þar upp á sjöunda áratug síðustu aldar. Ég veit að við sem það gerðum tölum alltof mikið um það – hverfið var ekki svona merkilegt og ýmislegt þar ömurlegt – en ég get samt ekki stillt mig um að nefna það hér, að þegar ég hugsa um trúarlegu stefin í lögunum hans Bubba er ég ósjálfrátt farinn að hugsa um Langholtskirkju og Vogaskóla og séra Árelíus og séra Sigurð Hauk og Helga skólastjóra og það hvernig kristin trú umvafði svo margt í umhverfi okkar án þess að við tækjum beinlínis eftir því eða á því væri haft orð sérstaklega. 

Þetta var einföld trú og sjálfbær eins og ég man hana: 

Trúir þú á engla?
– Já.
– Af hverju? 
– Vegna þess að þeir eru til.
– Og hvernig veistu það?
– Af því að ég trúi því. 

* * *

Bubbi er ljósberi. Þegar hann syngur hreyfir hann við einhverju í okkur sem vaknar og opnast á meðan við hlustum. Það lifnar minning um kennd. Lag er flutt en það er ekki sama lagið fyrir hverjum og einum hlustanda og í hverjum flutningi verða til óteljandi Bubbar; hann er aldrei að syngja um alveg það sama – hjá einum áheyrenda vekur söngurinn minningu um faðm en hjá öðrum áminningu um fjarveru faðms . Þetta er aldrei alveg sama lagið hverju sinni, breytist í hverjum flutningi.

Sérhver flutningur er hvítigaldur. Tónarnir svífa af stað og færa yl þangað sem er kalt og birtu þar sem er dimmt. Tengja. Við tengjumst eigin sál og því sem þar býr innst. „Ljósið sem lifði í þér lifir líka í mér / í hjarta mínu lifir þú / í vitund minni hér og nú …“ Þegar ég heyri þetta fer ég að hugsa um mömmu.

* * *

Trúarlegur kveðskapur getur bæði verið útleitinn og innhverfur en ég held að hann snúist alltaf um þrá eftir því að tengjast– bænin er viðleitni til að tengjast einhverju sem sumir kalla alheimsandann. Trúarljóðið er opinn faðmur frekar en krosslagðir handleggir, jafn undarlega og það hljómar. Það tendrar ljós í myrku rými. Það er bæn sem er felld í háttbundin orð, samtal við Guð, og í eðli sínu eins persónulegt og mest má vera. Skáldið reynir að bægja burt öllu því hugsana- og hugmyndarusli sem er á sporbaug um heilann í okkur, öllum sjálfgefnu setningunum og vonarsnauðu viskunni, og leitast við að greiða ljósinu leið að sál sinni, virkja náðarkraftinn. 

Sálmarnir sýna okkur stundum inn í þessa kviku, þar er nakin sál andspænis almættinu, játar vanmátt sinn og þörf fyrir handleiðslu, fellir varnarhætti sína – og biður. Lagið Kveðja er af þessum toga; í laginu og flutningnum er innileiki þar sem saman er ofinn söknuður eftir horfnum ástvin og bæn til Drottins um að láta sína blíðu náð skína á skáldið og loks vissa um sól að morgni. Við erum nefnilega stödd í myrkrinu, göngum þar eða sitjum með kvíðann galopinn, og þurfum þá meira en nokkru sinni á því að halda að muna að aftur mun rísa sól að morgni og baða okkur ljósi. Þessi sól að morgni á bæði við um væntanlega dögun sem bíður okkar en vísar líka á hinn efsta dag þegar okkur bíða samfundir við þá ástvini sem við höfum misst.

Stundum getur trúarlegur kveðskapur birst okkur sem nokkurs konar herhvöt til annarra manna um að fylgja sér í átt að náðinni og hjálpræðinu, þangað sem sálirnar eru hólpnar. Trúboð: Ég hef séð og fundið – fylgið mér. Ég sé ljósið og mig langar að boða þér það hvernig þú getur öðlast náð. Slíkur kveðskapur getur reynst vinsælum söngvurum tvíeggjað sverð; eins og vikið var að hér að framan á söngvaskáldið sérstaka greiða leið að heilabúum áheyrenda sinna vegna þess að með orðum sínum og tónum, rödd og persónutöfrum getur það vakið minningar og kenndir sem jafnvel hafa legið í þögn og dimmu. Þetta getur fært söngvaranum sérstakt náðarvald og það er ekki alveg sama hvernig hann gengur um þegar hann er kominn svona inn í heilabú fólks og farinn að eiga þar við innréttingarnar. 

Stundum hefur maður séð söngvara nota þetta náðarvald sitt til að fá hlustendur til að fylgja sér inn á hugmyndalegan vettvang sem er framandi og jafnvel ógeðfelldur fyrir hlustandanum. Þá er hætt við að þeir glutri því niður, jafnvel fyrir fullt og allt. Þetta er hættuspil. 

En Bubba tekst að sneiða hjá því: hann getur verið fullyrðingasamur og stóryrtur í söngvum sínum og ljóðum en hann dæmir okkur ekki og það sem mest er um vert: hann nálgast okkur ekki í ófullkomleika okkar en fullkomnun sinni – heldur einmitt öfugt: hér er einn breyskur og ófullkominn en líka afar ákafur maður að segja vinum frá undrinu sem hann hefur upplifað og verður að deila með öðrum: hann er svo glaður í þessum trúarljóðum sínum að ekki er hægt annað en að samgleðjast honum; svo viss að ekki er hægt annað en að kinka kolli, svo kærleiksríkur í öllum sínum krafti að maður getur ekki annað en hrifist með og farið að dansa. Hann rífur í okkur eins og morgunhress samferðamaður sem kemur inn í herbergið til okkar og dregur frá svo að inn streymir flennibirta, hvort sem við viljum sjá hana eða ekki. Bubbi er í trúarsöngvum sínum skáld dagsbirtunnar, já morgunsólarinnar.

Því að trúarsöngvar Bubba fjalla um ljósið og vegsama þann sem gaf þér ljósið. Í ljóðum Bubba er Guð ekki hinn strangi og siðavandi og þungbúni Drottinn sem fylgir bókstafstrúnni og átrúnaðinum á lögmál byrst, sá Guð sem hefur sífelldar áhyggjur af rekkjusiðum mannfólksins og umbunar þeim sem safna auði en refsar hinum sem eru bara „lífsglaðir letingjar“. Guð hjá Bubba er 

„ … Faðir tímans og alls sem er 
faðir þess góða sem grær í þér,
þjófur eða kóngur – hann krýnir þig 
í kærleikans nafni snertu mig.
Þeim sem áttu enga von 
ást sína gaf hann og sinn son …“ 

… eins og segir í fagnaðarerindinu Sá sem gaf þér ljósið. Minnir þetta ekki nánast á Hallgrím Pétursson?

* * *

Trúarlegur kveðskapur getur birst okkur sem bæn, sem sjálfsskoðun, sem leið til að tengjast horfnum ástvinum, sem viðleitni til að breyta sorg í ljós. En trúarstefin geta líka birst okkur á óbeinan hátt í ljóðunum, geta verið þar að baki án þess jafnvel að orð sé beinlínis á þeim haft, litað söguna sem sögð er þar eða viðhorfin sem að baki búa. 

Mér finnst lag eins og Regnbogans stræti, eitt nýjasta lagið hans Bubba, vera dæmi um slíkt lag sem er gegnsýrt af trúarlegum myndum og hugmyndum um leið og það fjallar um hlutskipti margra samborgara okkar sem hefur ekkert með trúmál að gera, að öðru leyti en því að hafa búið við fordæmingu sem réttlætt var með úreltum kennisetningum sem kenndar eru við trú. En um leið fjallar þessi söngur um krossbera, um þá sem þorðu að skera sig úr, og tóku afleiðingunum af því. Um þjáninguna og þyrnikórónuna, um píslarsöguna sem við horfum stundum upp á í daglega lífinu án þess að bregðast við því. Lagið fjallar í rauninni um sól að morgni – og regn: það sem gerist þegar mætast þjáning og náð, harmur og fögnuður, sól og regn. Þá verður til regnbogi, og sum okkar ganga eftir þeim vegi ævina á enda. 

Og það er ekkert alltaf sem englarnir finna okkur eða tekst ætlunarverk sitt. Hún er ansi mögnuð myndin sem Bubbi bregður upp í laginu Trúir þú á engla, af einsemd og sorg í stórborginni, þjáningum sem engum tekst að lina vegna þess að englarnir sem áttu að gefa frið og sefa ótta villtust af leið og ráfa villtir um götur og torg. Eins og fuglar sem misst hafa ratvísina út af ruglingi í náttúrunni. Milli mannanna og englanna hefur rofnað eitthvert samband, aldagömul tenging slitnað. Hér er á nöturlegan hátt lýst trúlausum og köldum heimi sem stjórnast af gróðasjónarmiðum, firringu, samskiptaleysi, sinnuleysi og misnotkun.

Af þessu öllu var svo sannarlega nóg þegar við Bubbi vorum að alast upp í Vogahverfinu í Reykjavík um og upp úr miðjum sjöunda áratugnum. Þar var oft myrkur og kalt og langt milli húsanna. Og villtir englar sem ráfuðu um götur og torg vegna þess að enginn bað til þeirra. Við getum líka hugsað þetta svona: um allt svífa englar og undir okkur komið að finna það tíðnisvið sem þeir eru á, og þarf svo sem ekki meira til en trúa því að þeir séu til, af því maður veit það, vegna þess að maður trúir því – og trúir líka hinu: að aftur komi sól að morgni. Þetta gerum við með því að opna hugann, opna faðminn, greiða ljósinu för að sálinni þar sem guðsneistinn býr í okkur. 

Og svo getum við líka ræktað rósir.

__ __ __ __

Erindi flutt í Grafarvogskirkju í nóvember 2019

1,704