trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 04/09/2014

Tímaskyn

Eitt af því sem talið er fæla ungt fólk frá stjórnmálum er að umræða um þau þau snúast í æ minna mæli um aðalatriði, hugsjónir. Þetta kann að vera rétt. Að minnsta kosti er ástæða til að gefa gaum að þessu.

Samtök atvinnulífsins er félagsskapur þeirra sem stunda atvinnurekstur. Þeirra hagur felst í því að hafa frjálsar hendur til athafna, fáar hindranir og lítið sem ekkert opinbert eftirlit með því sem gert er. Þau hafa nú sett fram hugmynd um að binda útgjaldareglu í lög. Fyrir hið opinbera. Til að tryggja aðhald í ríkisfjármálum. Þetta merkir að það skuli sett höft á framkvæmdagetu hins opinbera, sem aftur þýðir að Samtök atvinnulífsins fá aukið svigrúm til athafna.

Frá þessu er greint í Viðskipta-Mogganum í dag, 4. september. Blaðið bara hugmyndina undir tvo helstu stjórnmálaspekinga fjármálalífsins, þau Vigdísi Hauksdóttur, formanna fjárlaganefndar alþingis og Guðlaug Þór Þórðarson, varaformann sömu nefndar. Vigdísi lýst forkunnarvel á þetta og segir sig viljuga til þess að „taka inn slíkt ákvæði til bráðabirgða, til dæmis til tíu ára.“ Varamaður hennar segir: „Ég hlakka til að fara yfir þessi sjónarmið. … Við þurfum að hugsa til framtíðar og framtíðin er núna.“

Eitt grundvallaratriði þess að geta átt í vitrænni umræðu um stefnu og straum er að kunna tungumálið sem maður tjáir sig á, hafa vitneskju um fortíðina, þekkingu og skilning á nútímanum. Þegar þetta er haft í huga má stórlega efast um hæfni þess, til að eiga í gefandi samræðum, sem heldur að tími til bráðabirgða geti spannað tíu ár. Og sá sem veit ekki að fortíðin er liðin, nútíminn stendur yfir og að framtíðin er ókominn og jafnvel endalaus, er ekki maður sem getur átt í gefandi orðræðu við samtíð sína.

Til þess að bæta pólitíska umræðu mætti velta því fyrir sér hvort það ætti að setja lög um það að þeir sem vilja bjóða sig fram til pólitískra starfa þreyti próf í íslensku og standist það á skömmtuðum tíma.

Úlfar Þormóðsson
Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,464