Þingheimsóknir og partí hjá Halla & Sveinn Gunnarsdottir
Nashville, 8. apríl 2014
Kæra Ísland,
Í morgun átti ég erindi niður á þing okkar Tennessee-búa. Það er í virðulegri byggingu í miðbænum. Fyrir framan gömlu bygginguna er stór garður sem sagan segir að hafi verið settur þar niður til að koma í veg fyrir að hægt væri að byggja háhýsi allt í kringum Kapítólið. Úr garðinum er því alltaf hægt að líta upp til þingsins.
Ég heimsótti þingið í fyrsta sinn í febrúar. Dönsk vinkona mín, fréttakona á DR1, var í heimsókn og mér fannst ég þurfa að finna upp á einhverju sérstaklega áhugaverðu að gera. Ég fékk því vin minn, sem er aðstoðarmaður þingmanns, til að bjóða okkur í skoðunarferð um þingið. Urðum við þá líka vitni að þingfundi og var boðið að sitja í sjálfum þingsalnum. Eins og hefðin býður, vorum við kynntar sérstaklega fyrir þingheimi í upphafi fundar, við stóðum upp og hneigðum okkur lítillega undir lófataki. Meðan á þingfundi stóð sátu fæstir þingmenn kyrrir og nokkrir lögðu leið sína til norrænu gestana og heilsuðu upp á. Einn þingmaður sat nokkuð lengi hjá okkur og þótti mér það pínulítið vandræðalegt þar sem hann heyrði frekar illa en spurði margra spurninga. Hann týndi víst heyrninni í Írak.
Í annað skiptið heimsótti ég þingið til að mótmæla lagafrumvarpi sem gekk út á að kveða á um sérstaka lagaheimild til fyrirtækja um að neita að veita samkynhneigðum pörum í giftingarhugleiðingum þjónustu. Ég hélt ég væri að fara að mótmæla fyrir utan þingið en við fórum auðvitað bara beint inn á fundinn og stóðum þar prúð, rauðklædd fyrir málstaðinn. Þetta bar árangur, en þó með þeim formerkjum af hálfu Repúblikana að frumvarpið væri óþarft, fyrirtæki gætu synjað hverjum sem er um þjónustu. Engu að síður, sigur.
En þá kem ég að því sem mér þykir merkilegt við þingið hér í Tennessee, það er hversu aðgengilegt það er. Þegar ég mætti á staðinn í morgun var ég orðin svo sjóuð að ég rétti öryggisvörðunum nýja Tennessee ökuskírteinið mitt sem skilríki, án þess að víkja nokkuð að því hvert erindi mitt var. Að vísu þurfti ég að ganga í gegnum málmleitarhlið, en einhvers staðar er það pínulítið skiljanlegt í þessu landi þar sem byssueign (og byssuburður) er almenn. En að þessu loknu er ég frjáls ferða minna. Og það þýðir að ég get valsað um alla bygginguna: inn á nefndarfundi eða litið við í heimsókn hjá einstaka þingmönnum, sem eru velflestir með opnar skrifstofur þótt aðstoðarfólk þeirra kunni að vísa fólki í burtu sem ekki hefur samið um fundartíma.
Ég hafði orð á þessu við vin minn sem vinnur á þinginu, að mér þætti aðgengið þarna gott, og hann svaraði: Auðvitað, þingið er fólksins.
Að öðru leyti er víst ekki mikið gott um þingið hér að segja. Það er ægilega hægri sinnað og fordómafullt en Repúblikanar unnu þar stóran sigur eftir að Obama var kjörinn forseti. Kenningar segja að svo margir íbúar Tennessee hafi ekki þolað að hafa svartan mann í því embætti og þess vegna hafi Repúblikönum vaxið ásmegin. En nóg um það.
Næstu helgi verður borðtennismót á heimili okkar, nánar tiltekið partí til stuðnings Lyndu Jones, frambjóðanda til dómara hér í Nashville. Vinkona mín átti þessa hugmynd og bauð fram heimili okkar. Hún lofaði að sinna allri vinnunni í kringum partíið og sá því um að taka saman upplýsingar fyrir boðskortið. Boðið er því heima hjá Halla & Sveinn Gunnarsdottir. Það er almennilegt.
Veðurspáin er góð svo að þetta verður ábyggilega gaman. Skemmst er að minnast þess að Susan Sarandon hélt Bill de Blasio borðtennispartí í kosningabaráttuni í New York. Hann vann. Vonandi nýtur Lynda líka góðs af þessu.
Kær kveðja,
Halla
- Sameinumst um að kjósa ekki Framsókn í Reykjavík - 29/05/2014
- Evrópa, prófessorinn og við - 02/05/2014
- Heimsókn að heiman, þing, fangelsi og íslenski þjóðsöngurinn - 24/04/2014