trusted online casino malaysia
Halla Gunnarsdóttir 24/04/2014

Heimsókn að heiman, þing, fangelsi og íslenski þjóðsöngurinn

Kæra Ísland,

Héðan er það helst í fréttum að mamma kom í heimsókn. Það var ferlega gaman. Veðrið var með besta móti og við hjóluðum mikið um borgina, þar á meðal tvisvar niður á Broadway til að kíkja á hina frægu honky tonk staði. Þeir eru eiginlega betri á daginn en á kvöldin, eða a.m.k. afslappaðri. Við fórum líka í göngu í Radnor Lake, sem er garður/skógur hér í nágrenninu. Þar sáum við skjaldbökur og villta kalkúna. Og við borðuðum á Monells, sem er veitingastaður í Suðurríkjastíl. Þar er gestum vísað til sætis við langborð með öðrum gestum, sem er nokkuð skemmtilegt. Maturinn var fínn. Íslendingafélagið fagnaði síðan Páskum með hangikjöti en ekkert okkar hafði lagt sér slíka dásemd til munns sitjandi utandyra í blíðskapaveðri.

Þinginu í Tennessee lauk í síðustu viku. Hér er pólitík aðeins hlutastarf og þingmennska hálfgerð vertíðarvinna, þar sem mest mæðir á frá janúar-apríl, þegar þingið fundar. Miðað við málin sem þingið tekur til umfjöllunar mætti eiginlega segja að það þyrfti frekar skemmri tíma en lengri, svo það vinni samfélaginu ekki of mikinn skaða. Meðal mála sem nú voru afgreidd var frumvarp þess efnis að konur sem neyta fíkniefna á meðgöngu verði sóttar til saka og jafnvel fangelsaðar. Nú er málið á borði ríkisstjórans, Bills Haslam, og mannréttindasamtök binda vonir við að hann neiti að undirrita lögin.

Fangelsisvist virðist vera lausnarorðið hér í landi við öllum félagslegum vandamálum. Hvergi í heiminum sitja hlutfallslega jafnmargir í fangelsi og í Bandaríkjunum (að því er upplýsingar fást um). Fangelsin eru venjulega einkarekin, í hagnaðarskyni. Ekki er það þó eina gróðastarfsemin tengd fangelsum, því fjöldi fyrirtækja stórgræðir á því að kaupa vinnuafl fanga, sem ekki hafa val um hvort þeir vinna eða ekki. Þetta eru fyrirtæki á borð við Boeing, Starbucks og Victoria Secret. Í alríkisfangelsum fá fangar á bilinu 23 sent og upp í rúman dollara, eða á bilinu 28-128 íslenskar krónur.

Það eru því einkaaðilar sem hafa umtalsverða fjárhagslega hagsmuni af því að sem flest fólk sitji í fangelsum. Og einkaaðilar hafa mikil áhrif á pólitíska þróun. Varla þarf að taka fram að hvítt fólk er í miklum minnihluta þeirra sem fá fangelsisdóm, glæpir hvíta og ríka fólksins eru ekki litnir jafn alvarlegum augum. Einn fyrrum fangi orðaði það svo að áður hefði svörtum verið haldið nauðugum sem þrælum í vinnu, nú sé þeim haldið í fangelsum í vinnu. Þessi maður var á dauðadeild hér í Tennessee í 28 ár en slapp út árið 2012 eftir margar áfrýjanir. Fyrrum fangar hafa í ofanálag takmörkuð réttindi. Í sumum ríkjum missa þeir meira að segja kosningaréttinn. Það er því eiginlega sama hvernig á það er litið, fangelsiskerfið í Bandaríkjunum er svo hryllilegt að það tekur engu tali.

En á léttari nótum, fótboltaliðið mitt hefur nú tekið upp á því að vilja læra íslensku. Þær fara ágætlega með framburðinn þegar við teljum sekúndur í teygjunum eftir æfingu. Kröfurnar eru hins vegar orðnar ansi miklar og í dag var ég beðin um að syngja fyrir þær íslenska þjóðsönginn. Ég kom mér fimlega undan því, en lofaði að kenna þeim einhverja góða liðssöngva við tækifæri.

Að lokum, í síðasta (eða þarsíðasta) hefti New Yorker er fjallað um feril Chris Christie, ríkisstjórans í New Jersey. Hann var talinn álitlegur kostur sem forsetaefni Repúblikana en eitthvað hefur fjarað undan því eftir fréttir af stóra brúarmálinu, (þegar akreinum við George Washingtonbrúna var lokað að nauðsynjalausu í fjóra daga). Skemmst er að segja frá því að umfjöllunin er eignilega eins og besti pólitíski þriller. Mæli með þeirri lesningu fyrir allt áhugafólk um bandarísk stjórnmál.

En nóg í bili.

Kær kveðja,

Halla

Flokkun : Pistlar
1,743