Tál
Þegar stefnuræðu forsætisráðherra var til umfjöllunar á Alþingi í síðustu viku las varaformaður fjárlaganefndar, Guðlaugur Þór Þórðarson, upp úr heimatilbúinni ræðu:
„Ríkisstjórnin hefur forgangsraðað í þágu sjúkrahúsa …“.
Í fréttabréfi til starfsfólks Landsspítalans við lok sömu viku segir forstjórinn, Páll Matthíasson, meðal annars:
„Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 var lagt fram í vikunni (… ) og ljóst að mjög langt er í land til að rekstrargrunnur spítalans sé í samræmi við þau verkefni sem honum eru falin, hvað þá að unnt sé að auka starfsemina.
Staðreyndin er sú að í ár fær Landspítali um 10% minna fé til reksturs en hann fékk árið 2008, miðað við fast verðlag. Síðan þá hefur ekki einungis verið hagrætt gríðarlega í starfseminni (…) heldur einnig bætt við miklum verkefnum. Eigi spítalinn að rækja þau verkefni sem löggjafinn ætlar honum þarf 4% hið minnsta til viðbótar í rekstrargrunn hans
Mikilvægt er að við eigum uppbyggilegt samtal við fjárveitingavaldið um verkefni spítalans og fjármögnun þeirra. Það samtal verður að byggja á staðreyndum en ekki fullyrðingum sem standast ekki skoðun og færa umræðuna ekkert áfram. Landspítali er alltaf tilbúinn til slíks samtals.“
Guðlaugur Þór er fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Hann á Landsspítalanum líf að launa. En á meðan hann forgangsraðar „í þágu sjúkrahúsa“ með þeim hætti sem hann gerir og forstjóri Landsspítalans hefur skýrt starfsfólki sínu frá, er fullástæða til að efast um að samtal við hann verði til þess „færa umræðuna áfram“ vegna þess að hann hlustar ekki. Síst á lífgjafa sinn. Hann talar. Hann er loddari.