trusted online casino malaysia
Ritstjórn 27/08/2014

Taktföst eljusemi – Eða: „Við erum bara meira hjúman“

Eftir Jón Knút ÁsmundssonTopshop

Einusinni vann ég fyrir íslenska sósjal demókrata í húsi (sem nefnt var af pólitískum andstæðingum okkar „Top shop húsið“) niðrí Lækjargötu. Pásurnar tók ég í litlum garði bakvið húsið sem er eitt best geymda leyndarmál Reykjavíkurborgar. Hann virðist vera týndur eða að minnsta kosti án hlutverks, sem er synd því þarna er skemmtilegur skúlptúr eftir Magnús Tómasson og góðir bekkir til að tæma úr einum kaffibolla eða svo.

Í garðinum var líka hægt að horfa inní bakherbergi kosningamiðstöðvar Sjálfstæðisflokksins í gamla Hressó, en róbótarnir sem unnu fyrir Sjálfstæðisflokkinn voru ljóshærðir í bláum drögtum/jakkafötum. Þeir sleiktu frímerki og blésu í blöðrur af taktfastri eljusemi. Þeir minntu mig á hljómsveitina Kraftwerk á tónleikum.

Eitt sinn, þegar ég var að virða þá fyrir mér í gegnum gluggann, tók ég eftir spegilmynd minni. Ég var illa rakaður í Hawaii-skyrtu, eins og Brian Wilson á niðurtúrnum í upphafi áttunda áratugarins. Kontrastarnir voru augljósir og ég hugsaði að sennilega myndum við ekki fá þessi fjörutíu prósent sem nýjasta skoðanakönnun Fréttablaðsins spáði.

Ég settist niður við skúlptúrinn hans Magnúsar, andvarpaði, og fékk mér sopa af kaffinu sem var nýbúið að ná notalegu hitastigi. Mig dagdreymdi um pikknikk í Hellisfirði með sætu stelpunni á skrifstofunni og var í þann mund að losa brjóstahaldarann af henni þegar einhver æpti svo ég hrökk í kút:

„Góðan daginn! Eru menn ekki að vinna?!“ Þetta var fjölmiðlamaðurinn Stefán Jón Hafstein sem var besti vinur aðal í kosningabaráttunni og því slæmt að láta hann góma sig í pásu. Hann var dæmigerður Blair-isti í jakkafötum frá Boss og með óaðfinnanlegt skegg.

„Ha, já…“ sagði ég en svelgdist svo illilega á kaffinu að ég byrjaði að hósta eins og aumingi með hor í nös. Mér tókst að stynja uppúr mér: „Ég þurfti bara að komast út til að hugsa…“

„Hugsa!“ æpti Stefán Jón og hló valdsmannslegum hrossahlátri, en hann hafði víst aldrei heyrt aðra eins firru var mér sagt nokkrum dögum síðar. Svo hvarf hann inní kosningamiðstöðina. Hlæjandi.

Ég sannfærðist endanlega um að stríðið við Sjálfstæðisflokkinn væri tapað. Ég hafði misst lystina á kaffinu og tæmdi úr bollanum á bekk sem róbótar Sjálfstæðisflokksins notuðu í þessum örpásum sem þeir tóku tvisvar á dag. Ég fylgdist stundum með þeim. Þeir töluðu aldrei saman. Kláruðu bara úr bollunum sínum í tíu jafnstórum sopum líkt og þeir væru að medikera sig fyrir næstu átök. Smyrja tannhjólin.

Hvað um það. Hryðjuverk eru viðbrögð örvæntingar einsog vinstrimenn segja.

Ég fetaði í humátt á eftir fjölmiðlamanninum. Niðurlútur.

Ég settist við skrifborðið mitt, kveikti á tölvunni minni og andvarpaði.

„Hvað er að þér, Jón minn?“ spurði Flosi, minn helsti samstarfsmaður. Hann sat á móti mér og við vorum quite a duet. Ég sagði honum frá því sem átti sér stað í bakgarðinum, þ.e. frá þeim hluta sem sneri að róbótum Sjálfstæðisflokksins því ég var bara rétt í þessu að muna eftir senunni með fjölmiðlamanninum. Og ég sleppti líka öllum skáldlegum setningum einsog að ég hefði „séð spegilmynd mína“ og þess háttar.

„Hafðu ekki áhyggjur af þessu, Jón minn,“ sagði hann hughreystandi. „Við erum bara meira hjúman. Annars skulum við fara drífa okkur í pásu. Klukkan er langt gengin í þrjú.“

Við gengum af taktfastri eljusemi uppá Ölstöfu og hittum þar fyrir efnilegasta frambjóðanda sósjal demókrata, Helga Hjörvar, sem hafði mætt um tvöleytið. Hann lét sér ekki leiðast á meðan hann beið. Hafði til dæmis farið með spaugilegar anekdótur úr kosningabaráttunni fyrir barþernuna. Fékk frían bjór fyrir vikið.

Höfundur er Norðfirðingur

1,447