Strandaglópar
Þegar Akrafellið frá Limasol strandaði fyrir austan á dögunum var aðeins eitt varðskip á sjó. Ástæðan var sú að Landhelgisgæslan hefur ekki nægjanlegt rekstrarfé til þess að halda úti tveimur skipum samtímis. Á hennar vegum er aðeins starfandi ein og hálf áhöfn. Það skip sem er á sjó hverju sinni á því að fylgjast með því að veiðiþjófar séu ekki að verki innan landhelginnar umhverfis allt landið auk þess að annast björgunarstörf.
Akrafellið var ekki full hlaðið. Eigi að síður var vel í því; verðmætur útflutningur. Skipið er stórt og það var þungt. Þess vegna ákvað Landhelgisgæslan að kalla menn úr sumarfríum til þess að manna varðskipið sem lá við bryggju og senda það austur að draga strandskipið til hafnar enda sérbúið til björgunarstarfa. Fyrir það hefði Gæslan áreiðanlega fengið álitleg björgunarlaun sem hefðu létt undir við reksturinn. En þetta tók sinn tíma. Þegar varðskipið var lagt af stað kom nýr og öflugur togari á starandstað, tók Akrafellið í slef og kom því til hafnar. Útgerð og áhöfn togarans fá væntanlega björgunarlaunin og eru vel af þeim komin.
Það gæti verið vá fyrir dyrum. Jörðin síður, það gýs og gæti magnast upp í hamfaragos. Þá þurfum við alls við; skipa, flugvéla og þyrlu Gæslunnar. En ríkisstjórnin hefur ákveðið að lækka fjárframlög til Gæslunnar frá því sem nú er.
Starfsmenn Almannavarna, veðurfræðingar, jarðfræðingar, lögregla, vatnamælingamenn, eldfjallafræðingar og fleiri vinna daga og nætur til þess að geta varað landsmenn við því sem gæti gerst áður en það gerist svo að tjón af völdum jarðhræringanna verði í lágmarki. Þeir eru að sigla fram úr fjárheimildum. Og ekki ósennilegt að þeir verði að hætta á vaktinni innan skamms því að agi verður að ríkja í ríkisfjármálum, framúrkeyrsla verður ekki liðin. Alls ekki!
Það er strandkafteinn í brúnni á þjóðarskútunni og strandaglópar á dekki.