Skemmdarverk ríkisstjórnar
Hvað á að kalla ríkisstjórn sem hundsar Alþingi, sem gengur þvert á meirihlutavilja þjóðarinnar, sem hefur margsinnis verið mældur? Hvað á að kalla ríkisstjórn sem vinnur skemmdarverk á framtíðarhagsmunum Íslands? Hvað á að kalla ríkisstjórn sem fer á bak við Alþingi, utanríkismálanefnd Alþingis, á bak við íslensku þjóðina? Ríkisstjórn sem einu sinni hefur reynt að leggja fram tillögu um að slíta viðræðum við Evrópusambandið en leggur ekki í að reyna það aftur, þrátt fyrir að þingmenn stjórnarflokkana eru 38 á móti 25 þingmönnum stjórnarandstöðunnar? Ég veit ekki hvað í raun á að kalla slíka ríkisstjórn. En það koma mörg miður falleg orð upp í hugann og best að geyma þau þar — í bili.
Það hefur verið ljóst lengi að það er ekki vandamál að geyma umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu á ís á meðan þessi ömurlega ríkisstjórn er við völd. Það kostar ekki neitt, ekki nokkurn hlut, nada. Það bara væri þannig og það væri ekkert mál, óháð afstöðu manna til ESB.
Hvers vegna fara menn þá einsog þjófar á nóttu og tilkynna að Ísland sé ekki umsóknarríki? Hvað liggur þar að baki?
Sumt finnst manni alveg augljóst.
Sérhagsmunirnir eru augljósir, sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn. Það ætti ekki að koma á óvart. Og hvernig sjávarútvegurinn styrkir „sína“ menn segir sína sögu í þeim efnum. Samt er ég ekki viss um að sjávarútvegurinn sé einhuga, kannski kvótagreifarnir en alls ekki allir. Það sem menn óttast er auðvitað að í samningi fengjum við full yfirráð yfir auðlindinni, sem er auðvitað bara í anda auðlindastefnu ESB. Bændur eiga eftir að átta sig á kostum byggðastefnu ESB og það óttast þeir sem nú hagnast á bændum og þeirra fátækt.
Þetta er augljóst.
Augljós er líka andstaða nokkurra gamalla og aflóga stjórnmálamanna við ESB, manna sem nú sinna öðrum störfum og eru bitrir, þreyttir gamlir menn. Hversvegna þeir vilja ræna unga fólkinu framtíðarmöguleikum eða ákvörðunarrétti um eigin mál er erfitt að skilja. En þeir sjást ekki fyrir og það sést á þeim og hefur sést lengi.
Það sem er kannski ekki eins augljóst er hversu hræddir þessir menn eru við þjóðina og hennar afstöðu og niðurstöðu ef samningur lægi á borðinu. Sem ég er sannfærður um að yrði samþykktur, þegar menn færu í alvöru að ræða kostina við aðildina og bera saman við gallana.
En það sem er á döfinni á næstunni er afnám gjaldeyrishaftanna, eða opnun á það. Og hvað gerist við það. Það er næsta víst að það verða dýfur og gengið mun á einhverjum tímapunkti húrra niður og hér verður tugprósenta kjararýrnun. Þetta mun gerast, bara spurning hvernær, hversu mikil dýfan verður og hversu oft verður tekin dýfa.
Hvað þýðir það? Jú sjávarútvegurinn mun hagnast og útflutningsiðnaður annar. En við munum borga. En munum við sætta okkur við það? Nei það sem þessir bitru menn og sérhagsmunaaðallinn veit er að við fyrstu dýfu munu menn fara að horfa til aðildar að Evrópusambandinu, menn munu fara að horfa til annars gjaldmiðils í alvöru, til lægri vaxta, til alvöru húsnæðislána, til stöðugleika, til þess að geta byggt upp þjóðfélagið og sitt eigið líf til einhverrar framtíðar. Menn munu horfa til þess að geta lifað lífinu án þess að vera alltaf að bíða eftir næsta áfalli sem maður sjálfur hefur ekkert vald á.
Og þess vegna vilja menn slíta viðræðunum núna með þessum hætti því þeir vita að til að hefja aðildarviðræður upp á nýtt myndi þurfa að byrja allt upp á nýtt, fá vilyrði 28 þjóðþinga, byrja allt ferlið frá grunni og menn vita að það muni taka mörg ár. Og kannski er ESB ekkert lengur ginnkeypt fyrir stækkun, kannski ekki næstu 5-10 ár, eða 15. Á meðan myndum við lepja dauðann úr skel.
Nema að á meðan gætu sérhagsmunirnir og bitru mennirnir á feitu eftirlaununum geta fitnað enn meira.
Menn óttast ekkert meira en það að þjóðin muni sjálf vilja ganga í ESB. Sá ótti er greinilega svo mikill að menn eru nú tilbúnir í þessi örþrifaráð. En sjást ekki fyrir, þetta þarf að stöðva. Þessa aðför að þingræðinu verður að stöðva. Þessa dæmalausu framgöngu gagnvart augljósum meirihlutavilja þjóðarinnar verður að stöðva. Það er gjá og hún mun stækka.
Svei þessum mönnum. Svei þeim.
- Stjórnarmyndun – hvað nú?! - 07/11/2017
- Tæp stjórnarmyndun! - 05/11/2017
- Sigurvegarar kosninganna – eða ekki! - 29/10/2017