trusted online casino malaysia
Jean-Rémi Chareyre 12/10/2017

Skattaskrattinn hittir ömmu sína

Merkilegt með þessa kosningabaráttu. Menn eru meira og minna sammála um þær áskoranir sem fram undan eru: það þarf að bæta heilbrigðiskerfið, það þarf átak í vegakerfið, það vantar úrbætur í húsnæðismálum, það þarf að hækka hinar og þessar bætur.

En lausnirnar sem flokkarnir boða eru lítið trúverðugar. Að sumu leyti má segja að Bjarni Benediktsson sé hreinskilnastur í þessu: „við skulum ekki gera neitt sem gæti skemmt fyrir uppsveifluna. Það kostar allt svo mikla peninga og það má alls ekki hækka neina skatta. Best að bíða þangað til þetta reddast af sjálfum sér.“

Það er reyndar ekki allskostar hreinskilið, því Bjarni ætlar nefnilega ekki að gera ekki neitt. Hann hefur þegar lofað að lækka skatta fljótlega komist hann aftur til valda. Og þá getur hann sagt aftur: „það eru ekki til peningar“.

Þetta er svo sem ekkert nýtt. Skattalækkanir eru einhvers konar trúarbrögð hjá Sjálfstæðisflokknum. Sumir halda því fram að þessi flokkur sé íhaldssamur. Það er lygi. Þegar kemur að skattalækkunum er Sjálfstæðisflokkurinn róttækur og framsækinn umbótaflokkur.

En það verður að segjast, að lausnir vinstri flokkanna eru lítið skárri. Það eru eiginlega allir sammála um að það eigi alls ekki að hækka skatta á „almenningi“. Samkvæmt formanni Samfylkingarinnar telst til „almennings“ hver sá sem hefur mánaðarlaun undir eina og hálfa milljón. Það er um það bil 99% þjóðarinnar. Formaður VG nefnir enn hærri tölu: 2 milljónir á mánuði.

Sko, krakkar. Þetta er ekki trúverðugt, og það ætlar Bjarni Ben að nýta sér. Í fyrsta lagi er ríkasta prósentið víst líka „almenningur“. Og í öðru lagi, þótt hátekjuskattur sé vissulega mjög gagnlegur til að ná fram meiri jöfnuð, er hann nánast einskis virði sem tekjuöflunartæki. Slíkur skattur var til dæmis settur á árið 2004. Viðmiðunarmörkin voru lægri en þær tölur sem Logi og Katrín nefna, aðeins 350.000 krónur á mánuði, og samt skilaði skatturinn eingöngu 1,3 milljarði króna, rúmt eitt prósent af heildartekjum ríkisins af tekjuskatti og útsvari.

Hófleg hækkun tekjuskatts á „almenningi“ (til viðbótar við hátekjuskatt) getur hins vegar skilað miklum tekjum í ríkiskassann. Sem dæmi má nefna að tekjuskattur var hækkaður um 1,25% árið 2008 og sú hækkun skilaði um 8,5 milljörðum króna. Miðað við þróun launavísitölunnar síðan 2008 mundi sú tala samsvara að minnsta kosti 18 milljarða í dag. Hækkun um 2,5% mundi þá skila 36 milljörðum á ári. Hækkun tekjuskatts er örugglega einfaldasta og skilvirkasta aðferðin til að afla tekna þegar mikið liggur við.

Já, ég veit, við myndum þá græða minna, og grilla minna. En eins og Bjarni Ben hefur bent á, laun hafa hækkað um 30% á síðustu þremur árum. Samkvæmt Hagstofu hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna hækkað um 20% á sama tímabili. Það þýðir að jafnvel þótt tekjuskattur sé hækkaður um 2% erum við þrátt fyrir allt með 17% hærra kaupmátt nú en fyrir þremur árum (hækkun um 1% samsvarar 1,5% lægri ráðstöfunartekjur). Er það svona slæmt?

Ef það er einhver góður tími til að hækka skatta þá er það einmitt núna í góðærinu, þegar við finnum minnst fyrir því.

Samt hefur enginn áhuga á því.

Kannski eru Logi og Katrín að reyna að forðast skattpínarastimpilinn. Ef svo er þá er það fyrirfram töpuð barátta. Áróðursvélarnar eru þegar komnar í gang: formennirnir tveir eru til dæmis komnir í hakkavélina á Facebook-síðunni alræmdri, „Kosningar 2017“. Þar er formaður VG meðal annars kölluð „skattaglaða Kata – skatta Kata“.

Það kemst enginn frá örlögum sínum. Þetta vissi Gunnar á Hlíðarenda þegar hann ákvað að snúa aftur heim: „Fögur er hlíðin“ og allt það. Örlög vinstri flokka er að taka óvinsælar ákvarðanir, vinna skítverkin. Hugrekkið felst í því að taka þessum örlögum fagnandi, en ekki að hlaupast undan þeim.

Til þess verða menn að þora að segja sannleikann. Peningar vaxa ekki á trjánum. Ef ætlunin er að fara í alvöru átak í heilbrigðismálum og viðhald og uppbyggingu innviða, þá verðum við öll að leggja okkar að mörkum til að fjármagna það átak. Það er sjálfsagt að hlífa lægsta tekjuhópnum, en það er fráleitt að halda því fram að 99% þjóðarinnar hafi „ekki efni á því“ að hjálpa til, á meðan kaupmáttur eykst um 7% á ári hverju.

Það má líka alveg minna fólki á, að þótt tekjuskattur væri hækkaður um 2%, þá væri hann þrátt fyrir allt lægri en hann var í tíð Davíðs Oddssonar. Hann væri þá kominn í 39%, en í tíð Davíðs fór tekjuskattur upp í 42% þegar hæst var (1996). Hver er þá mesti skattapínarinn? Ha? Þar hitti skattaskrattinn ömmu sína.

En til þess að segja sannleikann um skatta þurfum við sterka leiðtoga. Leiðtoga sem leggjast ekki niður eins og strá í vindi þegar á móti blæs, eins og Bjarni orðar það.

Ekki einhverjar skattagrenjuskjóður.

Verum stoltir, skattaglaðir vinstri menn, og mætum örlögunum með reisn!

Flokkun : Pistlar
1,851