trusted online casino malaysia
Jean-Rémi Chareyre 09/11/2017

Bókstafstrúarmenn lýðræðisins

„Bókstafstrúarmaður lýðræðisins er í sömu stöðu og Forngrikkirnir voru í með spáprestum sínum. Allir voru sammála um, að rödd spáprestsins væri rödd guðs; en um leið leiddust þeir til að viðurkenna, að þegar spápresturinn talaði, var hann ekki eins skiljanlegur og æskilegt væri.“

Þetta ritaði Henry Maine, breskur sagnfræðingur og lögspekingur, árið 1885. Það hefur lítið breyst síðan þá.

Fyrir kosningar er þjóðaríþrótt að spá fyrir um hver muni vinna kosningarnar. Eftir kosningar er þjóðaríþrótt að spá fyrir um hver hafi í raun og veru verið sigurvegari kosninganna, og hver séu „skilaboð þjóðarinnar“. Allir eru sammála um að „þjóðin hafi talað“, en um leið viðurkenna allir að þegar þjóðin talaði, var hún ekki eins skiljanleg og æskilegt væri.

Margir hafa nú þegar bent á sláandi staðreynd: konum á Alþingi hefur fækkað úr 30 í 24 og eru nú aðeins 38% þingmanna. Verði hægri stjórn BDFM að veruleika verða aðeins 11 af 35 stjórnarliðum konur. Það er aðeins um 30%, ekki beinlínis kvenvæn ríkisstjórn.

En þetta er ekki eina breytingin: á síðasta þingi voru tveir þingmenn af erlendum uppruna: það voru þau Pawel Bartoszek og Nichole Leigh Mosty. Bæði eru dottin af þingi og þar með er enginn fulltrúi hinna Nýju Íslendinga á Alþingi. Það virðast fáir hafa tekið eftir því, en nú er svo komið að 46.000 landsmanna eru af erlendum uppruna, sumir íslenskir ríkisborgarar og aðrir ekki. Það er um 14% þjóðarinnar. Það er gjarnan sagt um innflytjendur að þeir verði að „aðlagast samfélaginu“. En hvernig í ósköpunum eiga þeir að „aðlagast“ ef þeir fá ekki einu sinni að vera með?

Innflytjendur hafa engan málsvara á Alþingi Íslendinga. Hins vegar eru þó nokkrir núverandi þingmenn sem hafa verið að tjá sig um innflytjendur við ýmis tækifæri. Ég ætla ekki að rifja upp þau ummæli. Það er hins vegar ljóst að þau endurspegla ekki þá miklu gestrisni sem Íslendingar státa sig af.

En það eru ekki bara konur og innflytjendur sem töpuðu þessar kosningar. Það er líka þriðji hópurinn: lágtekjufólkið. Um 7% fullvinnandi launamanna eru með tekjur undir 350.000 krónur á mánuði. Það er um 260.000 krónur útborgað. Lágmarkslaun eru í dag 280.000 krónur. Það er 220.000 útborgað, sem er um það bil það sem kostar að leiga 70 fermetra íbúð í Reykjavík. Sumir í hópi öryrkja og eldri borgara eru með enn lægri tekjur.

Hvar eru fulltrúar þessa fólks á Alþingi? Lengi vel voru vinstri flokkar, hér og víðar í álfunni, málsvarar verkamanna, lögfræðingar hinna ófaglærðu. Það var í þá tíð þegar verkamannastéttin var miklu fjölmennari og öflugri. En nú er millistéttin fjölmennust, og það er hún sem ræður ríkjum. Lýðræðinu hættir til að verða að meirihlutaræði: það þjónar fyrst og fremst meirihlutann, og ýtir minnihlutann til hliðar. Núverandi þingmenn vinstri flokkanna eru eintómir fræðingar: háskólamenntað milli- og hátekjufólk, sérfræðingar, vel heppnaðir listamenn. Lágtekjufólkið, ófaglærða stéttin, er munaðarlaus, og í örvæntingu sinni kýs hún lýðskrumara sem bjóða upp á töfralausnir, eða jafnvel milljarðamæring úr Garðabæ, í von um að komast í nokkra brauðmola. Ef hún á annað borð nennir að kjósa.

En hvers vegna er þetta svona? Hverjir eru sökudólgarnir? Það erum við sjálfir. Við erum bókstafstrúarmenn lýðræðisins. Við trúum á æðri guð sem við köllum „vilja þjóðarinnar“. Sá vilji er um það bil jafn ósnertanlegur og heilög kú á Indlandi. Ég held því hins vegar fram, að „vilji þjóðarinnar“ sé hættuleg mýta, pólítísk hjátrú sem við ættum að losa okkur við sem fyrst. Við kjósum alls konar fólk og alls konar flokka, af allskonar ástæðum. En 300.000 greidd atkvæði jafngilda ekki 1 „vilja þjóðarinnar“.

Eða er það „vilji þjóðarinnar“, að konur séu sífellt í minnihluta á Alþingi? Er það „vilji þjóðarinnar“, að innflytjendur og lágtekjufólk fái ekki að vera með?

Kosningar eru tæki sem við fundum upp, til að skera úr um hver skal fá að stjórna. Vegna þess að þegar við reynum að stjórna öll í einu, þá endar það alltaf í blóðbaði. Að því leyti eru kosningar mjög gagnlegar, en þær eru ekki, og verða aldrei, tæki til að mæla sameiginlegan vilja 300.000 manna samfélags. Ef kosningar verða til þess að sumir samfélagshópar komast alltaf til valda, en aðrir aldrei, þá er stjórnkerfið ekki lýðræðislegt, sama hversu oft er kosið.

Lýðræðið snýst um svo miklu meira en kosningar. Það snýst um stofnanir: sjálfstætt dómskerfi, menntakerfi, frjálsir fjölmiðlar, öflug löggæsla, opnar stjórnmálastofnanir. Án þessara stofnanna væri lýðræðið lítið annað en lélegur brandari, og kosningar myndu engu breyta. Hvað á ég við með „opnar stjórnmálastofnanir“? Ég á við stofnanir sem veita öllum aðgang að stjórnmálastarfi. Og þar leika stjórnmálaflokkarnir lyklihlutverki. Þeir eru hliðið að stjórnmálakerfinu. Kosningar og prófkjör eru engin trygging fyrir því, að allir fái rödd á Alþingi. Kosningar koma ekki í veg fyrir því að meirihlutinn valti yfir minnihlutann. Gleymum því ekki að nasistaflokkur Hitlers komst til valda í lýðræðislegum kosningum, en samkvæmt bókstafstrú lýðræðisins voru fjöldamorð nasista afar lýðræðisleg, því þau endurspegluðu jú „vilja þjóðarinnar“,eða hvað?

Þess vegna er mikilvægt að stjórnmálaflokkar sýni metnað í vali sínu á frambjóðendum. Framboðslistar eiga að endurspegla þá fjölbreytni sem einkennir okkar samfélag. Það dugar ekki lengur að bjóða upp á eintóma ríka, hvíta karla, í nafni „lýðræðisins“.

Á síðasta þingi voru tveir stjórnarþingmenn sem beittu sér fyrir úrbætur á útlendingalögum. Hverjir voru það? Pawel Bartoszek og Nichole Leigh Mosty.

Tilviljun? Varla. Við erum nefnilega ófullkomin. Það er sama hverju velmeinandi við erum, það er sama hvað við segjumst vera sanngjörn og jafnréttissinnuð, við erum öll svolítið eigingjörn þegar allt er á botninn hvolft, og við berjumst fyrst og fremst gegn því óréttlæti, sem við höfum upplifað sjálf. Þess vegna er ekki nóg að hafa velmeinandi karla á Alþingi, ef við ætlum að taka kynjajafnrétti alvarlega. Þess vegna er ekki nóg að hafa „umburðarlynda“, innfædda Íslendinga á Alþingi, ef við ætlum að tryggja innflytjendum sanngjarnari meðferð og þátttöku í þjóðlífinu, og þess vegna er ekki nóg að hafa velmeinandi, ofurmenntaða vinstri menn á Alþingi, ef við ætlum að bæta kjör þeirra lægst settu. Svo ég tali nú ekki um fjármálabraskara og aflandsfarfugla á hægri vængnum.

Samkvæmt bókstafstrú lýðræðisins vinnur lýðræðið allar kosningar, því kosningar kalla fram „vilja þjóðarinnar“, og þjóðin hefur alltaf rétt fyrir sér. En ef við gefum þessa hjátrú upp á bátinn þá blasir kaldi veruleikinn við: lýðræðið getur ekki unnið nema allir fái að vera með.

Og lýðræðið tapaði síðustu kosningar.

Flokkun : Pistlar
2,814