trusted online casino malaysia
Jean-Rémi Chareyre 23/10/2017

Hinn helmingurinn af sannleikanum

„The truth is rarely pure and never simple,“ sagði skáld eitt, Oscar Wilde að nafni.

Þetta á ekki síður við í pólitík.

Þeir sem halda því fram að sannleikurinn sé einfaldur fara yfirleitt með hálfsannleik.

Og hálfsannleikur er heil lygi.

Til að afhjúpa lygina er hins vegar nauðsynlegt að grafa upp hinn helminginn af sannleikanum.

Framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins kom eins og frægt er orðið í viðtal í Silfrið og ræddi staðreyndir og „bábiljur“ um ójöfnuð á Íslandi. Ég verð að viðkenna að ég öfunda Halldór Benjámín afskaplega mikið. Ég vildi að sannleikurinn minn væri jafn einfaldur og hans. Lífið yrði miklu einfaldara fyrir vikið.

En sannleikur Halldórs var sem sagt þessi: tekjujöfnuður er mestur á Íslandi af öllum ríkjum OECD og jöfnuður eigna er mestur á Íslandi af öllum Norðurlandaþjóðum. Þessum sannleika til stuðnings vísaði Halldór í tölur OECD og Crédit Suisse í grein sem hann birti í Morgunblaðinu.

Það sem Halldór gleymir að nefna er að það eru þúsund og ein aðferð til að mæla ójöfnuð: það er hægt að bera saman efsta prósentið við neðsta 50%. Svo er hægt að taka efsta 10% frekar, eða efsta 0,1%. Svo er hægt að bera hann saman við neðsta 10%, eða neðsta 50%, eða við miðgildi launa, og svo framvegis. Það er líka hægt að notast við mismunandi stuðla. Þekktastur er Gini-stuðullinn, sem hefur verið nokkuð vinsæll vegna þess hvað hann er einfaldur. En svo eru líka alls konar aðrir stuðlar og alls konar aðrar aðferðir við að mæla ójöfnuð.

Þetta þýðir að það er lítið mál að velja sér þá aðferð sem hentar manni best, pólitískt séð, og komast að þeirri niðurstöðu sem manni er þóknanleg. Sko til, ég get alveg gert eins og Halldór, farið á vefsíðu OECD, valið mér þá mælistiku sem hentar mér (í þessu tilfelli P90/P50), og Hókus Pókus, Ísland er ekki lengur best í heimi í tekjujöfnuði!  Við erum bara á eftir Noreg og á pari við önnur Norðurlönd. Skrambinn!

En Halldór fór aðra leið. Hann notaði Gini-stuðulinn.

Gini-stuðulinn? Æjæ. ég gleymdi að nefna eitt. Það er þetta með Gini-stuðulinn. Smáa letrið sem Halldór gleymdi að lesa.

Hann hefði getað lesið um það m.a. á Wikipediu. Þar er sérkapítuli sem heitir „Limitations og Gini-coefficient“, og þar segir:
„Small sample bias – sparsely populated regions more likely to have low Gini coefficient:
Gini index has a downward-bias for small populations. Countries with small populations and less diverse economies will tend to report small Gini coefficients.“

Á íslensku þýðir þetta að Gini-stuðullinn er gallaður. Hann sýnir sjálfkrafa lægri stuðul fyrir fámenn lönd eða svæði þótt jöfnuðurinn sé sá sami og í fjölmennari löndum. Ekki skrýtið að við séum alltaf best í heimi.
Að bera örþjóð saman við milljónaþjóðir með Gini-stuðlinum að vopni er eins og að bera saman epli og appelsínur. Persónulega er ég meira fyrir appelsínur, en það hefur ekkert með sannleikann að gera.

Hins vegar er Halldór mjög hrifinn af Gini-stuðlinum. Svo mjög að hann notar ekkert annað í greininni sinni. Skemmtileg tilviljun.

Og svo er það ójöfnuður eigna. Þar vill Halldór ekki bera okkur saman við öll OECD-ríki því þá værum ekki lengur best í heimi. Í staðinn erum við „best á Norðurlöndum“ (alla vega samkvæmt Gini-stuðlinum góða).

En hér vantar líka hinn helmingur sannleikans: við Íslendingar erum líka með heimsmet í skattaundanskotum og földum eignum. Ekkert land í heiminum á eins marga fulltrúa í Panamagögnunum og Ísland, miðað við höfðatölu. Sem dæmi má nefna að um 600 Íslendingar koma fyrir í gögnunum, en einungis 200 Norðmenn, sem eru þó yfir fimm milljónir. Þetta þýðir að opinberar tölur um eignaskiptingu á Íslandi eru líklega stórlega gallaðar. Það eina sem við vitum er að við vitum ekki neitt, eins og góður félagi minn sagði eitt sinn, Sókrates að nafni.

Líklegast er jöfnuður hér á landi nokkuð svipaður og í öðrum vestrænum löndum, og kannski jafnvel hærri en á hinum Norðurlöndunum. Við bara vitum það ekki, því tölurnar eru gallaðar. Indriði H Þorláksson fyrrverandi skattstjóri hefur bent á aðra galla sem verða ekki tíundaðir hér.

Annar galli við venjulegar mælingar á ójöfnuði er að þær taka ekki þjónustu hins opinbera með í reikninginn: ójöfnuður skiptir minna máli í löndum þar sem heilbrigðiskerfi, menntakerfi og önnur þjónusta ríkisins er gjaldfrjáls eins og gjarnan er á Norðurlöndum, til dæmis. Ójöfnuður bítur verst, þar sem velferðarkerfið er veikastur. Og velferðarkerfið á Íslandi er ekki nærri eins öflugur og á hinum Norðurlöndunum.

En samanburður við önnur lönd ætti heldur ekki að vera aðalatriðið, heldur ætti spurningin að vera: hversu mikinn jöfnuð viljum við sætta okkur við, og hvers vegna? Ef ég finn illgresi í garðinum mínum, þá verð ég að ákveða hvað ég ætla að gera í því. Og samanburðartölfræði um illgresi í garði nágrannans mun ekki hjálpa mér að svara þeirri spurningu. Nema að ég vilji bara apa eftir nágrannanum. Það ber þó ekki vott um mikið Sjálfstæði í hugsun.

Og Sjálfstæðið er okkar æðri guð, er það ekki?

 

Flokkun : Pistlar
1,360