Sannleikur varamannsins
Í gær, 22. 09., skýrði Sjónvarpið frá því að læknar Landsspítalans verði færðir með skrifstofur sínar í gáma, sem settir verða niður á spítalalóðinni. Þetta kostar tugi miljóna, en er gert til þess að rýma fyrir sjúklingum innan veggja spítalans.
Í gærkveldi voru þrír vitringar og einn að auki saman komnir á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Þeir voru að ræða þjóðmál eins og þeir hafa gert í mörg ár. Einn þeirra er varamaður Vigdísar Hauksdóttur í fjárlaganefnd. Í gær endurtók hann uppáhalds setninguna sína: „Ríkisstjórnin hefur forgangsraðað í þágu sjúkrahúsa.“ Félagar hans tóku undir og brýndu sjálfa sig til þess að halda þessari „staðreynd“ á lofti og boða þjóðinni þennan sannleika. Annars gætu þeir tapað kosningum, sögðu þeir.
Í Morgunblaðinu í dag, 23.09. mátti lesa þetta: „Yfir 5.000 bíða eftir aðgerð. Biðlistar í aðgerðir á Landspítalanum lengjast m.a. vegna fjölgunar aldraðra. Meðalbiðtími í aðgerð um 250 dagar. Vantar bráðaskurðstofu í Fossvogi.“
Gegn þessum staðreyndum talar varamaður framsóknarmaddömunnar og segir: „Ríkisstjórnin hefur forgangsraðað í þágu sjúkrahúsa.“
Í Vísi.is í dag, 23.09. er haft eftir Geir Gunnlaugssyni, landlækni: „Læknaskortur er viðvarandi“. Og síðan segir: „Landlæknir segir læknaskort hér á landi óviðunandi.
„Ríkisstjórnin hefur forgangsraðað í þágu sjúkrahúsa,“ segir varamaður Vigdísar Hauksdóttur í fjárlaganefnd alþingis.
Vísir.is hefur eftir Niels Ch. Nielsson, aðstoðarlækningaforstjóra: „ … læknar fást ekki til starfa hér á landi. … Spítalinn er á 17 stöðum á höfuðborgarsvæðinu í um 100 húsum. Það er verið flækjast með sjúklingana fram og til baka og læknum finnst tími þeirra nýtast illa af þeim sökum.“
„Ríkisstjórnin hefur forgangsraðað í þágu sjúkrahúsa,“ segir varamaður Vigdísar Hauksdóttur í fjárlaganefnd þingsins.
„Eitt af stóru verkefnunum í heilbrigðisþjónustunni er að hlúa að grunnþjónustunni,“ hefur Vísir.is eftir landlækni.
„Ríkisstjórnin hefur forgangsraðað í þágu sjúkrahúsa,“ segir varamaður Vigdísar Hauksdóttur í fjárlaganefnd þingsins.