trusted online casino malaysia
Jean-Rémi Chareyre 21/10/2016

Samfylkingin og Pareto-afturgangan

Já, ég veit. Enn einn beturvitapistill um Samfylkinguna og fylgistap hennar. En þar er svo freistandi að bera í bakkafullan lækinn, og góður spekingur, sem ég met mikils, sagði einu sinni að besta leiðin til að losna við freistingu, væri að falla fyrir henni. Það hefur reynst mér vel.
pareto
En nú verður þetta allt öðruvísi, því höfundur þessa pistils veit ekki bara betur: hann veit best.
Og allir hafa rangt fyrir sér. Nema ég.

Algengasta kenningin til að útskýra slæmt gengi Samfylkingarinnar, að hún sé ekki nógu góður jafnaðarmannaflokkur, og þess vegna takist henni ekki að laða að sér jafnaðarmenn. Nema þegar hægri menn skrifa um hana: dómur þeirra er yfirleitt sá, að Samfylkingin sé alltof mikill jafnaðarmannaflokkur, enda sagði Bjarni Ben að jöfnuður væri allt of mikill á Íslandi, sem hlýtur að þýða að Samfylkingunni hefur tekist andskoti vel til. En það er önnur saga.

Sem sagt: allir draga samfylkingarteppið að sér og þykjast vita hvernig eigi að stoppa í götin, leggja fram langan lista yfir syndir flokksins, benda á misheppnaða núverandi eða fyrrverandi formenn, og svo framvegis. Nú er ég ekki að segja að ekkert af þessu sé réttmæt gagnrýni. En jafnvel þótt svo væri, mundi það ekki útskýra fylgistapið. Og sönnunin liggur í lögmálinu um framboð og eftirspurn.

Lýðræðið virkar eins og frjáls markaður: Þar er framboð og eftirspurn. Flokkar reyna að anna eftirspurn eftir mismunandi pólitík. Ef einhver flokkur stendur sig ekki í stykkinu, þá gerist eitt og bara eitt: samkeppnin sér til þess að nýr sambærilegur flokkur fæðist og nýtir sér tómarúmið. Þetta gerðist t.d. með Sjálfstæðisflokkinn, sem gat ekki annað eftirspurninni eftir evrópusinnuðum hægri-flokk. Það leið ekki á löngu þangað til Viðreisn mætti á völlinn og nýtti sér tómarúmið.
En hvað gerðist með Samfylkingunni? Nú er hún komin niður í 6-7% og hvað gerist? Hvar er samkeppnin? Það bólar ekkert á nýjan jafnaðarmannaflokk. Allir segjast vera jafnaðarmenn, en hvers vegna tekur enginn af skarinu fyrst Samfylkingin er svona ömurleg? Ástæðan getur bara verið ein: það er engin eftirspurn eftir jafnaðarmannaflokki. „Jöfnuður“ er, í hugum manna, orðinn gamaldags plebbaskapur. Hann er dottinn úr tísku. Það eru bara gamlir kommar sem tala um „jöfnuð“. Því nú er góðæri, og jöfnuður á ekki við Pareto-samfélagi.

Hvað á ég við með Pareto-samfélag?
Vilfredo Pareto var ítalskur hagfræðingur. Hann leit svo á að ójöfnuður væri náttúrulögmál sem átti engan veginn að reyna að hrófla við, heldur væri nóg að sjá til þess að 99 prósentin á botninum fengu nóg að borða. Kenningar hans voru í miklu uppáhaldi hjá Mussolini. Pareto er löngu dauður, en andi hans er genginn aftur. Sú skoðun verður sífellt útbreiðari, að ójöfnuður sé aukaatriði svo lengi sem allir hafi það gott (eða alla vega betra en í fyrra). Svo lengi sem launahækkunin skilar sér reglulega, svo lengi sem allir geta keypt sér síðasta æ-fóninn, eða nýjasta Land-Cruiserinn með álfelgum, svo lengi sem vísitölurnar eru grænar á litinn, hinar og þessar bætur hækka, hitt og þetta verður ókeypis eða skattarnir lækka, þá er Pareto góður vinur okkar.

Það eru allir jafnaðarmenn á meðan þeir græða á því, en í góðæri græða allir hvor sem er, svo að jöfnuðinum er vísað á hurðina, því hann spillir gleðinni, og Pareto er hleypt inn í staðinn. Í næsta hruni verður jöfnuðurinn þó líklega ráðinn aftur til starfa, fenginn til að berja potta á Austurvelli og hneykslast að græðgi þeirra sem græddu meira en við. En á meðan er það Pareto-samfélagið.
Þetta hafa Píratar skilið, hvort sem það er meðvitað eða ekki, og forðast yfirleitt umræður um jöfnuð, sverja af sér alla vinstrimennsku til að vera ekki sakaðir um jafnaðarblæti, og gera í staðinn út á gjöfulli miðum: kerfisbreytingum. Sem er vissulega verðugt verkefni, en mun ekki koma í staðinn fyrir félagslegt réttlæti.

Málið er að kenning Paretos er sjálfvirkjandi spádómur: trúi menn á honum þá mun hann rætast. Ef ójöfnuðurinn er talinn sjálfsagður, þá eykst hann óhjákvæmilega. Ójöfnuður er á uppleið á Íslandi og reyndar víða um vestræna heiminn, því Pareto-afturgangan nýtir sér hnattvæðinguna og er alls staðar velkomin, ólíkt flóttamönnum. Árið 1992 átti 1% þjóðarinnar á Íslandi 16% alls auðs. Nú er hlutfallið 21%, þrátt fyrir nýlegt efnahagshrun. Það er svipað hlutfall og var í Bandaríkjunum árið 1976, en þar er hlutfallið nú um 40%. Þar á bæ ganga stjórnmálamenn kaupum og sölum á frjálsum markaði eins og hver önnur söluvara, og lýðræðið er orðið að lélegum farsa. Miðað við þróunina gætum við verið komin í svipaða stöðu eftir 50 ár. Gangi Pírötum vel að koma á „kerfisbreytingum“ við þessar aðstæður.

En það þýðir ekkert að velta sér upp úr sjálfsvorkunn, því staðan í pólítíkinni er nefnilega ekki svo dökk: margir þeirra flokka sem hafa sprottið upp eftir hrunið hafa tekið upp svipuð stefnumál og Samfylkingin (sumir eru greinilega jafnaðarmenn gegn eigin vilja). Og þar sem það eru málefnin sem skipta máli, þá breytir engu hverjir ná umbæturnar í gegn, svo lengi sem þær ná fram að ganga. Það eru því mikil tækifæri framundan, og við þessar aðstæður verða jafnaðarmenn að tileinka sér gamla góða herbragðið: „If you can’t beat them, join them.“

Á meðan verður þó að hlúa að hugsjóninni:
„Allir menn eru fæddir jafnir og skulu vera frjálsir og njóta sömu réttinda. Félagsleg aðgreining má aðeins byggjast á sameiginlegum hagsmunum.“
Þetta er fyrsta grein úr mannréttindayfirlýsingunni sem var samþykkt í Frönsku Byltingunni árið 1789. Þessi hugsjón varð Franskri alþýðu afskaplega verðmæt, á tíma þegar eina prósentið á toppnum hafði sölsað undir sig öll forréttindi og skáldað alls konar fallegar sögur til að réttlæta gjörninginn. Sögurnar hafa breyst en eina prósentið er enn til staðar.

Einu sinni þótti þessi hugsjón byltingarkennd. Ekki lengur. En við skulum leggja hana á minnið, því hún er eina vopnið til að ráða niðurlögum Pareto-afturgöngunnar:
„Félagsleg aðgreining [lesist: ójöfnuður] má aðeins byggjast á sameiginlegum hagsmunum.“

Flokkun : Pistlar
1,440