trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 02/12/2016

Jean-Rémi: Í samkeppni um vondar hugmyndir er óþarfi að leggjast svona lágt. Gísli á Uppsölum á líka að fá að kjósa

Jean-Rémi Chareyre, Frakki og meintur Íslendingur, hefur skrifað í Herðubreið tvær merkilegar og upplýsandi greinar sem birta talsvert aðra mynd af upplifun útlendinga hér en almennt gerist í fréttum.jean-remi-chareyre

Hin fyrri er hrein skemmtilesning og lýsir reynslu hans af íslenskuprófi sem hann var látinn þreyta af því að hann vill verða íslenskur ríkisborgari. Nýjum Íslendingum var í prófinu uppálagt hlusta á texta úr vél – lifandi upplestur var ekki talinn vænlegur – til að kanna skilning þeirra á málinu:

„Nú byrjaði ballið. Textinn sem heyrðist síðan seytla úr hátölurunum var hins vegar afar slakur skáldskapur. Halldór Laxness hefði snúið sér í gröfinni. En textinn var að minnsta kosti skiljanlegur.“

Og síðar:

„Ég var nú farinn að dást að höfundi prófgagnanna. Slíkur skortur á ímyndunarafli er nefnilega ekki svo algengur.“

Seinni greinin hefur hins vegar mjög alvarlegan undirtón, þar sem Jean-Rémi veltir fyrir sér hvernig við tökum á móti fólki frá öðrum löndum. Hann sé forréttindapési sem naut skólagöngu og eigi auðvelt með að læra tungumál, en hvað með alla hina, sem áttu ekki kost á slíku vegna aðstæðna í heimalandinu?

Með ríkisborgararétti fylgi til dæmis rétturinn til að kjósa:

„Það er nefnilega þannig, að þeim sem fella á prófinu er neitað um ríkisborgararétt, og um leið um kosningarétt, og það vil ég meina að sé í fullkominni andstæðu við gildin sem við kennum okkur við og köllum „lýðræði“ á hátíðisdögum. […]

Það getur vel verið að þeir sem aðhyllast slíkum prófum meini bara vel og hafi ekki ætlað að nota prófið sem afsökun fyrir útskúfun, en það breytir ekki niðurstöðuna: afleiðingin af slíkum prófum hefur alltaf verið og verður alltaf sú, að borgurum úr lægri stéttum samfélagsins, sem eru gjarnan minna menntaðir, er meint um kosningarétt. Og þess vegna fela slík próf alltaf í sér mismunun, alveg sama hvort um innfædda eða innflytjendur er að ræða.

Þetta vitum við innst inni. Við vitum til dæmis vel, að sumir unglingar koma út úr grunnskóla nánast ólæsir. Hverjum mundi detta í hug að neita þeim um kosningarétt? Hverjum mundi detta í hug að stinga upp á „borgarapróf“ þar sem menningarleg og söguleg þekking innfæddra væri könnuð til að ákveða hverjir „áttu skilið“ að hafa kosningarétt? […]

Hver þjoðfélagsþegn á að hafa rétt á því að segja sína skoðun um þau lög sem hann þarf að hlýða, og að þetta grunnréttindi á að vera óskilyrt og óháð menntun, hæfileikum eða bakgrunni. Sama hversu fáfróður maður er, sama hversu einangraður maður er. Gísli á Uppsölum á líka að fá að kjósa.

Hvað með þá sem hafa ekki einu sinni komist í gegnum grunnskóla vegna þess að þeir þurftu að vinna til að halda uppi fjölskylduna, og eru varla læsir í sínu eigin móðurmáli? Það er nefnilega ekki lítið mál fyrir slíkt fólk að læra að skrifa þó það sé ekki nema eina setningu á íslensku. […]

Ætlum við í alvöru að niðurlægja þá með því að neita þeim um ríkisborgararétt, sem gæti þó gefið þeim tilefni til stolts? Ætlum við að rifsa af þeim kosningaréttinn, og neita þeim þannig um rödd á hinu pólitíska sviði, vegna þess að þau „eiga hana ekki skilið“?

Ég veit að samkeppnin um vondar hugmyndir er afar hörð þessa dagana, en það er alveg óþarfi að leggjast svona lágt.“

Fyrri grein Jean-Rémis má lesa í heild sinni hér, hina seinni hérna.

1,389