trusted online casino malaysia
Jean-Rémi Chareyre 28/11/2016

Dagur í lífi nýbúa

 

Dagurinn í dag var svolítið sérstakur hjá mér. Hann byrjaði á því að ég mætti klukkan níu fyrir utan Mímir Símenntun, Höfðabakka 9. Þar átti ég nefnilega að taka íslenskupróf, sem átti að vera fyrsta skrefið í því ferli sem kallast „umsókn um ríkisborgararétt“.mimir1

Við vorum um það bil þrjátíu nýbúar, alls staðar að úr heiminum, að bíða þar fyrir utan prófstofuna. Reyndar ekki svo „nýjir“ búar: sjö ára búseta í landinu er lágmarkstímabilið til að geta sótt um ríkisborgararétt. Eftir smá bið (til viðbótar við sjö árin) var okkur hleypt inn í stofuna. Þar biðu okkur umslög með prófgögnin. Prófið skiptist í þrennt: skilningur, ritun og munnlegt próf. Fyrst áttum við að hlusta á einhvern texta og svara krossaspurningum til að sýna að við höfðum skilið textann. Einn, tveir og byrja…

Nema hvað, við gátum ekki byrjað. Diskurinn var eitthvað bilaður, nú eða tölvan. Veit ekki alveg hvort. Þá kom smá kvíði í umsjónarmönnum prófsins – þrjár miðaldra íslenskar konur – en við hin vorum bara sulturóleg. Ein konan stakk upp á því að lesa bara textann sjálf, svona „live“, en hinni konunni leist hins vegar ekkert á það. Lesturinn yrði að vera vélrænn. Svoleiðis átti það bara að vera.

Þá var sóttur annar diskur, en það gékk ekki. Það var eitthvað fiktað í tölvunni, en það gékk ekki heldur. Að lokum var tæknimaðurinn sóttur, og það gékk víst. Nú byrjaði ballið. Textinn sem heyrðist síðan seytla úr hátölurunum var hins vegar afar slakur skáldskapur. Halldór Laxness hefði snúið sér í gröfinni. En textinn var að minnsta kosti skiljanlegur.

Síðan áttum við að skrifa nokkrar línur. Umsjónarkonan tók það þó fram, að textinn þurfti ekki að vera málfræðilega réttur. Aðalatriðið var að hann væri skiljanlegur. Þessu var fagnað af mikilli einlægni, þótt flestir héldu gleðina fyrir sig. Annað hefði verið óviðeigandi við svo örlagaríkar aðstæður.

Þegar ég hafði lokið við listaverkinu skilaði ég blöðunum, og mér var bent á að bíða framí eftir að komast í munnlega prófið. Þar beið ég um það bil fimm mínútur (mig munaði ekki um það eftir sjö ár). Síðan var ég leiddur inn í stofu þar sem ég var yfirheyrður af prófdómara og samtalið tekið upp:

„Geturðu lýst því sem þú sérð á þessum myndum?“

Á fyrstu myndinni sást fjögurra manna fjölskylda sem sat í sófa. Allir hressir og kátir. Pabbinn var að lesa í bók fyrir fjölskylduna. Svo kom næsta mynd: fjögurra manna fjölskylda á ströndinni, allir brosandi. Næsta mynd: fjögurra manna fjölskylda að grilla í garðinum, sól og blíða, ást og friður. Fjórða myndin: fjögurra manna fjölskylda sem var nýbúin að ljúka við snjókarl. Allir skælbrosandi að sjálfsögðu.

Ég var nú farinn að dást að höfundi prófgagnanna. Slíkur skortur á ímyndunarafli er nefnilega ekki svo algengur. Eða ætli það hafi verið einhver sérstök skilaboð falin inn í þessu? Að við nýbúar ættum að brosa og varast því að eignast fleiri en tvö börn? Sagan fylgdi ekki með.

Eftir þessa skemmtilegu myndasýningu var ég leiddur inn í annars konar samræður:

„Geturðu sagt mér hvað þú gerir á frídögum þínum? Þú mátt alveg ljúga því, það skiptir í raun ekki máli hvort þú segir satt eða ekki.“

Var þetta gildra? Var búið að koma lygaskynjara fyrir undir borðið? Það hefði vissulega verið freistandi að skálda upp eitthvað skemmtilegt: að ég noti frídaga mína til að smíða geimfar og væri að skipuleggja ferð til tunglsins. En þar sem mig skorti sannfæringu til að ljúga af fullri einlægni, ákvað ég frekar að segja blákalt satt. Ég sagði henni frá öllu því ómerkilega sem ég geri á frídögum mínum, og þannig lauk prófinu.

Eftir þrjár vikur fæ ég niðurstöður úr prófinu. Þá kemur í ljós hvort ég hefði frekar átt að hagræða sannleikanum. En nú lýkur sögunni um íslenskuprófið. Ég hafði reyndar ætlað að skrifa eitthvað óskaplega pólitískt um þennan atburð, en umræðan fór einhvern veginn út um þúfur, og er ég ekki frá því að það hafi verið lesandanum að kenna. Ég ætla því að geyma hinar pólitísku vangaveltur fyrir næsta pistilinn, sem verður – þó ég segi sjálfur frá – uppfullur af lygilegri ósvífni.

Flokkun : Pistlar
1,546