trusted online casino malaysia
Jean-Rémi Chareyre 16/10/2016

Píratar og málamiðlanir

Það er frábært að læra af „reynslu annarra“. Íslendingar eru mjög meðvitaðir um eigin smæð og duglegir að fylgjast með því hvað gerist í nágrannalöndum og læra af því. Það er mjög jákvætt.
Hins vegar breytist sú viðleitni stundum í minnimáttarkennd, og það sem menn kalla „læra af reynslu annara“ reynist frekar vera að „herma eftir ósiðum annarra“.

Síðasta útspil Pírata lítur svolítið þannig út. Píratar útiloka stjórn með gömlu hægri flokkunum. Rökin eru þau, að kjósendur eigi að vita hvað þeir kjósa og að það gangi ekki að flokkar „þynni út“ stefnu sína eftir kosningar og sviki kosningaloforð eins og gerðist síðast með „pólítíska ómöguleikan“ margfræga. Önnur rök eru þau, að Bjarni Benediktsson hafi talað gegn kerfisbreytingum og því sé ómögulegt að starfa með Sjálfstæðisflokknum. Þá hafa ýmsir bent á það að hefðin í öðrum Norðurlöndum sé öðruvísi, að þar fari vinstri og hægri flokkar ekki saman í stjórnarsamstarf, og að það komi í veg fyrir loforðasvik.
Því miður sýnist mér margt benda til þess að þessi rök haldi ekki.

Í fyrsta lagi er það tal Bjarna Ben gegn kerfisbreytingum: Píratar ættu að vita manna best, eins og reyndar þjóðin öll, að það er ekkert að marka hvað Bjarni Ben segir, hann skiptir um skoðun eins og um sokkar. Ef Sjálfstæðisflokkurinn þarf að samþykkja einhverjar kerfisbreytingar til að komast í stjórn, þá gerir hann það bara, enda þykir Sjálfstæðismönnum fátt verra en að komast ekki í ríkisstjórn. Það eykur líkurnar á hjartakvillum hjá þeim.
Í öðru lagi eru það kosningasvikin: nú virðast Píratar vera að rugla saman málamiðlanir og loforðasvik. Pólítíski ómöguleikinn margfrægi var nefnilega ekki málamiðlun: báðir stjórnarflokkarnir lofuðu þjóðaratkvægreiðslu fyrir kosningar, það var því engin þörf fyrir málamiðlun. Gjörningurinn var þess vegna hrein og bein svik, og alveg óþarfi að skafa utan af því.

Sé hugmynd Pírata hins vegar að takmarka málamiðlanir í íslenskri pólitík, þá mun það heldur ekki virka: ef Sjálfstæðisflokkurinn fær góða kosningu, þá neyðist einhver(jir) hinna flokkana að fara í stjórn með honum og gera einhverjar málamiðlanir. Ef það verður ekki Píratar þá verður það bara einhver annar. Hreinar hægri eða vinstri stjórnir þýða ekki endilega færri málamiðlanir heldur: eru menn búnir að gleyma hvernig VG-liðar voru sakaðir um svik í ESB málinu, þrátt fyrir hreina vinstri stjórn, eða hvernig Framsóknarfokkurinn sveik stóra kosningaloforðið um afnám verðtryggingar, þrátt fyrir hreina hægri stjórn?

Í síðasta lagi, og kannski mikilvægast af öllu, finnst mér þetta útspil Pírata ganga þvert gegn þeim gildum sem þeir segjast standa fyrir: nefnilega að málefnin eigi að ráða, en ekki flokkspólitík, og að vinstri/hægri skotgrafarhernaður sé einhver gamaldags ósiður sem beri að útrýma. Mér finnst einmitt kostur við íslenska pólitík, að þótt vinstri og hægri séu vissulega til, þá er illgirnin ekki svo mikil, að flokkar útiloki fyrirfram að starfa við flokkana hinum megin við miðjuna. Slíkt fyrirkomulag gæti beinlínis verið skaðlegt fyrir vinstri flokkar á Íslandi, þar sem vinstrið hér hefur alltaf verið veikari en hægrið: það gæti leitt til þess að vinstri flokkarnir komist einfaldlega aldrei í ríkisstjórn.

En kannski vita Píratar þetta allt saman. Kannski var þetta útspil bara brella til að ná í smá fylgi. Þetta er þó hættulegur leikur: hægri flokkarnir munu nota tækifærið til að stimpla Pírata sem „vinstri flokk“ og það er varla til verra skammaryrði á Íslandi en að vera kallað „vinstra lið“ (nema kannski fyrir utan „jafnaðarmann“).
Að þessu sögðu er það vissulega góð hugmynd hjá Pírötum að efna til samstarfs stjórnarandstöðuflokkana. Þeir flokkar eiga margt sameiginlegt og gætu náð fram mikilvægar breytingar, ef þeim tækist að leggja til hliðar alla pólítísku bókstafstrúna, og losna við þá fáránlegu hugmynd, að málamiðlanir séu svik við kjósendur.
Og að grasið sé eitthvað grænna hinum megin við girðinguna.

Flokkun : Pistlar
1,289