trusted online casino malaysia
Ritstjórn 27/03/2014

Palladómur: Andlit atvinnulífsfélagsfræðinnar – eða: frá Benidorm til Kasakstan

Sé fræðigreinin atvinnulífsfélagsfræði gúggluð dúkka ekki upp ýkja margar síður. Þær eru eiginlega frekar fáar. Svo allrar nákvæmni sé gætt eru þær 154.

Til samanburðar má geta þess að leitarorðið hundasálfræði skilar 417 niðurstöðum en snákaolíusölumaður aðeins 31.

Atvinnulífsfélagsfræði er sumsé einhverstaðar mitt á milli snákaolíusölumennsku og hundasálfræði hvað vinsældir varðar.

Það sem vekur kannski einna mesta athygli er að í 75 prósentum tilvika er leitarorðið atvinnulífsfélagsfræði tengt einum ákveðnum einstaklingi sem stundaði nám á þessu sviði við Háskóla Íslands.

Það er reyndar ekki alveg á hreinu hvort þessi fánaberi atvinnulífsfélagsfræðinnar lauk nokkurntíma prófi í þessu fagi, sem nafn hans er tengt svo órjúfanlegum böndum, og ekki heldur hversu lengi hann stundaði téð nám. Semsagt í atvinnulífsfélagsfræði.Palladómur-GunnarBragi

Aukþess er frekar erfitt að átta sig á því hvenær hann stundaði þetta nám, því samkvæmt ferilsskrá mannsins hefur hann verið mjög upptekinn við allskyns sýsl frá því að hann lauk stúdentsprófi 1989. Það má eiginlega segja að hann hafi verið upptekinn við að praktísera atvinnulífsfélagsfræði.

Eða hvað er hægt að segja annað um þennan atvinnulífsferil Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra?

Verslunarstjóri Ábæjar 1989-1990. Verkamaður og gæslumaður í Steinullarverksmiðjunni 1989-1991. Ritstjóri héraðsfréttablaðsins Einherja 1991-1992. Verslunarstjóri Ábæjar 1991-1995. Sölu- og verslunarstjóri hjá Skeljungi hf. 1996-1997. Aðstoðarmaður félagsmálaráðherra 1997-1999. Markaðsráðgjafi hjá Íslensku auglýsingastofunni 1999. Starfaði á verslunarsviði Kaupfélags Skagfirðinga 2000-2002. Framkvæmdastjóri Ábæjar 2002-2003. Framkvæmdastjóri Ábæjar-veitinga ehf. 2004-2007.

Í stjórn Húsnæðissamvinnufélags Skagafjarðar og í stjórn Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalags Íslands, 1998-2000. Formaður stjórnar varasjóðs viðbótarlána 1998-2002, varaformaður frá 2002. Formaður Félags ungra framsóknarmanna í Skagafirði. Varaformaður kjördæmissambands Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi vestra. Varaforseti sveitarstjórnar Skagafjarðar frá 2006. Formaður byggðaráðs Skagafjarðar frá 2006. Varaformaður atvinnu- og ferðamálanefndar Skagafjarðar frá 2006. Formaður Gagnaveitu Skagafjarðar frá 2006. Formaður stjórnar Norðurár bs. sorpsamlags frá 2006. Formaður stjórnar Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra frá 2006. Í stjórn Hátækniseturs Íslands ses. frá 2007. Í menningarráði Norðurlands vestra frá 2008.  

Námsferillinn er hinsvegar afgreiddur svona:

Stúdentspróf FNV á Sauðárkróki 1989. Nám í atvinnulífsfélagsfræði HÍ.

Þetta eru ekki mjög ítarlegar upplýsingar, en þó má draga þá ályktun að hann hafi varla verið skráður í atvinnulífsfélagsfræði fyrr en eftir árið 1989.

Kannski var þetta einhvernveginn svona (einhverstaðar í Skagafirði eftir 1989):

Mamma: Gunnar minn, ættir þú ekki að skella þér í eitthvað nám fyrir sunnan?

Gunnar: Jújú, ha? Sunnan? Ertu ekki að tala um Hóla?

Mamma: Nei kúturinn minn! Í Háskólanum. Í höfuðstaðnum.

(Þögn)

Gunnar: Meinarðu, á ég að fara útfyrir Skagafjörð?

Mamma: Auðvitað, þú þarft nú að fara að hleypa heimdraganum og skoða veröldina í kringum þig.

Gunnar: Ókei. Hvað ætti ég að læra mamma mín? Dönsku? Ég gæti þá einhverntíma farið til Kaupinhafnar og keypt mér Napóleonsköku. Manstu, eins og Nonni? (Sleikir út um.)

Mamma: Bíddu, ég ætla að opna námsskrá Háskólans (slær sér á lær). Nei, nú duttum við í lukkupottinn! Hvað heldurðu að sé fyrsta námsgreinin sem ég fletti uppá? Atvinnulífsfélagsfræði! Það er rakið dæmi fyrir atvinnulífsfélagsmálabangsa eins og þig.

Gunnar: Satt segirðu mamma mín en… hver á þá að klippa mig?

Mamma: Þú kemur nú norður um helgar og ég klippi þig eins og ég hef alltaf gert.

Gunnar hefur svo komist að því að það væri lítið á atvinnulífsfélagsfræðinni að græða, hann myndi græða meira á að vera t.d. framkvæmdastjóri og svo hefur hann hætt. En fyrir sérviskulega duttlunga örlaganna orðið tákngervingur atvinnulífsfélagsfræði á Íslandi. Ef eitthvert mark er takandi á gúggli.

Eða kannski var þetta allsekki svona heldur allt öðruvísi. Enda skiptir það engu máli. Akademísk menntun segir ekki allt. Væntanlega er það líka þannig að mun fleiri hafa samúð og skilning með þeim sem hætta í atvinnulífsfélagsfræði en þeim sem klára hana.

Hvað sem meintum menntunarskorti líður hefur Gunnar Bragi nú komist til æðstu metorða. Utanríkisráðherrar eru gjarnan allra ráðherra kúlastir.

Allir vita, einsog Davíð segir, að Gunnar Bragi er hinn mætasti maður, en hvernig skyldi það hafa komið til tals að hann tæki að sér einmitt þetta embætti?

Kannski var það einhvernveginn svona:

Sigmundur Davíð: „Gunnar… sko, við Bjarni erum að velta fyrir okkur ráðherraskipan og erum komnir í smávandræði með utanríkis. Hérna… varst þú ekki örugglega í dönsku í Háskólanum?“

Gunnar: „Nja, ekki beint. Ég spurði mömmu einusinni hvort ég ætti kannski að skrá mig í dönsku… Finnst þér að ég eigi að setja það í sívíið? „Velti fyrir sér námi í dönsku við einn af 300 bestu háskólum í heimi?“

Sigmundur Davíð: „Nei, það borgar sig ekki að taka neina sénsa með námsferil í ferilskránni. Þessi helvítis menntasnobbelíta hellir sér bara yfir þig einsog mávager yfir andarungahræ. Og svo var hann það ekki á þessum tíma.“

Gunnar: „Hver?“

Sigmundur Davíð: „Háskóli Íslands.“

Gunnar: „Var hann ekki hvað?“

Sigmundur Davíð: „Nú, einn af 300 bestu háskólum í heimi.“

Gunnar: „Þú meinar…“

Sigmundur Davíð: „Býttar engu. En þú varst í HÍ, var það ekki?“

Gunnar: „Jújú seisei, ég var skráður í atvinnulífsfélagsfræði!“

Sigmundur Davíð: „Atvinnulífsfél…? Whatever, það er flott maður. Þú verður utanríkis.“

Eða kannski var þetta allsekki svona heldur einhvernveginn allt öðruvísi.

En nú hefur utanríkisráðherra komið til útlanda í krafti embættisins. Þá ferð fór hann til Brussels, nafla hins forheimskandi lastabælis Evrópusambandsins.

Hann fór þangað með tvö hrútshorn að tala með við útvíkkunarstjóra sambands sem er svo illa haldið af grindargliðnun að kannski væri best fyrir það að hafa sig hægt í bili.

Gunnar Bragi var ákveðinn, fáorður en skýr. Eða þannig.

Líklega er samt engum manni á Íslandi hollara að verða utanríkisráðherra en einmitt Gunnari Braga Sveinssyni. Það er ekki vegna þess að hann getur ekki sagt Kasakstan eða vegna þess að hann heldur að það sé rússneska og ekki heldur vegna þess að hann myndi fara beint til Benidorm ef hann gæti hoppað uppí flugvél núna.

Komum að því á eftir. Fyrst þarf að ræða þetta með Benidorm.

Sko.

Það er ekki að það sé ekki ágætt að hafa utanríkisráðherra sem er svo mikill bolur að hann sjái Benidorm fyrir sér sem besta stað veraldar. Málið er að Benidorm er ekki staður í landfræðilegri merkingu þess orðs. Hvað hann er hefur ekkert með staðsetninguna að gera.

Hann er safn af fólki, allstaðar að, í fríi. Í tiltekinni tegund af orlofi sem felur í sér að þú getur drukkið, sofið og étið í góðum yl. Benidorm er ekki ákvörðunarstaður. Benidorm er líkamsástand. Ekki svo ýkja fjarskylt sögninni að dorma.

Sá sem vill fara til Benidorm er með því að segja, að meðaltali, að hann vilji hafa þrjá bjóra í maganum; vera á sandölum og í ermalausum bol. Ekkert að því, Gunnar Bragi. Þú varst þreyttur og vildir komast í Benidorm.

Allir vita (traust að geta vitnað tvisvar í Davíð): Allir vita hinsvegar að þegar kemur að þessari tegund orlofs þá eru margir staðir í veröldinni sem skara langt, langt, langt framúr Benidorm. Tildæmis má nefna Maldív-eyjar í Indlandshafi, nú Hawaií í Kyrrahafinu, Tæland þykir flott, eins Miami í Flórída, Mexíkó á sína staði, meira að segja Kúba hefur Varaderó.

Eini gallinn við þessa staði er að það er svolítið erfitt að ímynda sér Gunnar Braga Sveinsson á þeim.

Maður þarf bara að vita að fleiri staðir eru til og að Benidorm er aftarlega á löngum lista yfir sólarstrendur þar sem hægt er að vera meira og minna mildur allan daginn.

Ástæðan fyrir því að það er gott fyrir hann að vera utanríkisráðherra er meðal annars allt þetta vandaða fólk sem hann vinnur með. Flottustu sérfræðingarnir okkar, bestu diplómatarnir, öflugustu og reyndustu embættismennirnir. Þeir eru flestir í utanríkisráðuneytinu.

Uppáhaldsmálsháttur Gunnars Braga er svona: Oft lætur bensínafgreiðslumaður dæluna ganga.

Embættismönnunum í utanríkisráðuneytinu finnst þetta ekki fyndið. Hann mun þurfa að uppfæra kímnina og hann mun hitta stjórnmálamenn sem skilja ekki hina beinu þýðingu: Often the gasman makes the pump walk. Af þeim mun hann læra að vera hnyttinn og hann getur kannski stolið af þeim einni eða tveimur góðum sögum.

Athugið að hér er ekki verið að gera því skóna að það sé á einhvern hátt óviðurkvæmilegt að bensínafgreiðslumaður á Sauðárkróki geti á fjórum árum orðið utanríkisráðherra.

Það er ekkert því. Það er meira segja svolítið fallegt. Auk þess var Gunnar Bragi ekki bensínafgreiðslumaður. Hann var pulsusali. Það sama á við þar.

Svo er það þetta með hann Bill Shankly.

Sjáiði: Gunnar Bragi var spurður í Benidorm-viðtalinu hver væri mikilvægasta persóna 20. aldarinar. Hann svaraði því til að það væri engin ein persóna, en að Bill Shankly hefði verið magnaður. Bill Shankly var sumsé framkvæmdastjóri Liverpool frá 1959 til 1974.

Einhvernveginn svona gæti fyrirsögnin hljómað á Liverpool FC News:

„Iceland´s foreign minister says Shankly most important in 20th century.“

Sem Bill Shankly er auðvitað fyrir aðdáendur Liverpool sem fylgjast ekki með neinu öðru en fréttum um gengi liðsins og vita ekkert um það sem gerðist á síðustu öld.

En nei.

Bill Shankly er hvergi nærri því að vera einn af mikilvægustu mönnum síðustu aldar. Það er ekki boðleg skoðun. Það þarf ekkert að ræða það. Og það væri afar vont fyrir orðspor Íslands ef þetta fréttist.

Það er erfitt að ímynda sér hvernig einhverjum geti fundist þetta svar í lagi.

Maður getur hinsvegar séð þetta samtal fyrir sér yfir sjoppuborðið á Sauðárkróki  vorið 2009. Alræmdur kjaftaskur er mættur til að fá sér pulsu í hádeginu. Þið þekkið týpuna, það er einn í hverjum bæ:

Kjaftaskur: „Hvernig greiðirðu þér maður, seturðu fingurinn beint í innstunguna um leið og þú stígur útúr sturtunni?“

Hann blikkar til samstarfsmannanna úr áhaldahúsinu. Þetta ætti að koma pulsusalanum í gang. Þeir hlæja.

Pulsusali: „Það er aldeilis uppi á þér typpið í dag. Lætur dæluna ganga eins og bensínafgreiðslumaður.“ Kinkar kolli til samferðarmanna kjaftasksins. Þeir líta undan.

Kjaftaskur: „Heyrðu, náði hann Don í þig?“

Pulsusali: „Don hver? Hvaða húmor er þetta?“

Kjaftaskur: „Don King, hann vill fá hárið sitt aftur!“

Hlátrasköll í sjoppunni.

Pulsusali (reiðilega): „Don King er ekki nema helmingurinn af því sem Bill Shankly var, það ættir þú nú að vita.“

Kjaftaskur: „Shankly! Hvað kemur hann þessu máli við? Kannski ertu kominn með drep í heilann af því að hárstrýið þitt vex jafnlangt inn og út, hefurðu látið kanna það? Hvað er að frétta af þessu hári maður, má ég koma við þetta? Þetta er eins og strákústur. Láttu mig hafa aðra með öllu, félagi, og rólegur með laukinn og vertu nú ekki svona uppskrúfaður. Djísus maður, þetta er einsog að klappa broddgelti.“

Pulsusalinn gleðst yfir sölunni: „Svo sannarlega, minn kæri. En ég skal segja þér: Bill Shankly, hann var einn mikilvægasti maður síðustu aldar.“ Samtalið fjarar út.

Fjögur ár líða og okkar maður er orðinn utanríkisráðherra.

Uppákoman þegar Gunnar Bragi rétti Eygló Harðardóttur miða í miðri ræðu hennar um stjórnarráðið á síðasta kjörtímabili sagði svo mikið. Svipurinn sem kom á Eygló sagði allt.

Og það að hvorugt þeirra hefur sagt opinberlega frá því hvað á honum stóð segir enn meira. Gúgglið: Hvað stóð á miðanum sem gerði þingkonu Framsóknar kjaftstopp?

Ef það er yfirleitt eitthvað að marka þetta gúggl.

Gunnar Bragi Sveinsson er sumsé svolítill durtur þótt það geti verið ágætt í honum hjartað.

Ferðalög á framandi staði gera okkur betri. Auka víðsýni, skilning og umburðarlyndi. Kenna okkur misjafn er siður í hverju landi. Mannasiðir eru margvíslegir.

Utanríkisráðherra ferðast mikið og Gunnar Bragi Sveinsson hefur verið langdvölum á Sauðárkróki. Það er engum hollt til lengdar. Hann þarf virkilega á þessu að halda.

Vegurinn milli Benidorm og Kakastan er að baki. Nú tekur við langt og strangt ferðalag útí óvissuna. Mikið lærdómsferli er hafið. Það eru lönd þarna úti með mun flóknari og lengri nöfn en Kakstatan.

Hann verður breyttur maður eftir fjögur ár, ef stjórnin heldur. Vonandi.

Spurningin er frekar hvort þetta mannbætandi námskeið sé ekki soldið dýru verði keypt fyrir þjóðina.

Hér er samt hallast að því að það sé þess ávallt þess virði að bjarga einni sál frá því að hafa Benidorm og Bill Shankly á hraðbergi.

Veröldin verður betri á eftir.

1,303