trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 17/10/2014

Ómeðvita

 

Forsætisráðherra fór á NATÓ-fund til Wales. Þórunn Egilsdóttir, alþingsmaður Framsóknarflokksins og formaður Íslandsdeildar NATÓ-þingsins hefur líklega farið með honum því að hún skrifar grein um fundinn í Fréttablaðið miðvikudaginn 15. október síðast liðinn. Hvorugt þeirra virðist hafa haft tíma til þess að lesa fjárlögin áður en þau fóru í ferðina því að þingkonan skrifar, og hefur formann sinn fyrir því, að það eigi að auka fé til Landhelgisgæslunnar, þvert á það sem segir í fjárlögunum. Og betra að satt væri og eykur á forvitni að fylgjast með atkvæðagreiðslu á lögunum. Fyrir 50 árum tóku fjögur til fimm varðskip þátt í að verja landhelgina og sinna björgunarstörfum við landið. Þá var landhelgin 12 mílur. Nú er hún 200 mílur og eitt varðskip á sjó og ef bráða hættu ber að höndum þarf að kalla menn úr fríum til þess að manna annað skip.

Bátar í höfn

En þetta voru ekki einu tíðindin í grein framsóknarkonunnar.  Þar er þessa setningu að sjá og lesa: „Því hefur frá upphafi ríkt þverpólitísk samstaða um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, þó ekki hafi aðildin verið óumdeild.“

Nú vita flest allir sem komnir eru til vits og ára, aðrir en formaður Íslandsdeildar NATÓ-þingsins, að aðild Íslands að NATÓ hefur verið eitt heitasta átakamál lýðveldissögunnar. Og er enn. Vegna þessarar fullyrðingar langar mig að biðja þingkonuna að semja stutta grein, rökstyðja mál sitt og draga fram heimildir því til stuðnings.  Ef þetta er hins vegar ómeðvituð tilraun til þess að falsa söguna, sprottin af  vanþekkingu, er ekkert meira um það að segja. Að sinni.

Úlfar Þormóðsson
Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Pistlar
3,175