Öfugi dagurinn
Málkunningi minn sagði mér nokkuð af sér. Í frásögninni gæti reynst heillaráð til þeirra sem lifa í marþættum ömurleika. Því læt ég hana ganga áfram.
Maður þessi er nokkuð við aldur, íhaldsmaður af gamla skólanum, maður sem telur handsal jafngilda undirrituðum og vottuðum samningum. Ég rakst á hann á Austurvelli í síðustu viku þar sem hann sat á bekk með bakið í þinghúsið og fætur út undan bakfjölunum. Hann brosti og bauð mér sæti. Ég settist, þagði og horfði einbeittur á Dómkirkjuna á meðan ég var að velta því fyrir mér hvernig ég ætti að hefja samræður við hann því að frómt frá sagt hélt ég að hann væri orðinn galinn. Mér hafði ekki dottið neitt í hug annað en það blæs, hvernig líður þér eða eitthvað ámóta máttlítið þegar hann spurði: „Hvað fær þig til að gleyma leiðindum?“
Kannski var það vegna þess að ég var með augun á kirkjunni sem ég svaraði án umhugsunar, að karlmaður í svörtum poka og með trúðskraga um hálsinn vekti með mér ávallt meðaumkun og kátínu í senn. „Ekki spyr ég að“, sagði hann, og áður en hann færi að lesa mér pistilinn fyrir ókristilegt innræti kastaði ég spurningunni aftur til hans.
„Ég sný venjum á haus“, svaraði hann. „Tek dag í það. Kalla hann öfuga daginn og geri ýmislegt öndvert við það sem ég er vanur. Þegar ég fann fyrir leiðanum í morgun, pissaði ég sitjandi, braut skurnina á egginu um miðjuna og borðaði mig til endanna, gekk afturábak að heiman og hingað, settist sí svona á bekkinn eins og þú sérð og ákvað um leið og ég sá þig að tala fallega um kommúnismann. En nú er ég hættur við það og ætla frekar að fá mér latte hér í 101 og velta fyrir mér næsta leik í stöðunni. Og það get ég sagt þér, og það er ókeypis, að eftir einn öfugan dag fagna ég heils hugar mörgum dögum fullum af leiðindum.“