trusted online casino malaysia
Guðmundur Andri Hjálmarsson 09/03/2015

Non mea culpa!

Í íslensku samfélagi hefur löngum þótt til siðs að neita allri ábyrgð þegar illa fer. Þrátt fyrir að þessi hvimleiði ósiður hafi verið landlægur frá ómunatíð, þá hafa óvenjulega margir fyrirmenn og -konur þjóðarinnar fallið í pytt hans að undanförnu. Í þónokkrum nýlegum og fyrirferðamiklum tilfellum hafa þessir mætu menn og konur hrakist úr einu vígi neitunar til þess næsta, þar til að þáttur þeirra í viðkomandi málum er hressilega hafin yfir sérhvern skynsamlegan efa. En þegar ekkert virðist eftir fyrir þessa ólánsömu aðila annað en að játa á sig ábyrgðina á öllu klúðrinu—sem ætti fyrir löngu að vera orðin öllum lifandi ljós—þá er stundum gripið í síðasta hálmstráið af nokkurri hugkvæmni: Þáttur viðkomandi í umræddu ódæði er viðurkenndur en því er borið við að allt sem viðkomandi hafi gert hafi verið gert af svo ofboðslega góðum hug að ekki sé sanngjarnt að draga umræddan aðila til ábyrgðar. Með öðrum orðum, viðkomandi hafi í raun gert allt rétt í aðstæðunum en afleiðingin hafi þrátt fyrir allt orðið sú sem hún var, kannski vegna þess að viðkomandi vissi bara ekki betur, kannski vegna þess aðrir og alls óviðráðanlegir þættir komu til, eða kannski vegna einhvers enn annars. Eða með enn öðrum og annars orðum: Skútunni var einfaldlega siglt í strand á óviðjafnanlega vandaðan og óaðfinnanlegan hátt, þar sem allir stóðu sína vakt með snilld, gerðu allt rétt og það sem þeir létu ógert var algerlega og gersamlega ógerlegt að gera …

Þessi nauðvörn er heldur ekki svo galin. Allavega ekki við fyrstu sýn. Sé til að mynda horft til ósanninda sem hliðstæðu, virðist gerandinn hafa nokkuð til síns máls. Þrátt fyrir að lygarinn og sá sem segir ósatt samkvæmt bestu vitund séu báðir uppvísir að sömu ósannindunum, þá er grundvallarmunur á þessum tilfellum: Lygarinn hefur í huga að blekkja viðmælendur sína, á meðan hinn hefur aðeins í hyggju að miðla því sem hann telur sjálfur satt og rétt. Þrátt fyrir að viðmælendum beggja hafi verið tjáð ósannindi—og þar af leiðandi sé skaðinn, ef svo mætti segja, sá sami í báðum tilfellum—þá er ekki hægt að áfellast þann sem segir ósatt án þess að gera sér grein fyrir því á sama hátt og lygarann: Lygarinn ætlaði sér að segja ósatt, hinn ætlaði að segja satt en vissi bara ekki betur. Og einmitt þannig vilja góðkunningjar okkar sömuleiðis meina að þrátt fyrir að óneitanlega hafi þeir gert eitthvað óæskilegt, þá hafi ætlun þeirra í raun og veru aldrei verið að gera neitt illt—og einmitt þess vegna sé svo ferlega ósanngjarnt að draga þá til ábyrgðar.

En það er samt eitthvað bogið við þessa málsvörn. Til þess að byrja með er hugur gerandans okkur öllu að jöfnu ekki aðgengilegur á sama hátt og afleiðingar athafna hans. Segist lygarinn aðeins hafa sagt ósatt samkvæmt bestu vitund, hvernig getum við almennilega treyst því að slíkt sé ekki sömuleiðis lygi? Eigi að taka slíka málsvörn alvarlega, þá verður eitthvað annað og meira að koma til, því þessi málsvörn er öllum möguleg, sekum jafnt sem saklausum. Ein og óstudd er þessi málsvörn því ofboðslega aum.

En þetta er samt aðeins byrjunin. Jafnvel þótt að við viðurkennum málsvörn af þessu tagi—sem við ættum alls ekki að útiloka, því í mörgum tilfellum er hún augljóslega sönn og því réttmæt—þá er einni afar mikilvægri spurningu enn ósvarað. Þrátt fyrir að ábyrgð þess sem segir ósatt af góðum hug sé önnur en þess sem slíkt gerir af ásetningi, þá er ekki þar með ábyrgð hins velmeinandi sé endilega alls engin. Umfang ábyrgðarinnar virðist samt vera ólíkt í ólíkum tilfellum: Segi einhver okkur eitthvað ósatt en í samræmi sína bestu vitund, þá er ekki alveg sama hvernig á því stendur að viðkomandi kom til með að trúa ósannindunum sjálfur til þess að byrja með. Hafi þannig, til dæmis, einhver blekkt viðkomandi á vandaðan hátt eða hafi viðkomandi komist að rangri niðurstöðu þrátt fyrir vandlega ígrundun, þá erum við síður tilbúin að draga viðkomandi til ábyrgðar. Á sama tíma erum við réttilega meira tilbúin að álasa þeim sem trúir ósannindunum sem hann hefur útvarpað vegna þess, til dæmis, viðkomandi misskildi málið, giskaði án íhugunar eða stundaði þekkingarfræðilegt fúsk. Það er því augljóslega ekki ætíð það sama, góður hugur og góður hugur. Spurningin sem brennur er því þessi: Hvenær eru misgjörðir af góðum hug siðferðilega ásættanlegar?

Svarið er ekki sérlega flókið. Í íslenskum hegningarlögum er gerður skýr greinarmunur á ásetnings- og gáleysisglæpum. Þessi greinarmunur útskýrir bærilega hlutskipti þess sem lýgur og þess sem segir ósatt af góðum en gálausum hug. Sá sem ber því við að hafa farið með ósannindi af góðum hug, verður því að vera tilbúinn að færa rök fyrir því að ósannindin hafi ekki verið framin af gáleysi, eigi yfirhöfuð ekki að draga viðkomandi til einhverrar ábyrgðar. Sá sem verður uppvís að ósannindum af gáleysi ber þannig siðferðilega ábyrgð á ósannindunum, á meðan aðeins sá sem segir okkur ósatt þrátt fyrir ýtrustu varkárni er almennilega hafinn yfir slíka ábyrgð. Auðvitað völdum við ósannindi aðeins sem heppilega hliðstæðu en í tilfellum öllu alvarlegri glæpa gildir augljóslega allt sem hingað til hefur verið sagt: Reyni þannig einhver að telja okkur trú um misgjörð sín—hvers eðlis sem hún er—sé ásættanleg vegna þess að viðkomandi hafi bara ekki vitað betur, þá verður viðkomandi einnig að vera tilbúinn að útskýra hvernig standi á því að svo sé. Einkum og sér í lagi hafi viðkomandi einfaldlega átt að vita betur.

Þannig ætti til að mynda lögreglustjóri að vera tilbúinn að útskýra hvers vegna hún taldi það væri í góðu lagi að senda viðkvæm trúnaðargögn til aðstoðarmanns ráðherra, þrátt fyrir að hún hefði alla (og flestum betri) burði til þess að vita að slíkt bryti í bága við lögin. Þannig ætti til að mynda fyrrverandi ráðherrann að vera tilbúin að útskýra, meðal margs annars, hvers vegna hún taldi það samrýmast lögum, hvað þá almennu siðferði, að vasast í rannsókn sem snéri að henni sjálfri og hennar nánustu samferðamönnum, þrátt fyrir að hún væri í öðrum betri aðstöðu til þess að vita einmitt hið gagnstæða. Og þannig ætti til að mynda geðþekki aðstoðarmaðurinn með hvolpsaugun að vera tilbúinn að útskýra hvers vegna hann taldi það svo góða hugmynd að senda trúnaðargögn í bland við eigin dylgjur til sérvalina fjölmiðla, þrátt fyrir að honum ætti að vera ljóst að svoleiðis gerði fólk ekki. Það ætti ekki að duga þessu fólki að segja okkur aðeins að þau hafi gert það sem þau gerðu vegna þess að þau töldu það svo ofboðslega rétt í stöðunni á sínum tíma. Sé það yfirhöfuð satt að þau hafi gert það sem þau gerðu í góðum hug, þá er erfitt að skrifa athafnir þeirra á nokkuð annað en gáleysislegt fúsk ef engin önnur útskýring kemur til.

Í forðum tíð var mjög til móðs að iðrast. Í raun hafa iðrun og syndajátning verið mikilvægir þættir kristinnar trúar öldum saman. Það er því furðulegt að hópur fólks sem stærir sig af kristnum gildum á tyllidögum skuli vera jafn illa við að viðurkenna mistök sín og iðrast þegar slíkt virðist vera það eina rétta og skynsamlega í stöðunni. Og kannski, bara kannski, biðjast afsökunar af einlægri auðmýkt …

 

Latest posts by Guðmundur Andri Hjálmarsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,605